26.1.2014 | 00:21
Íslendingar eiga óuppgerð dómsmorð.
Ekki er langt síðan að danskur forsætisráðherra játaði, að um margt hefði hegðun Dana verið óafsakanleg á árum Seinni heimsstyrjaldarinnar og með þessari viðurkenningu var farin hálf leið til þess að biðja um afsökun og fyrirgefningu varðandi þessi myrku ár.
Hliðstæður má finna hjá ýmsum þjóðum og við Íslendingar eigum þær nokkrar, þar sem ýmist er um raunverulegar aftökur að ræða, líflát, eða um ígildi dómsmorða.
Spánverjavígin 1615, þegar Íslendinga drápu tugi spænsksra á villimannlegan hátt, eru ljótur blettur á sögu okkar.
Drekkingar á konum í Drekkingarhyl öldum saman með blessun yfirvalda og kirkjunnar voru einnig ekkert annað en dómsmorð og enn hefur ekkert bitastætt verið gert, svo ég muni, til þess að varpa þeirri óhelgi af hinum helga stað Þingvöllum, sem hvílir yfir Drekkingarhyl eins og dimmur skuggi.
Og við Íslendingar eigum líka óuppgert það kalla mætti "öfugt þjóðarmorð", það er, þegar mikill meirihluti þjóðarinnar sameinaðist í kröfu um stærstu mögulegu refsingu fyrir verknaði, sem engin minnstu gögn lágu fyrir um að hefðu verið framdir og réttarkerfið íslenska bognaði fyrir þessum kröfum í svonefndum Guðmunda- og Geirfinnsmálum.
Því miður virðist varla enn vera kominn grundvöllur fyrir því að þessi ljótu mál verði gerð upp eins og vera ber. Líklega enn ekki liðið nógu langt síðan þau gerðust.
Þó er enn von meðan málunum er haldið vakandi, og það þarf að gera.
Maður sér hér á blogginu og víðar ummæli eins og þau "að þetta voru nú engin kórdrengir", - "hann/hún/þau áttu ekkert betra skilið" - og "ekki vorkenni ég honum/henni/þeim."
Þá leitar hugurinn til Krists og bersyndugu konunnar og hægt er að spyrja hvort ummæli af þeim toga, sem ég hef rakið, séu í þeim anda sem eigi að ríkja hjá þjóð, sem telur sig kristna.
Og einnig til þeirrar meðferðar sem svonefndar "Ástandskonur" fengu á stríðsárunum.
Engdist um af sársauka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
"... séu í þeim anda sem eigi að ríkja hjá þjóð, sem telur sig kristna."
Ekki held ég að kristnir menn séu eða hafi verið eitthvað betri í þessum málum en aðrir.
Þorsteinn Briem, 26.1.2014 kl. 00:51
Það er voða þægilegt og sjálfsupphefjandi að dæma fortíðina eftir lögum og reglum nútímans. Fátt lætur mann sýnast réttsýnni og betri í eigin huga. Göfugmennskan sem flæðir um æðar þegar maður talar í nafni forfeðranna og biðst afsökunar á meintum mistökum þeirra setur manni kökk í hálsinn. Og taugar úthverfabúans í sínum lazyboy titra af eldmóð og hugrekki þegar hann kveður upp sinn dóm og heimtar uppgjör.
Oddur zz (IP-tala skráð) 26.1.2014 kl. 02:01
Ómar, við þurfum ekki að leita til fortíðarinnar, því að enn þann dag í dag er valdníðsla gegn smælingjunum af hálfu yfirvalda í gangi. Og það þýðir ekkert að leita til lögfræðinga, því að þeir eru oftast hliðhollari yfirvöldum en skjólstæðingum sínum.
Aztec, 26.1.2014 kl. 02:33
En takk fyrir að vekja máls á þessum óuupgerðu dómsmorðum.
Aztec, 26.1.2014 kl. 02:35
Þetta með spánverjadrápin, drekkingarhylinn og alla almenna hálshöggvun...Eru þetta ekki bara síns-tíma mál ? - Þetta hlýtur bara að hafa bara verið talið "eðlilegt" á þeim tíma, eins og t.d. hvað prestar og sýslumenn voru mikið og viðbjóðslegt ægivald. - Það eimir að vísu ennþá af sýslumannahroka á ákveðnum stöðum á landinu, en hvað um það.
Guðmundar-og Geirfinnsmálin eru t.d. dæmigerð fyrir "Geira og Grana" í löggæslu þess tíma og hina svart/hvítu veröld sem við erum nánast enn í. - Það var einn mesti skrípaleikur í dómskerfi Íslands hinna síðari tíma.
Már Elíson, 26.1.2014 kl. 02:37
Ómar skrifar: „Og við Íslendingar eigum líka óuppgert það kalla mætti "öfugt þjóðarmorð", það er, þegar mikill meirihluti þjóðarinnar sameinaðist í kröfu um stærstu mögulegu refsingu fyrir verknaði, sem engin minnstu gögn lágu fyrir um að hefðu verið framdir . . ." Mér finnst nú full djúpt í árinni tekið að segja að „engin minnstu gögn" liggi fyrir. En auðvitað má færa góð rök fyrir því að best hefði verið að taka þetta mál upp aftur.
Wilhelm Emilsson, 26.1.2014 kl. 03:00
Það er umhugsunarvert þegar vel upplýstir menn eins og Ómar Ragnarsson setja samasemmerki á milli kristinnar trúar og góðra siða, oft ranglega nefnd „kristin gildi“.
Gildi, notuð af hægri öfgamönnum, fasistum og varðhundum oligarcha og þjófa til að níðast á þeim sem minna máttar eru.
Fræða skal börn og unglinga um stóru trúarbrögðin, vissulega, en sleppa hinsvegar öllum skoðanamótandi fullyrðingum.
Við höfum of mörg fordæmi um hrikalega glæpi framda í nafni trúarbragða, allt fram í nútímann.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 26.1.2014 kl. 08:00
Ég veit ekki betur en að Ómar Ragnarsson sé fremstur í flokki manna sem vilja varðveita þessa blóðugu fortíð, smbr. "Verndum Gálgahraun"!
Þá má líka velta fyrir sér nýlegri frétt:
"16. janúar 2014 voru Hraunavinir boðaðir fyrir Héraðsdóm til þess að svara fyrir gjörðir sínar í Gálgahrauni 21. október sl. Þeir eru settir á bekk með glæpamönnum fyrir að nýta sér stjórnarskrárvarinn rétt sinn til friðsamlegra mótmæla og standa vörð um 37. grein náttúruverndarlaga. Á meðal ákærðra eru sjötugar konur sem létu bera sig úr hrauninu þennan dag. Þess ber að geta að Héraðsdómur hefur ekki enn gefið sér tíma til þess að taka afstöðu í lögbannsmálinu sem Hraunavinir höfðuðu í ágúst sl. til að koma í veg fyrir yfirvofandi eyðileggingu Gálgahrauns."
(https://www.facebook.com/permalink.php?story_fbid=10151846230776487&id=73508286486&stream_ref=10)
Það er athyglisvert að ÓR slapp við ákæru í málinu!
Já, farsinn í dómskerfinu virðist engan endi ætla að taka :)
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 26.1.2014 kl. 11:43
Þeir, sem hafa reist minnismerki í Auswitch, við Vatnsdalshóla, í Skálholti og víðar þar sem aftökur fóru fram, hafa ekki gert það til að "varðveita þessa blóðugu fortíð" á þann hátt að slíkt framferði verði tekið upp aftur, heldur til að áminna um að slíkt endurtaki sig ekki.
Samkvæmt skilningi HH hamast kristnir menn við að "varðveita blóðuga fortíð" með því að hafa drápstækið krossinn sem tákn trúarinnar og í þjóðfánanum og skjaldarmerkinu að auki.
Það er ekkert útséð um það að ég "sleppi við ákæru" í þessu máli og hvort fleiri verði ákærðir. Og ég var fangelsaður, settur með valdi í fangaklefa þótt ekki stæði það lengi 21. október.
Það verður fróðlegt að sjá ákærurnar sem birtar verða á þriðjudag og hvort þær eru allar komnar fram.
Ómar Ragnarsson, 26.1.2014 kl. 12:20
Og hver var nú ástæða þess að þú varst "fangelsaður, settur með valdi í fangaklefa þótt ekki stæði það lengi 21. október" sl. Ómar?
Getur hugsast að þú hafir brotið gegn valdstjórninni?
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 26.1.2014 kl. 12:31
Kannski ætti að reisa minnisvarða í Garðahrauni/Gálgahrauni með þeirri áletrun að hér var innleiddur fasismi til varðveislu hagsmuna þess anga Engeyjarættarinnar sem vildi ekki þyrma hrauninu.
Þegar lögreglu er sigað gegn pólitískum andstæðingum (í þessu tilviki sem voru gegn hagsmunum anga Engeyjarættarinnar) þá var verið að sýna mannréttindum í þessu landi ákveðin skilaboð um valdníðslu og ólögmæta meðferð opinbers valds. Nú eiga dómstólar eftir að kveða um lögmæti þessara framkvæmda. Ef dómstólar komast að þeirri niðurstöðu að þessar framkvæmdir væru lögleysar þá verða náttúruminjar ekki endurheimtar né fyrir bætt. Hnefarétturinn og valdagleðin varð mannréttindunum ofursterkari.
Að mínu mati er ákvörðun Hönnu Birnu um að siga lögreglu á friðsama mótmælendur vera ein þau verstu dæmi um hvernig valdníðslu er beitt. Sennilega vorum við aldrei í sögu okkar eins nálægt fasisma og þennan dag þegar Ómar Ragnarsson og aðrir Hraunavinir voru handteknir.
Guðjón Sigþór Jensson, 26.1.2014 kl. 18:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.