19.1.2014 | 15:22
Löngu tímabært !
Ætli það séu ekki 40 ár síðan ég sá lokað svæði fyrir æfingaakstur á Spáni og reyndi að vekja athygli á gildi slíks hér á landi með þeim rökum, að úr því að mun fátækari þjóð en við gæti gert þetta, gætum við gert það líka. Þá voru Spánverjar ekki farnir að græða á ferðaþjónustunni neitt líkt því og síðar varð og enn undir einræðisstjórn Francos.
1978 kom í ljós í ferðalagi mínu til Sovétríkjanna að kennsla í akstri var skyldunámsgrein í skólum þar, í landi þar sem bílaeign var aðeins brot af því sem þá var hér á landi.
Í hönd fór áratuga bið eftir því að hreyfing kæmist á málið hér á landi. Fyrir nokkrum árum var sýndur ökuhermir á sýningu í Smáralind og í honum var til dæmis hægt að prófa sig áfram í sparakstri.
Því er fagnaðarefni þegar byltingarkenndur ökuhermir er kominn til skjalanna og vonandi að fleiri fylgi á eftir.
Það var fyrir löngu kominn tími til að nota nýjustu tækni og samræmt átak til þess að bæta akstursvenjur og akstursfærni okkar Íslendinga.
Það má ekki einbína á hvað svona átak kostar, því að ávinningurinn er margfalt meiri við að komast hjá þjáningum, meiðslum og miklu útgjöldum vegna tjóns á bílum og fólki.
Tæknibylting í ökunámi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ef ökukennslan er svona fullkomin, hvers vegna aka Íslendingar þá eins og brotinn handleggur þegar á að taka tillit til annarra í umferðinni? Þá er ég að vísa til þess hvernig þeir svína ævinlega fyrir aðra og neita að gefa stefnuljós þegar þeir ætla að beygja. Gleymist að kenna þeim tillitssemi í ökuskólunum? Það þarf greinilega viðhorfsbreytingu hér.
.
Síðan eru það vandamálin með hringtorgin þar sem alltaf er sífelld árekstrarhætta og oftsinnis algjört öngþveiti, en það er ekki ökumönnum að kenna, heldur bjánalegum reglum, sem eru í algjörri andstöðu við alþjóðareglur. Þessu ætti Umferðarstofa að ýta á Innanríkisráðuneytið að breyta. En ég er ekki vongóður.
Pétur D. (IP-tala skráð) 19.1.2014 kl. 16:36
Í umferðinni Íslending,
allvel má nú þjálfa,
allir aki hratt í hring,
hitti svo sig sjálfa.
Þorsteinn Briem, 19.1.2014 kl. 16:46
Hér í vesturbæ Reykjavíkur eru umferðarslys afar fátíð, enda eru Vesturbæingar kurteisir í umferðinni og fallega þenkjandi.
Fyrir skömmu ók reyndar gamalmenni inn í Melabúðina en slíkt er nú mjög í tísku í Reykjavík.
Og hann var aðkomumaður.
Þorsteinn Briem, 19.1.2014 kl. 17:58
Því miður er þetta ekki rétt, Steini minn, um allar götur í Vesturbænum, að minnsta kosti ekki á árunum 2007-2011, sem eru síðustu fimm árin, sem til eru tölur um. Samkvæmt evrópskum stöðlum er miðað við síðasta fimm ára tímabil þegar tíðni alvarlegra óhappa og slys er metin miðað við milljón ekna kílómetra.
Mesta slysatíðnin 2007-2011 á höfuðborgarsvæðinu var á vestan Njarðargötu, 0,08, sem er fjórum sinnum meiri tíðni en á Álftanesvegi, sem var í 22. sæti af sambærilegum köflum á höfuðborgarsvæðinu.
Ómar Ragnarsson, 19.1.2014 kl. 19:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.