4.1.2014 | 22:35
Gott að ráðherrar kynnist endemis samgöngum.
Vestfirðir eru eini landshlutinn sem er enn eru með svipaðar aðstæður í samgöngum og voru fyrir meira en hálfri öld.
Þetta er eini landshlutinn sem ekki er með flugvöll fyrir alvöru alþjóðlegar samgöngur og eini landshlutinn þar sem ekki má fljúga nema í dagsbirtu, en það þýðir að aðeins 4-5 klukkustundir eru nothæfar á hverjum sólarhring um háveturinn og oft er veðrið verst þá en skárra hinar 18-19 stundirnar.
Í öllum öðrum landshlutum eru flugvellir sem nota má jafnt í myrkri sem birtu.
Milli Ísafjarðar og Patreksfjarðar þarf að aka þrefalt lengri leið á veturna en ef heilsársvegur lægi milli þessara staða um jarðgöng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar.
Það er til marks um hve þessi meira en 400 kílómetra langa vetrarleið er fáránlega löng, að það tekur tíu mínútur að skreppa á flugvél frá Ísafirði til Bíldudals og 25 mínútur að aka þaðan til Patreksfjarðar.
Gott er að ráðherra kynnist þessum endemis samgöngum, þótt því miður sé ekki í augsýn að þessi staða breytist á næstu árum.
Grundvallarmistökin voru að mínu mati gerð fyrir 35-40 árum, þegar ákveðið var að láta veg um Ísaafjarðardjúp og Steingrímsfjarðarheiði fá forgang fram yfir aðra kosti.
Ráðherra veðurtepptur á Flateyri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
,,Grundvallarmistökin voru að mínu mati gerð fyrir 35-40 árum, þegar ákveðið var að láta veg um Ísaafjarðardjúp og Steingrímsfjarðarheiði fá forgang fram yfir aðra kosti. "
Hvaðan hafa flestir þingmenn komið af vestfjörðum ?
Hvað hefur verið gert við mest af þeim peningum sem settir hafa verið í vegamál vestfjarða ?
Þetta bendir allt á sama vandamálið !
Þeim vestfirðingum sem búa norðan verðum fjörðunum er alveg sama um þá sem búa á sunnanverðum fjörðunum. Sama á við um þingmenn.
Hvað er Einar sjálfstæðismaður búinn að vera mörg ár á þingi ?
JR (IP-tala skráð) 4.1.2014 kl. 23:54
Þegar Einar kom á þing voru mistökin staðreynd og höfðu búið til vítahring sem ekki var hægt að komast út úr. Hluti af mistökunum var einhver arfavitlausasta skýrsla um byggðamál sem gerð hefur verið á Íslandi, svonefnd Inn-Djúps áætlun.
Hún gaf sér það, að vegurinn myndi verða til þess að blómleg og afkastamikil byggð með öflugum landbúnaði og fiskveiðum myndi spretta upp í Djúpinu og uppspretta á gríðarlegum samgöngum og samvinnu við Strandamenn og Húnvetninga !
Ómar Ragnarsson, 5.1.2014 kl. 00:42
Já, Ómar minn. Samgönguáætlanir stjórnsýslunnar eru því miður ekki samkvæmar þörfinni, frekar en fyrri áratugina.
Er ekki rétt að senda vegagerðar-moksturs-útgerð Garðabæjar-Álftanna, vestur á firði, til að ryðja stórhættulega vegi? Þeir vestfjarðar-vegir eru "jafnvel" hættulegri, heldur en hinn háskalegi Álftanesvegur? Og þá er nú mikið sagt? Eða hvað segja þeir þarna í Álftanna-Garða-nes-bæ?
Eru þeir kannski bara alveg úti að aka, þessir "alvöru" Suður-Íslendingar, sumstaðar-frá, og jafnvel allsstaðar-frá?
Þeim verður sátta-réttlætisvegurinn háll og illfær, sem ekki þekkja heiðarleg réttlætismörk stritandi samfélagsins fórnandi og sáttfúsa.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 5.1.2014 kl. 00:56
Vestfirðir eru allt of fallegir og einstakir til að fara að eyðileggja þá fyrir komandi kynslóðum með vegum og flugvöllum. Skapa skal einstakt mannlíf þar sem allir flutningar fara sjóleiðina með áttæringum, fólk er hamingjusamt og ferðamenn upplifa hið sanna Ísland.
Félagið Vinir Vestfjarða (IP-tala skráð) 5.1.2014 kl. 06:49
Vinir Vestfjarða eru greinilega deild í Framsóknarflokknum.
Þorsteinn Briem, 5.1.2014 kl. 08:21
Jæja ég get nú ekki orða bundist en það sem að Ómar sagði er rétt og vonandi er ekki kominn upp gamli rýgurinn á milli sunna og norðanverðra Vestfjarða aftur sem tröllreið þeim fallega landshluta frá kannski einhverjum sem hafa ekki kynnst óblíðri veðráttu þess landshluta! En með vissan ráðherra sem að vinur minn Ómar nefnir þá er þetta rétt og hans forystukall sagði barasta þegar að Vestfjarðagöngin voru komin á koppinn að það væri ódýrara að flytja alla sem að byggju á því svæði í STÓRA blokk í Breiðholtinu!! Og þess vegna segi ég við þá sem krítisera Ómar og dásama ráðherrann fyrrv og jafnvel forseti alþingis í dag að kynna sér blöðin og sjónvarpið til að finna orð þessa manns enda eftir þessi orð þá hríðféll fylgi við flokk þeirra í landshlutanum. Og enda hafa bensín og olíugjöldin runnið til einkaframkvæmda samanber Perlan og Ráðhús ofl en ekki til Vegagerðar og viðhald vega en ríkishýtin vildi sitt svo hægt væri að hampa stórgrosserum ofl sem fóru svo á hausinn og fengu hundruðir milljarða afskrifaða!!!
Örn Ingólfsson, 5.1.2014 kl. 10:57
Tölur sýna, að ríflega 20 vegarkaflar á höfuðborgarsvæðinu eru "háskalegri" en Álftanesvegur og umferðin um hann aðeins 40% af þeirri umferð sem talin er réttlæta það að breyta vegi í 2+1.
Ég og aðrir voru plataðir á sínum tíma til þess að trúa mýtunni sem átti að réttlæta það að forgangsraða kolrangt í vegarbótum á höfuðborgarsvæðinu.
Ómar Ragnarsson, 5.1.2014 kl. 15:32
Tek undir með flestu hér að ofan, ég bý á Austurlandi og þannig er staðsett hjá okkur að eina fæðingardeildin okkar hér er staðsett bak við fjallvegi á Neskaupstað, og hef ég fengið að kynnast því á eigin skynni hve háskalegt og hættulegt það getur verið að senda ófrískar og fæðandi konur í hálku, ófærðarakstur. Þetta er hreinlega galið, annað sem mig langar að koma að varðandi okkur hér úti á landi og það er það að sem foreldri unglings sem á núna samkvæmt áætlun að endurnýja ökuskýrteinið til þess að fá fullnaðarskýrteini, og ljúka Ö 3 þá þarf hann að fara suður og kosta sig þangað sjálfur og taka þetta námskeið, og borga bæði uppihald, far og gistingu auk vinnutaps, mér finnst þetta vera mismunun, það myndi trúlega heyrast í þeim í Reykjavík ef þeir þyrftu að senda unglinganna sína austur á Hérað til að klára bílprófið sitt. Mig langaði bara að koma þessu í loftið :) kveðja Nína
Nína M Erlendsdóttir (IP-tala skráð) 5.1.2014 kl. 23:30
Tek undir allt sem Ómar segir, nema eitt. Samgöngur milli norðanverðra vestfjarða og sunnanverðra voru mun betri fyrir 50 árum. Þá voru strandferðir í það minnsta vikulega í hvora áttina. Flugferðir voru milli margra staða sem nú eru ekki. samgöngur hafa aðeins batnað frá Þingeyri og norður um og frá Bíldudal og suður um. En eru þó einganveginn nógu góðar á þessum spottum. En það er alls ekki rétt að allir á norðanverðum vestfjörðum sé sama um samgönguleysið við suðurfirðina. Alla vega ekki hér í Dýrafirði. Eitt er þó vænlegast til útbóta að hætta að agnúst út í aðra eða þá sem fá bættan vegarspotta hjá sér.
Bergur Torfason (IP-tala skráð) 6.1.2014 kl. 01:36
Hárrétt hjá Ómari. Mín skoðun er að sú ákvörðun að leggja hraðbraut eftir Steingrímsfjarðarheiði hafi verið mestu mistök í ísl. vegagerð á síðari hluta 20. aldar. Með þeirri ákvörðun voru íbúar Austur-Barðastrandarsýslu skildir eftir úti í kuldanum og sú ákvörðun bitnaði líka illilega á Vestur-Barðstrendingum. Hvert skyldu t.d. íbúar Hólmavíkur sækja sjúkrahússþjónustu? Ætli þeir keyri yfir Steingrímsfjarðarheiði til að komast í sjúkrahúsið á Ísafirði? Nei, sjúkrahúsið þeirra er á Akranesi (sem er reyndar rangur staður fyrir það sjúkrahús, hefði átt að vera í Borgarnesi en það er nú önnur saga).
Einar Örn Thorlacius fyrrv. sveitarstjóri Reykhólahrepps (IP-tala skráð) 6.1.2014 kl. 08:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.