26.1.2014 | 22:02
Meira en 20 ára þöggun um stórfossana í Þjórsá.
Það segir mikið um þekkingu almennings á flottasta stórfossi Íslands að það skuli vera sett spurningarmerki við fyrirsögnina "Fossinn Dynkur á förum?"
Og ekki minnst á annan jafnstóran foss fyrir neðan hann, sem verður líka á förum og þriðja fossinn fyrir ofan þessa þrjá, sem er að vísu lægri en afar fallegur.
Þegar Jón Benediktsson, þáverandi fréttamaður og kvikmyndatökumaður Sjónvarpsins á Velli, fékk Pál Benediktsson fréttamann til að kynna þennan einstæða foss fyrir landsmönnum í Sjónvarpinu fyrir rúmum 20 árum var fossinn svo vel varðveitt leyndarmál, að meira að segja landafræðinördinn ég hafði ekki gert mér grein fyrir stórfengleik hans og var tekinn í bólinu.
Liðu nú nokkur ár sem ekki var minnst á fossana efst í Þjórsá og þegar ég fór að fjalla um ýmis virkjanasvæði landsins í Sjónvarpinu 1995 áttaði ég mig á því hve mikil þöggunin um virkjanasvæðin hafði verið.
Ég tók meira að segja óafvitandi þátt í þessari þöggun með því að ganga ekki á talsmenn Landsvirkjunar til að fá það uppgefið hve mikið vatn væri tekið af fossunum þremur með fimm áföngum Kvíslaveitu, sem ég fjallaði um lið fyrir lið án þess að upplýsa um afleiðingar hennar, sem um síðir kom í ljós að námu 30 eða jafnvel 40 prósentum af vatninu sem fossarnir höfðu áður haft.
Ég hafði í fyrstu ekki ímyndunarafl til þess að átta mig á því hvaða augum sumir litu þann sjálfsagða þátt fjölmiðlunar að í tengslum við skoðanaskipti yrði sýnt það, sem rætt væri um, virkjanamannvirkin og virkjanasvæðin og allar hliðar þeirra mála, enda hafði ég áður sýnt virkjanasvæði og mannvirki og not Blönduvirkjunar þegar hún var í bígerð áratug fyrr og fjallað aðeins um aðra hlið Kvíslaveitu.
En 1999 þegar Norðlingaölduveita, Hágöngulón og virkjanir á norðausturhálendinu voru komnar á dagskrá fór ég að frétta utan að mér að í ákveðnum kreðsum valdamanna í þessum efnum væri litið á mig svipað og bandarísk stjórnvöld líta Snowden nú og að ég væri kallaður hryðjuverkamaður á þeim bæ.
Sama ár var farið að hóta okkur hjónum innan úr þessum hópi og því fylgt eftir með opinberri kröfu um að ég yrði rekinn frá Sjónvarpinu fyrir vítaverða hlutdrægni og misnoktun á starfsaðstöðu minni.
Nákvæm rannsókn á vegum útvarpsráðs leiddi hins vegar í ljós að ég hafði ekkert brotið af mér.
Næstu 14 árin ríkti síðan ótrúleg þöggun um þessa fossa og eðli Norðlingaölduveitu. Öll þessi ár var ég eini fjölmiðlamaðurinn sem minntist á þá þegar ég var með fréttir um veituna, en aðrir fjölmiðlar einblíndu alltaf á Þjórsárver ein.
Smám saman var ég komin í erfiða stöðu, af því að það gat af sér getsakir um að umfjöllun mín væri óeðlileg af því að enginn annar talaði um fossana eða sýndi þá !
Alveg furðuleg niðurstaða, að þeir sem tóku þátt í þögguninni, viljandi eða óviljandi, væru á réttu róli, en sá sem sýndi það sem virkjunin hefði áhrif á, hvaða vatn það væri, sem leitt yrði í burt, væri sekur um afglöp og hlutdrægni.
Loksins síðustu misserin er þöggunin að rofna en afar hægt. Kristján Már Unnarsson á Stöð 2 var fyrstur utan RUV til að fara að þeim og sýna þá og nú allra síðstu mánuðina eru aðrir að fylgja á eftir.
l
Fossinn Dynkur á förum? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Góður pistill og þarfur hjá þér Ómar.
Hversu afskekktir þessir fossar eru og það eitt að það þurfi að ganga nokkurn spöl til að njóta þeirra í návígi er þess valdandi að allt of margir telja þá „verðlausa“ í gimsteinasafni íslenskrar náttúru.
Hver og einn eru þeir perla, þannig að þessi fossaröð er ein helsta perlufesti hálendisins sem fleiri þurfa að fá að njóta í framtíðinni.
Hvet alla til að líta inn á þessa Facebook-síðu sem stofnum var til að vekja athygli á þessum fossum, þar sem að mínu mati, Dynkur er í hásætinu.
https://www.facebook.com/groups/dynkur/
Árni Tryggvason (IP-tala skráð) 26.1.2014 kl. 22:34
Við verðum að fara að vakna. Sá tími er kominn hér á landi að gera eins og aðrar þjóðir, læra að meta þær dásemdir náttúrunnar sem okkur eru gefnar. Afhverju má ekki sýna ferðamönnum þessa stórkostlegu fossa? Eftir hverju er ráðherra ferðamála að bíða? Það vantar fleiri staði til að sýna ferðamönnum!
Það vita það ekki allir að þetta stórkostlega náttúruundur heitir tveimur nöfnum: Rangeyingar kölluðu fossinn Búðarhálsfoss en Dynkur var nafnið sem Árnesingar þekktu. Slík torfæra var Þjórsá.
Að austanverðu er orðið nokkuð greiðfært að komast að fossinum. Hvet réðamenn til að opna betra aðgengið enn betur þeim megin. Svo má smám saman bæta aðkomuna að vestanverðu.
Jörundur Þórðarson, 26.1.2014 kl. 23:08
Auðvitað ertu "hryðjuverkamaður" og fossaskáld. Fréttamyndir þínar í sjónvarpinu af náttúrugersemum fyrir 20 árum hafa haft góð áhrif. Útivist hefur tekið líka stökkbreytingum. Myndir erlendar og innlendar af íslensku landslagi eru að auka ferðamanna straum um allan helming. Vitundarvakning er að verða um þessi miklu gæði sem við eigum án þess að virkja allar ár.
Jónas Hallgrímsson vakti upp nýjar tilfinningar með Gunnarshólma. List hans var að virkja menn til vitundar um náttúruna.
Duldir hagsmunir en ekki miklir eru líka á kreiki. Það sýnir veika stöðu alþingismanna og ráðherra ef þeir þurfa að afla sér fylgis með því að virkja náttúru perlur. Það er eitthvað bogið við lýðræðið ef kjörfylgi margar ágætis manna veltur á því hvaða margar fasteignakrónum þeir skila heim í hérað.
Ef starfsmönnum Landsvirkjunar vantar verkefni, þá hafa þeir vindmyllur sem snúast hraðar en í sjálfri Danmörku. Þótt þær séu ekki augnayndi eru þær skárri en að þurrka upp fossa. Vel getur verið að þær hjálpi alþingismönnum líka þótt það sé vandséð.
Sigurður Antonsson, 26.1.2014 kl. 23:10
Erlend stórfyrirtæki á Suðurnesjum eiga að fá ódýra raforku frá Suðurlandi.
Þorsteinn Briem, 26.1.2014 kl. 23:57
Ferðaþjónusta orðin stærsta starfsgreinin í Reykjanesbæ
Þorsteinn Briem, 27.1.2014 kl. 00:05
Verk þín, Ómar, koma ekki í hryðjum. Þú ert ötulli en það, ávallt að.
Þú ert frekar kannski "hreðjaverkamaður", því þú sparkar all vel í þann stað náttúruhryðjuverkamannana með pistlum þínum og rofi á þögninni.
Megi þeir "verkir" vekja alla upp til umhugsunar.
Nonnilíus (IP-tala skráð) 27.1.2014 kl. 01:19
Þú getur ekki ímyndað þér Ómar hve margir standa með þér og þakka þér verkin góðu. En um leið og stjórnvöld leyfa sér að kalla þig hryðjuverkamann eru þau að biðja um borgarastyrjöld.
Arna (IP-tala skráð) 27.1.2014 kl. 09:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.