Og hvað með það?

Þjóðkjörnir forsetar og stjórnmálamenn eru valdir til þess að sinna ákveðnum verkefnum fyrir þjóðir sínar. Það fer síðan eftir því hvernig þeim tekst til við að sinna þessum verkefnum, hvernig kjósendur bregðast við því, sýna þeim stuðning, lítinn eða mikinn eftir atvikum,  í skoðanakönnunum eða kosningum.

Franskir kjósendur hafa verið óvenju ónægðir með störf og stefnu forseta síns og láta hann vita af því í skoðanakönnunum.

Mikill meirihluti franskra kjósenda telur að þetta skipti máli, - ekki einkalíf forsetans eða það hvort hann heldur með þessu knattspyrnuliðinu eða hinu.

Tökum smá samanburð:

Kvikmyndaleikarar og fleiri listamenn eru stétt fólks sem vinnur ákveðin listræn verk. Löngum hefur verið heilmikið um að vera í einkalífi þeirra en ekki þekki ég dæmi þess að það hafi bitnað á mati á verkum þeirra á hvíta tjaldinu eða í öðrum birtingarformum listarinnar.

Sama ætti að gilda um stjórnmálamenn, að þeir séu fyrst og fremst metnir og dæmdir eftir því hvernig þeir standa sig við stjórnmálastörf.

Tvívegis á síðustu öld voru bandarískir hermenn sendir til Frakklands til að berjast í heimsstyrjöldunum.

Þeir virðast hafa komið heim með býsna miklar sögur af frjálslyndi Frakka í ástamálum, því að það varð yrkisefni í ótal dægurlögum, bókmenntum og kvikmyndum.

Af hverju? Jú, Bandaríkjamennirnir komu úr hræsnisfullu samfélagi sem á yfirborðinu var púritanskt en smjattaði samt á einkalífi fólks og þetta samfélag hagaði sér áreiðanlega ekkert betur.

Faðir minn heitinn sagði stundum: "Það er ekki hægt að berja fólk til ásta."  Og það hefði mátt bæta við: ...né berja fólk frá ástum."

Ef það eru einhver vandræði hjá forystumanna þjóða í einkalífi þeirra á það að vera þeirra mál. Þessi vandræði eru oftast þungbær og nógu erfið til þess að vera ekki að gera þau verri með því að bera þau á torg. Ef stjórnmálamennirnir láta þetta bitna á störfum sínum fyrir almenning á að leggja mat á það með því að skoða störfin ein.

Þegar slegið er upp fréttum af því sem oft er afrakstur gróusagna og eineltis ágengra paparazzi-ljósmyndara og beðið um viðbrögð alemmings við því er réttasta svarið: Og hvað með það?  

 


mbl.is Hittust á laun í tvö ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Þessu er ég alveg sammála Ómar, það er oft til skammar hvernig níðst er á fólki fyrir sakir sem engum öðrum kemur við en fjölskyldunni. Þetta eru kjaftatífur og rógberar sem ættu að skammast sín, og sem hafa ekkert sjálfstraust og bera enga virðingu fyrir sjálfum sér né öðrum!! kv Bláskjár.

Eyjólfur G Svavarsson, 17.1.2014 kl. 16:27

2 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Hjartanlega sammála þessu. Það var bæði pínlegt og broslegt á að horfa hvernig þingmenn Repúblikanaflokksins og fjölmiðlar í BNA fóru slíkum hamförum mánuðum saman yfir klaufaskap Clintons í kvennamálum að þau málefni sem virkilega skiptu máli komust ekki á dagskrá og voru varla rædd.

Ég held að sagan muni dæma Clinton sem einn af betri forsetum BNA. 

Axel Jóhann Hallgrímsson, 17.1.2014 kl. 17:39

3 identicon

Sammála Ómar. Stjórnmálafólk á rétt á að hafa sín einkamál í friði eins og aðrir. 

Ármann Birgisson (IP-tala skráð) 17.1.2014 kl. 20:18

4 identicon

Þótt náttúran sé lamin með lurk

leitar hún út um síðir

Jón Logi (IP-tala skráð) 17.1.2014 kl. 23:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband