17.1.2014 | 17:56
Bráðnun jökla átti að bæta vatnsbúskapinn.
Það rímar ekki saman að jöklar landsins séu að minnka en að samtímis búi Landsvirkjun sig undir tap vegna lakari vatnsbúskapar annað árið í röð, og nú mun víðtækari vatnsskort en var í fyrra.
Það er enginn efi á því að jöklarnir minnka, - það sýna mælingar. Vatnsbúskapurinn var miðaður út frá loftslagi og rennslistölum 1960-1990 þegar kuldatímabil var hér á landi.
Fyrstu árin eftir að Hálslón var búið til blasti við að rennsli í það að sumarlagi var mun meira en reiknað hafði verið með og einnig að aurframburðurinn var miklu meiri en reiknað hafði verið með.
Mynd, sem fylgja á þessum pistli er tekin tveimur árum eftir að Hálslón hafði verið fyllt alveg í fyrsta skipti og á henni sést að þar sem áður var gil með nokkrum fossum Kringilsár, voru þá þegar komnar sléttar jökulleirur.
Kringilsá hafði sem sé fyllt upp gilið, sem var neðst á annað hundrað metra djúpt og var gefið nafnið Stuðlagátt vegna einstaklega fallegra stuðlabergshamra sitt hvorum megin við það.
Í mati á umhverfisáhrifum var spáð, að sandurinn myndi kaffæra Töfrafoss efst í því á 100 árum, en á efri myndinni sést hve langt er komið á aðeins tveimur árum.
Ég tel nauðsynlegt að Landsvirkjun upplýsi hvernig á vandræðunum með vatnsbúskapinn stendur.
Sem leikmanni detta mér nokkur atriði og spurningar í hug:
1. Breytt vatnsrennsli á veturna og vorin sem veldur því að lónin tæmast svo mjög á vorin, að það verður minnka rennslið til orkuveranna?
2. Hve mikið hefur miðlunargeta Blöndulóns og þó einkum Sultartangalóns minnkað vegna þess að þau eru að fyllast upp af auri? Þess var lítt eða ekki getið þegar Sultartangalón var myndað að það myndi fyllast upp af auri á nokkrum áratugum og verða að mestu ónothæft. Er það kannski skýringin á þeirri pressu sem nú er sett á það að fara út í Norðlingaölduveitu ?
3. Selur Landsvirkjun meiri orku en reiknað var með og lendir þess vegna í vandræðum þegar vatnsbúskapurinn höktir?
Landsvirkjun er í eigu þjóðarinnar og skuldar henni útskýringar á ástandi sem rímar ekki við það að jöklarnir séu að bráðna og minnka.
Einn minnsti jökull landsins að hverfa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ís í bráðnun leitar að sjálfsögðu niður á við. En bráðnunin var ekki að byrja, - er ekki verið að bera saman bráðnun og bráðnun? Löngu byrjuð!
Jón Logi (IP-tala skráð) 22.1.2014 kl. 14:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.