Þarf að vita um aldur ferðamanna og stöðu.

Ein af ástæðum þess að minni tekjur hafi séu af hverjum erlendum ferðamanni getur verið sú, að ferðamennirnir séu yngri, til dæmis námsfólk, sem hafi minna á milli handanna en eldra fólk.

Líka þarf að finna út hve margir þeirra koma aftur til landsins síðar þegar þeir eru orðnir miklu betur stæðir og þá jafnvel með maka eða kunningja í slagtogi.

Í kringum 1970 fundu bandarísku bílaframleiðendurnir það út að japanskir bílar, sem voru í boði á bandaríska markaðnum, væru einna minnstir og ódýrastir boðinna bíla og því engin ógn við veldi bandarískra bíla.

Þeir gættu ekki að því að japanir höfðu gert leynilega áætlun um ná markaðnum, með því að höfða fyrst til yngstu kaupendanna, sem höfðu minnsta peninga og vildu bíla, sem væru sem ódýrastir í rekstri.

20 árum síðar kom árangurinn í ljós: Smám saman höfðu japönsku bílarnir stækkað, og námsfólkið, sem japönsku smábílarnir höfðu reynst svo vel, keypti dýrari og stærri japanska bíla þegar það hafði lokið námi og var komið í vel launaðar stöður.

Japanskir og evrópskir bílaframleiðendur höfðu skákað bandarísku bílaframleiðendunum, meira að segja dýrustu og stærstu  bandarísku bílunum, með því að bjóða Lexus, Benz S og BMW 7 og auk þess stækkað Honda Civic og Honda Accord upp í mun dýrari bíla.

Ungur og auralítill erlendur ferðamaður, sem líkar vel í fyrstu ferð sinni til Íslands, er líklegur að koma aftur til landsins síðar og það jafnvel oftar en tvisvar. Ég þekki nokkur dæmi um slíkt og hef nefnt eitt besta dæmið áður, "puttaferðalanginn", einn af "bakpokalýðnum" frá 1976 sem kemur árlega til Íslands með 30-40 manna hóp með sér.  

Meiri breidd þarf að vera í því sem í boði er. Mér skilst að nýtt, vandað og "dýrt" hótel á Patreksfirði hafi ekki eyðilagt eftirspurn eftir ódýrari gistingu, heldur eingöngu skapað nýjan markhóp ferðamanna í viðbót við þann sem var og verður áfram.

 


mbl.is Fleiri ferðamenn en minni tekjur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Útgjöld hvers erlends ferðamanns til íslenskra fyrirtækja voru að meðaltali um 354 þúsund íslenskar krónur árið 2012, um 44 þúsund krónur á dag að meðaltali.

Árið 2012 komu um 673 þúsund erlendir ferðamenn hingað til Íslands og það ár voru útgjöld erlendra ferðamanna til íslenskra fyrirtækja samtals 238 milljarðar króna.

Erlendir ferðamenn
voru að meðaltali 6,6 gistinætur hér á Íslandi að vetri til en 10,2 nætur sumri til árið 2012, um átta gistinætur að meðaltali sumar og vetur.

Ofangreindar fjárhæðir samsvara því að útgjöld hvers Íslendings vegna ferðalaga til útlanda árið 2012 hefðu að meðaltali verið 704 þúsund krónur og meðalútgjöld hjóna því 1,4 milljónir króna.

Þá var meðaldvalarlengd Íslendinga á ferðalögum erlendis 15,9 gistinætur.

Ferðaþjónusta hér á Íslandi í tölum árið 2012 - Ferðamálastofa í apríl 2013

Þorsteinn Briem, 16.1.2014 kl. 00:17

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í fyrra, 2013, varð ferðaþjónustan stærsti útflutningsatvinnuvegurinn hér á Íslandi.

30.12.2013:

Níu þúsund starfa í ferðaþjónustunni hér á Íslandi allt árið og þeim fjölgar um nokkur þúsund á næstu árum


Árið 2012 voru útgjöld erlendra ferðamanna til íslenskra fyrirtækja samtals 238 milljarðar króna.

Þessi íslensku fyrirtæki greiða alls kyns skatta til íslenska ríkisins og þeir níu þúsund Íslendingar sem hjá þeim starfa greiða að sjálfsögðu einnig skatta til íslenska ríkisins, tekjuskatt og næst hæsta virðisaukaskatt í heimi af vörum og þjónustu sem þeir kaupa hér á Íslandi.

Svo og útsvar til íslenskra sveitarfélaga.

Og erlendir ferðamenn greiða í raun alla þessa skatta með útgjöldum sínum til íslenskra fyrirtækja, 238 milljörðum króna árið 2012.

Og Sjálfstæðisflokkurinn ætti að fara að ákveða sig hvort skattar eru lágir eða háir hér á Íslandi.

Þorsteinn Briem, 16.1.2014 kl. 00:40

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

21.1.2013:

Heildarkostnaður ríkis og Reykjavíkurborgar vegna byggingar Hörpu um 18 milljarðar króna eftir yfirtöku að meðtöldum fjármagnskostnaði vegna lána til 35 ára


1.7.2010:

Um 10 milljarða króna kostnaður vegna byggingar Hörpu fyrir yfirtöku ríkis og Reykjavíkurborgar


Heildarkostnaður
vegna byggingar Hörpu er því um 28 milljarðar króna.

Tekjur
vegna Iceland Airwaves og CCP Fanfest eru samanlagt um einn og hálfur milljarður króna í nokkra daga á ári hverju, eða 30 milljarðar króna á 20 árum.

Þorsteinn Briem, 16.1.2014 kl. 03:40

6 identicon

Mín tilfinning úr bæði gistingu og leiðsögn er nákvæmlega þessi Ómar.
Í sumar var hjá mér breiðari hópur (þjóðerni) en nokkru sinni fyrr, og það áberandi. Og mikið af ungu fólki. Eins í leiðsögninni, - heldur yngra fólk.
Maður sér þetta líka vel á rútuplönunum.
En 20 milljarðar í skattekjur, - það mætti nú kannski nota svona 10% í aðstöðubætur.....

Jón Logi (IP-tala skráð) 16.1.2014 kl. 07:26

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Um 20,6 milljarða króna skatttekjur íslenska ríkisins af ferðaþjónustu árið 2012 stenst engan veginn.

Einungis
beinir vöru- og þjónustuskattar af ferðaþjónustu voru 15 milljarðar króna árið 2010.

Ferðaþjónusta hér á Íslandi í tölum árið 2012 - Ferðamálastofa í apríl 2013

Þorsteinn Briem, 16.1.2014 kl. 07:46

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Könnun meðal erlendra ferðamanna sem dvöldu hér á Íslandi veturinn 2011-2012 (frá september til maí):

  • Tæplega helmingur (47,5%) svarenda var með há laun eða laun yfir meðallagi, um 41% með laun í meðallagi og um 11% með lág laun eða laun undir meðallagi.
  • Helmingur svarenda var í stjórnunar- eða sérfræðistörfum, 13,1% í skrifstofu- eða þjónustustörfum, 10,1% voru nemar, 8,3% ellilífeyrisþegar eða heimavinnandi, 6% sérhæft starfsfólk eða tæknar og 12,1% í öðrum störfum.
Erlendir ferðamenn sem dvöldu hér á Íslandi veturinn 2011-2012 - Ferðamálastofa

Þorsteinn Briem, 16.1.2014 kl. 08:17

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

Könnun meðal erlendra ferðamanna sem dvöldu hér á Íslandi sumarið 2011:

Tæp 47% svarenda voru með há laun eða laun yfir meðallagi, rúm 39% með laun í meðallagi og tæp 14% með lág laun eða laun undir meðallagi.

Erlendir ferðamenn sem dvöldu hér á Íslandi sumarið 2011 - Ferðamálastofa

Þorsteinn Briem, 16.1.2014 kl. 08:38

10 identicon

Almennur kostnaður Íslendinga við mikla fjölgun ferðamanna hlýtur að aukast

og þar sem heildartekjurnar fara hrað minnkandi þá er þessi "vaxtabroddur" í íslensku atvinnulífi ekki lengur sjálfbær

Grímur (IP-tala skráð) 16.1.2014 kl. 09:35

11 Smámynd: Þorsteinn Briem

Árið 2012 voru útgjöld erlendra ferðamanna til íslenskra fyrirtækja samtals 238 milljarðar króna.

Þessi útgjöld hafa að sjálfsögðu aukist gríðarlega mikið undanfarin ár og auðvitað kemur hvergi fram að þau hafi minnkað.

"Sá 3,1% hagvöxtur sem mældist á fyrstu níu mánuðum [2013 ] var að verulegum hluta drifinn áfram af stórauknum tekjum í ferðaþjónustu, enda var framlag þjónustuviðskipta við útlönd til hagvaxtar 2% á tímabilinu."

Í desember
síðastliðnum fóru um 42 þúsund erlendir ferðamenn frá landinu um Keflavíkurflugvöll, eða 49% fleiri en í desember 2012.

Í fyrra, 2013, fóru 781 þúsund erlendir ferðamenn frá landinu um Keflavíkurflugvöll, 21%, eða 134 þúsund fleiri en 2012.

Og það ár fóru um 20% fleiri erlendir ferðamenn frá landinu um Keflavíkurflugvöll en árið 2011 og þá voru þeir 18% fleiri en 2010.

Um 96% erlendra gesta fóru um Keflavíkurflugvöll í fyrra, eins og árið 2012.

Og þar að auki komu hingað til Íslands um 100 þúsund farþegar með skemmtiferðaskipum á síðastliðnu ári, svipað og 2012.

Erlendir ferðamenn voru því
samtals um 912 þúsund hér á Íslandi í fyrra, 2013.

Þorsteinn Briem, 16.1.2014 kl. 10:05

12 identicon

Þetta er nú meira endalausa vælið um að ferðamenn eyði of litlu.

En hvað eiga ferðamenn að kaupa, annað en lélegan mat til að halda líftórunni. Opal, Góu rúsínur, harðfisk á EUR 100.00 kílóið, smjör frá Írlandi, North 66°, sem finnst ekki utan landsteinanna, því stenst enga samkeppni etc? 

Ferðamenn eru jafnan ekki sparsamir, láta hinsvegar ekki okra á sér. En það er nákvæmlega það sem gerist. Okrið á klakanum er þjóðinni til skammar.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 16.1.2014 kl. 10:18

13 Smámynd: Þorsteinn Briem

21.3.2012:

"Um hálf milljón erlendra ferðamanna dvaldist hér á Íslandi árið 2010 og hver þeirra keypti hér vörur fyrir 16.500 krónur að meðaltali.

Tæplega 300 þúsund þeirra fengu endurgreiddan virðisaukaskatt af vörukaupum sínum við brottför og keyptu þannig Tax-Free fyrir rúmlega fimm milljarða króna.

Hér er einungis miðað við Tax-Free sölu en hún afmarkast við vörukaup fyrir meira en fjögur þúsund krónur og aðra þætti, svo sem skilahlutfall, beinan útflutning o.fl.

Þannig má áætla að erlendir ferðamenn hafi í raun keypt hér vörur fyrir rúmlega tíu milljarða króna en þá eru ótalin viðskipti með vörur og þjónustu sem virðisaukaskattur fæst ekki endurgreiddur af.

Fáar atvinnugreinar hafa vaxið hér jafn ört og verslun og þjónusta og þá sérstaklega vegna erlendra ferðamanna.

Á árinu 2001
var Tax-Free verslun hér tæplega 1,5 milljarðar króna en þá komu um 208 þúsund ferðamenn til landsins.

Árið 2010
var Tax-Free verslun erlendra ferðamanna hins vegar tæplega fimm milljarðar króna en þá dvöldust hér 495 þúsund erlendir ferðamenn.

Fjölgun ferðamanna
var því 78% á meðan verslun þeirra jókst um 233%."

Hvers virði er erlendur ferðamaður hér á Íslandi? - Viðskiptaráð Íslands

Þorsteinn Briem, 16.1.2014 kl. 11:48

14 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Blaðafyrirsögn í dag getur gefið villandi hugmynd: "Fleiri ferðamenn en minni tekjur."

Hún gefur til kynna að tekjur þjóðarinnar af ferðaþjónustu hafi minnkað, sem er alrangt.

Hið rétta er að vöxtur ferðaþjónustunnar hefur veirð margfaldur síðan 2002 og heildartekjurnar af henni sömuleiðis.

"Minni tekjur" eru eitthvað minni tekjur á hvern ferðamann.

Ómar Ragnarsson, 16.1.2014 kl. 15:09

15 Smámynd: Benedikt V. Warén

Ég legg til að Haukur Kristinsson verði kosinn jákvæðasti bloggari Íslands. 

Sama hvar maður dettur inn og les pistlana hans, þá geisla þeir af jákvæðni og hlýju.  Og ekki skemmir það heldur fyrir hve yndislega rökfastur hann er í umfjöllun sinni um menn og málefni.

Benedikt V. Warén, 16.1.2014 kl. 21:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband