Anatómía lagadeildar ?

Vegna þess hve langt er síðan ég var í háskólanámi hef ég ekki fylgst með því hvort sömu "síurnar" eru notaðar þar og fyrir hálfri öld til  að skilja sauðina frá höfrunum.

Í lagadeildinni féllu menn helst á almennu lögfræðinni eða kröfuréttinum þegar ég var þar, og sitjandi yfir bókinni um kröfuréttinn ákvað ég fallegan vordag einn að þetta yrðu ekki örlög mín, stóð upp í lestraríbúðinni á Aragötunni frá opinni bókinn, gekk út og hef ekki sést þar síðan.

Eftirlætisgreinarnar mínar voru stjórskipunarréttur og stjórnarfarsréttur enda hefði ég verið í stjórnmálafræði ef sú grein hefði verið kennd við skólann.

Sumir orðuðu það svo að ákveðnar greinar í skólanum væru sérstaklega notaðar til að fella nemendur, og þegar Haukur Heiðar Ingólfsson undirleikari minn var í læknadeild nokkrum árum síðar virtist anatómían eða líkamspartafræðin gegna því hlutverki með öllum sínum aragrúa af latneskum heitum sem þurfti að leggja á minnið.

Hitt var ljóst að mikilvægt væri að læknar yrðu að kunna vel að rata um völundarhús líkamans og kunna skil á örnefnum hans.

Þriðji bekkur, busabekkurinn í Menntaskólanum var notaður sem aðalsían í þeim skóla og sumir töldu að þessi sía væri höfð svona erfið til þess að spara peninga og halda stúdentafjöldanum í skefjum, eða rétt um 100 útskrifuðum á ári.

Í mínu tilfelli fyrir 50 árum var það mitt eigið val að halla mér alfarið að leikhúsunum, skemmtikraftsstandinu og gerð skemmtiefnis og dægurlagatexta og hljómplatna auk þess sem ég þurfti að sjá fyrir sjö manna fjölskyldu.

Frásögn Huldu Hvannar Kristinsdóttur sýnir annars konar aðstæður, þar sem kerfið er erfitt við að eiga, mun erfiðara í mörgum tilfellum en var á mínum námsárum svo einkennilegt sem það kann að hljóma.  

 

 


mbl.is Að falla er að deyja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta kerfi að greiða lán fyrirfram, og gjaldfella svo allt lánið við fall, er ómannúðlegt og hreinn  skepnuskapur að leyfa fólki ekki að greiða þau lán upp á nokkrum árum, ef illa fer. Sía á sem mest með inntökuprófum. Annað er mannskemmandi og sóun mannauðs og verðmæta. 

Almennningur (IP-tala skráð) 30.1.2014 kl. 23:24

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Inntökupróf í lagadeild Háskóla Íslands 13. júní 2014

Á fyrsta ári
í lagadeild Háskóla Íslands eru námsgreinarnar á haustönn nú heimspeki, almenn lögfræði ásamt ágripi af réttarsögu og inngangur að lögfræði (ágrip af stjórnskipunarrétti, eignarétti, stjórnsýslurétti, skaðabótarétti, samninga- og kröfurétti, refsirétti, sifja- og erfðarétti og réttarfari) en á vorönn fjölskyldu- og erfðaréttur, Evrópuréttur og stjórnskipunarréttur ásamt ágripi af þjóðarétti.

Þorsteinn Briem, 31.1.2014 kl. 04:45

3 identicon

Þar sem þeir fara í gegn eru oftast búnir að falla áður, er þetta mikil mismunun gagnvart bæði fjölskylduaðstæðum og búsetu. Þekki vel stúlku sem með naumindum komst ekki í gegnum fyrsta vetur í læknanámi, en hafði þá ekki efni á annarri tilraun þar sem hún bjó fyrir norðan. Fór í hjúkrunarfræði í staðinn og rúllaði því upp svo best ég veit. Gott ef að ekki var svo að allir sem náðu voru búnir að falla í eitt sinn.

Viljum við að læknar og lögfræðingar framtíðarinnar séu einhleypingar komi helst af efnaheimilum á höfuðborgarsvæðinu og geti búiðá hótel mömmu með $$$ bakland þar til þeir/þær eru komnar í gegn???

Jón Logi (IP-tala skráð) 31.1.2014 kl. 11:32

4 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Sigurður Líndal var svo „elskulegur“ að fella mig þrívegis í almennu lögfræðinni, þar af var eg tvívegis hæstur af þeim sem hann felldi. Hann sleppti mér í gegn 4. sinnið! Lauk 1. hlutanum mjög þokkalega en ekki með 1. einkunn. En ekki tók betra við, þurfti að hætt á miðju 3ja ári vegna skyndilegs fráfalls föður míns. Óskaði eftir því að setjast aftur á 3ja árið og taka próf næsta ár. Þessu var ekki með neinu móti unnt að verða við, mér bent á af sama Sigurði að hann hefði tekið allan seinni hlutann ásamt sögu og latínu. En það er ekki sama með þá sem eiga góða velefnaða föður að sem auk þess gat aðstoðað annars vegar og hina sem engin slík hlunnindi höfðu, þurftu að sinna vinnu með námi. Það varð til þess að eg dróst aðeins í námi og brátt kom að því að gömlu félagarnir mínir útskrifuðust hver á fætur öðrum. Mér þótti sumir þeirra ansi stressaða, spurði sjálfan mig þegar eg var nálægt því að þreyta próf í seinni partinum (miðhlutanum) en síðasti parturinn var kandídatsritgerð sem eg held eg hafi haft meira og minna tilbúna. Þar sem eg var að falla á tíma ákvað eg að hætta í laganámi ósigraður. Svona fór um sjóferð þá. En þessi tvö ár lögfræðinnar nýttust mér síðar sem aukagrein í bókasafns og upplýsingafræðum. Félagsvísindadeild Háskólans var mun mannlegri og reynt að koma á móts við nemendur þar sem sálarlaust tilfinningafirring Lagadeildar var stýrt af meiri hörku en viðkvæmir nemendur gátu þolað.

Guðjón Sigþór Jensson, 31.1.2014 kl. 14:16

5 identicon

Frúin mín er með þýskt lagapróf og vildi fá það metið á Íslandi.
Hún talaði við lagadeild HÍ, og sendi þeim afrit af öllu sem beðið var um.

Ekki gátu menn þar á bæ lesið betur en svo að þeir sögðust ekki af gögnunum sjá að hún hefði tekið nein próf.
Þeir hafa líkast til lesið aftan á blöðin.
Lögmannafélagið gat hins vegar vottað þetta og lesið fullkomlega, - eftir námskeið og próf undir hendi Eiríks Tómassonar fékk hún íslensku réttindin og starfar sem lögmaður í dag.
HÍ stakk hins vegar upp á námi frá byrjun!

Jón Logi (IP-tala skráð) 2.2.2014 kl. 18:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband