Er það frétt að rúta bíði á umferðarljósum?

Atvikið á Keflavíkurflugvelli sem trónir efst á lista yfir mest lesnu frétt dagsins á mbl.is, er jafn hversdagslegt og að rúta komi að umferðarljósum og sé stöðvuð vegna þess að það kviknar gult og síðar rautt ljós á götuvitanum.

Svo algengt er að flugvélar verði að víkja fyrir annarri flugumferð að það er engin frétt í sjálfu sér, allra síst þegar umferðin er mest. Ef öll þau tilfelli væru talin þar sem flugvélar verða að seinka för vegna til að umferðin gangi upp, eru þessi atvik að meðaltali fjölmörg á dag á hverjum flugvelli.

Svo haldið sé áfram með samanburðinn á rútu og stórri flugvél er eini mismunurinn sá, að hægt er að stöðva rútuna alveg á götunni eða veginum, meðan vikið er fyrir annarri umferð, en flugvélin getur ekki stöðvað sig í loftinu heldur verður að fara í hring eða "lengja í" eins og flugumferðarstjórar biðja oft flugmenn um að gera.

Nákvæmlega engin hætta var á ferðum á Keflavíkurflugvelli í gær. Málið var einfalt: Það tók aðeins lengri tíma en áætlað var fyrir flugvélina, sem var á jörðu niðri, að komast út af brautinni, og vélin sem var í aðflugi "lengdi því í" og seinkaði lendingu sinni  því að fara hring og lenda að því búnu.  


mbl.is Flugvél var fyrir á flugbrautinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flugvélin var í aðflugi og þurfti að hætta við lendingu. Hún var ekki að bíða eftir lendingarleyfi í biðstöðu. Það er mjög sjaldgæft að 180 farþega flugvél sem komin er að því að snerta jörð þurfi að hætta skyndilega við lendingu, gefa allt í botn og snúa upp aftur. Alvarleikann má sjá á því að svona atvik eru tilkynnt strax í neyðarsíma Rannsóknarnefndar flugslysa og eru rannsökuð af Rannsóknarnefndinni og Lögreglu. Þessi "rúta" þurfti að nauðhemla á grænu ljósi.

Oddur zz (IP-tala skráð) 4.1.2014 kl. 19:36

2 identicon

Hvar hefur þess verið getið að þetta tilvik hafi verið tilkynnt til RNF?  Það liggur ljóst fyrir að engin vél fær lendingarheimild nema brautin sé auð.  Hins vegar fljúga menn aðflugið og fá svo heimildina þegar lenda má.  Allan tímann verða þeir að vera viðbúnir því að hætta við.  M.a. þess vegna er aldrei dregið til flullnustu af þotuhreyflum til þess að nægt afl sé til staðar svo hverfa megi frá fyrirvaralaust.  Ef aðflug væri aldrei hafið fyrr en lendingarheimild lægi fyrir myndu afköst flugvalla minnka verulega.  Verulega. 

Einu sinni sat ég á Heathrow og beið eftir flugi heim.  Þá dundaði ég mér við að taka tímann milli lendinga á sömu braut.  Venjulega liðu um 30-40 sekúndur milli flugvéla. Það gefst því ekki langur tími fyrir hverja til að drolla á brautinni og þeir sem á eftir komu urðu að hafa allt sitt á hreinu.  Enda munu vera svona 600 tilvik á ári á þeim velli þar sem flugvél sem komin er á stutta lokastefnu hættir við lendingu.  Fer þó ekki sögum af því á forsíðu netútgáfu The Times.

Þessi rúta hafði aldrei fengið græna ljósið. 

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 4.1.2014 kl. 20:23

3 identicon

Oddur zz

Þú veist akkúrat ekkert hvað þú ert að bulla !

Birgir Guðjónsson (IP-tala skráð) 5.1.2014 kl. 00:26

4 identicon

Fyrir nokkrum árum var ég í þotu frá Icelandair á leið frá New York.  Rétt áður en við komum að flugvellinum í Keflavík var flogið í gegn um nokkuð þéttan hríðarbyl.  Aðflugið var eðlilegt, og þar sem ég sat í gluggasæti sá ég hvítu línurnar á flugbrautinni þjóta framhjá.  Það segir mér að aðeins voru nokkrar sekúndur í "touch-down". 

Skyndilega voru allir hreyflar keyrðir í botn, og vélin reif sig upp, með meiri látum en ég hef áður orðið fyrir í flugi. Meðan floginn var aukahringur fyrir næstu tilraun tilkynnti flugstjóri að komið hefði í ljós að vélsópur var eftir á brautinni (hafði líklega verið að hreinsa eftir hríðarbylinn).  Síðan var lent farsællega.

Nokkur skelfing ríkti í vélinni, og einhvern veginn komust fréttamenn í málið.  Í kvöldfréttatíma sjónvarps var rætt við blaðafulltrúa Flugleiða, og hann sagði efnislega að þetta hefði ekki verið neitt mál.  Vélin hefði einfaldlega verið beðin um að taka aukahring vegna þess að ekki var búð að hreinsa brautina.

Ég dáðist vissulega að augljósum hæfileikum mannsins til að vera blaðafulltrúi Flugleiða, en kann illa við að láta ljúga að mér.  Afstaða mín til fréttatíma sjónvarpsstöðva hafa mótast af þessu atviki síðan. 

Hörður (IP-tala skráð) 5.1.2014 kl. 12:18

5 identicon

Hörður, hvaðan kemur lygin? Það að það sé sópur eftir á brautinni er ekki e-ð sem flugstjórinn uppgötvaði, enda hríðarbylur og lélegt skyggni, heldur er það flugturninn sem segir honum að hefja fráhvarfslfug þar sem turninnum hefur verið tilkynnt af snjóhreinsunarbílunum að einn væri ekki enn þá kominn út af, en flugturninn er í stöðugu radíósambandi við snjóhreinsunarbíla á sér bylgju sem flugmenn hafa ekki aðgang að. Það gerist oft í hríðum í Keflavík þegar það snjóar mikið að vélar verða að hefja aðflug á meðan sjóhreinsunarbílar eru enn á brautinni, því hver mínúta skiptir máli. Það sem upplýsingarfulltrúinn sagði var því allt satt og rétt. Það er síðan fleiri en ein braut í Keflavík og því ekki ólíklegt að þú hafir jafnvel séð brautarljós á annarri braut. Og til upplýsinga þá eru ALLTAF mikil læti þegar þota hefur fráhvarfsflug, mun meiri læti en í flugtaki.

Guðmundur (IP-tala skráð) 5.1.2014 kl. 13:50

6 Smámynd: Sveinn R. Pálsson

Gott að Ómar viti svona vel hvað gerðist þarna, án þess að hafa verið á staðnum. Aftur á móti var fólkið í vélinni mjög sjokkerað yfir þessu, aðeins ca. 3 sek í lendingu þegar allt var gefið í botn, en þau sem voru í vélinni vita ekkert um málið.

Sveinn R. Pálsson, 5.1.2014 kl. 20:38

7 identicon

Ómar veit allt um allt og alla!

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 5.1.2014 kl. 21:23

8 identicon

Tæplega efast nokkur maður um að einhverjir um borð hafa verið gripnir hræðslu.  Það sem Ómar og fleiri voru að baksa við var að sýna fram á að hræðslan var ástæðulaus;  fráhvarfsflug er ekkert stórmál eða stórhættulegt fyrirbæri og að allt myndi hafa verið „undir kontról“.  Flugmenn eru gríðarlega þjálfaðir til að takast á við slíkar uppákomur og það að fara yfir gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar er miklu hættulegra.

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 6.1.2014 kl. 16:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband