"Hótel Borg tekur til starfa 1930."

Þessa dagana er þess minnst að Eimskipafélag Íslands var stofnað 17. janúar 1914, eða fyrir réttum 100 árum. Stofnun þess var stór áfangi í sjálfstæðisbaráttunni, því ein af ástæðum þess að Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd 1262 var sú, að landsmenn gátu ekki lengur tryggt nægar samgöngur við landið og sömdu við Noregskomur um að gera það.

Þegar ég leit í minnisbókina mína í morgun sá ég að við 18. janúar stendur: "Hótel Borg tekur til starfa 1930."

Ég veit ekki hvort við gerum okkur fulla grein fyrir því hve mikill áfangi þetta var í menningarlífi okkar og þjóðlífi því að nú um stundir eru það vart tíðindi þótt tekin hótel í notkun hér á landi.   

En 1930 var öldin önnur. Fram að því hafði ekkert hótel verið á landinu sem gat staðist samjöfnuð við bestu hótelin í öðrum löndum. Ekkert þáverandi hótela var í steinhúsi og gat boðið upp á 1. flokks þjónustu og aðstöðu.

Aðeins örfá stórhýsi voru á Íslandi þá.

Á þeim tíma sem Hótel Borg var tekin í notkun hefði það líklega verið eina hótel landsins sem hefði getað státað af fimm stjörnum á þess tíma mælikvarða.

Helstu hótelin í Reykjavík voru Hótel Ísland, Hótel Vík og Hótel Hekla, öll í timburhúsum og ekki sambærileg að gæðum við það besta erlendis.

1930 var stórkostlegt ár á Íslandi, enda í lok "the roaring twenties", gríðarlegs uppgangstíma, einkum í Ameríku en einnig í Evrópu, þótt í minna mæli væri þar, því að Evrópa og heimsveldi hennar voru enn ýmist í sárum eða í rúst eftir Heimsstyrjöldina fyrri.

Ríkisútvarpið, Landsspítalinn, koma Zeppelin-loftfaranna, stórglæsileg Alþingishátið o. fl. setti mark sitt á árið, því að áhrif hrunsins á Wall street og upphafs kreppunnar miklu, voru ekki komin fram.  

Hótel Borg reis því á hárréttum tíma og það kom í veg fyrir að bíða þyrfti í 30 ár í viðbót eftir slíku, því að næsta hótel í líkingu við Borgina reis ekki fyrr en 30 árum síðar, Hótel Saga.

Eftir 1930 fór kreppan í hönd, síðan stríðsárin, þegar bygging stórhýsis og hótels hefði verið óhugsandi, fram til 1950 voru Þjóðleikhúsin og endurnýjun fiskiskipaflotans í forgangi og eftir 1950 áburðarverksmiðja og Sogsvirkjanir.  

Stórhuginn og afreksmaðurinn Jóhannes Jósefsson færði landi sínu og þjóð því mikið með því að ávaxta sitt pund hér en ekki í Vesturheimi og gera með því mikið gagn.

1944 brann Hótel Ísland og má nærri geta hvílíkt ástand hefði skapast þá ef Hótel Borgar hefði ekki notið við.

Fjögur hús sem kallast á í miðborg Reykjavíkur, Iðnó, Menntaskólinn í Reykjavík, Sjálfstæðishúsið (NASA) og Hótel Borg mörkuðu tímamót í mínu lífi og því fyllist ég þakklæti þegar mér verður hugsað til þeirra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Seðlabankinn er eina húsið við Kalkofnsveg, sem heitir eftir kalkbrennsluofni sem þar var og notaður til að brenna kalk til sementsgerðar.

Þar var einnig sænska frystihúsið, fyrsta frystihúsið á landinu sem sérstaklega var byggt sem slíkt, og stærsta hús á landinu þegar það tók í fyrsta skipti á móti fiski til frystingar árið 1930.

Þorsteinn Briem, 18.1.2014 kl. 19:56

2 identicon

http://lemurinn.is/2014/01/08/hotel-borg-arid-1930/

Gunni (IP-tala skráð) 19.1.2014 kl. 06:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband