Þjóðverjar 1938 - Rússar 1950 - Kínverjar 2014, erfiðar spurningar.

Alfred Wegener var þýskur brautryðjandi í jarðeðlisvísindum, ferðaðist um Ísland og setti upp mælipunkta til að sanna landrekskenningu sína sem er grundvallarkenning í jarðfræði.

Þetta var á fjórða áratugnum og Íslendingar voru tortryggnir, óttuðust að um væri að ræða mælingar í hernaðarskyni.  Íslendingar rifu því niður mælipunkta vegna þessarar tortryggni.

Aldrei sannaðist annað en að Wegener hefði gert þetta eingöngu í vísindaskyni.

Emmy Todtmann var þýskur jarðfræðingur sem kom alls fjórum sinnum til Íslands til þess að rannsaka Brúarjökul og sköpunarverk hans, hvort tveggja einstætt í veröldinni, og var við þessar rannsóknir á Brúaröræfum. BISA til sv

Hún kom einu sinni þangað fyrir stríð, sumarið 1938 og bæði hún og Agnar Koefoed-Hansen komu á svæðið, hann fljúgandi á þýskri flugvél á flugi um landið til að leita að flugvallarstæðum og lenti við Sauðá, nokkra kílómetra fyrir norðan jökulinn. 

Hann skrifaði Hallóri bónda á Brú bréf þar sem hann bað um samþykki fyrir því að leggja þarna flugvöll á stórum flötum rennisléttum mel sem er náttúrugert flugvallarstæði. BISA.Agnarsvarða

Haustið 1940 fundu smalamenn frá Jökuldal hlaðnar vörður sem mörkuðu brautarenda tveggja flugbrauta og rifu þær niður af ótta við að þær væru gerðar í hernaðarskyni fyrir lofther Þjóðverja, Luftwaffe.  

Kölluðu staðkunnugir Jökuldælingar staðinn "Flugvöll" eftir það og var sagt að um gömlu Brúardalaleiðina, "að hún lægi um Flugvöll".  

Ég hef fundið undirstöðurnar fyrir þessar vörður (sjá myndir) við lagningu Sauðárflugvallar (BISA), sem er næst stærsti viðukenndi og löggilti flugvöllur landsins, næst á eftir Keflavíkurflugvelli, og er horft yfir flugvöllinn í átt til Brúarjökuls og Kverkfjalla á meðfylgjandi mynd.

C-17 Globemaster stórþotur Bandaríska hersins og Lockheed Hercules geta auðveldlega lent á tveimur brautum vallarins, að ekki sé talað um Fokker F50 og Dash 8 vélar Flugfélags Íslands, enda völlurinn lagður nú sem öryggisvöllur í innanlandsflugi.

Ég hef notað tvö vörðustæðin til að marka brautarenda einnar af fimm brautum vallarins, sem ég nefni Agnarsbraut.

Snemma árs 1939 fóru Þjóðverjar fram á samning við Íslendinga um aðstöðu fyrir komandi Ameríkuflug sitt.

Íslenska ríkisstjórnin hafnaði beiðninni og þótti merkilegt á þeim tíma sem flestir skulfu á beinunum gagnvart kröfum Hitlers.

En Íslendingar voru ekki í aðstöðu til þess að samþykkja beiðnina, ekki aðeins vegna hlutleysis landsins, heldur líka vegna sjóveldis Breta og þess, að landið var í raun gjaldþrota og Hambrosbanki í London, í eign breskra gyðinga, átti í raun Ísland.

Nóg um það, um 1950 sló Tíminn upp stórfrétt um grunsamlega menn sem sést hefðu á ferð við að mæla brýr á leiðinni fyrir Hvalfjörð norður í Borgarfjörð.

Var leitt að því líkum að þetta væru útsendarar Rússa að undirbúa hugsanlega herflutninga sína ef þeir tækju Ísland.

Síðar kom í ljós að þetta voru Íslendingar sem voru að undirbúa flutning á sumarbústað upp í Borgarfjörð. BISA.Agnarsv.2

Nú vilja Kínverjar fá að stunda mælingar á norðurljósunum og enn vaknar grunur um vafasaman tilgang.

Vitað er að Luftvaffe átti kort af Íslandi fyrir stríð yfir hugsanleg flugvallarstæði á Íslandi.

Vitað er um kafbátanjósnir Rússa undan Reykjanesi og njósnatæki á vegum Rússa fundust í Kleifarvatni.

Ofangreind dæmi gefa til kynna hve erfitt getur verið að átta sig á eðli þessara mála, hvenær grunur er á rökum reistur og hvenær ekki.

Sjálfsagt er að hafa allan varann á, en erfitt getur orðið að staðfesta grun.


mbl.is Varar við rannsóknum Kínverja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Reisti Wegener ekki stöpul á Arnarnesinu

sem enn stendur?

 árið sem hann varð úti á Grænlandi 1960

Grímur (IP-tala skráð) 6.2.2014 kl. 09:30

2 Smámynd: FORNLEIFUR

Wegener varð úti árið 1930, svo vart getur hann hafa gert eitthvað á Íslandi á 4. áratugnum eða 1960.

FORNLEIFUR, 6.2.2014 kl. 10:22

3 Smámynd: FORNLEIFUR

"En Íslendingar voru ekki í aðstöðu til þess að samþykkja beiðnina, ekki aðeins vegna hlutleysis landsins, heldur líka vegna sjóveldis Breta og þess, að landið var í raun gjaldþrota og Hambrosbanki í London, í eign breskra gyðinga, átti í raun Ísland."

Ómar, í gögnum Utanríkiráðuneytisins í Kaupmannahöfn er ljóst að Íslendingar fóru að ráðum Dana. Danir settu blátt bann á flugvallahugleiðingar Þjóðverja. Hambrobanki kemur þessu máli akkúrat EKKERT við! Þú verður að varast að draga svo glannalegar niðurstöður af því sem fyrir liggur.

Annars hefur sonur dansk málfræðiprófessors, sagt mér sögu af föður sínum heitnum er hann ferðaðist á Íslandi á 4. áratug síðustu aldar.  Hana mun ég deila með þér, þegar ég er búinn að láta soninn  segja mér söguna aftur og betur. Ég var einmitt að skrifa honum nú áðan..

FORNLEIFUR, 6.2.2014 kl. 11:37

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég sagði hvergi að Wegener hefði gert neitt 1960, en játa á mig innsláttarvillu varðandi 4. áratuginn, sem átti að vera 3. áratugurinn.

Er nú ekki líka svolítið "glannalegt" hjá þér að segja að það hafi ekki haft neitt að segja, sem er staðreynd, að Ísland var tæknilega gjaldþrota 1939 og átti allt sitt undir Hambrosbanka?

Vel má vera að Danir hafi ráðlagt Íslendingum að hafna lendingabeiðni Þjóðverja en sjálfir voru Danir svo hræddir við Þjóðverja, að þegar Kristján 10 kóngur þeirra átti afmæli þorðu þeir ekki að halda það hátíðlegt á þann hátt sem þeir hefðu annars gert.

Það gerðu Íslendingar hins vegar haustið 1940, meira að segja í guðsþjónustu í Dómkirkjunni.

Já, það er margt athyglisvert sem enn er að koma fram um þessi ár  

Ómar Ragnarsson, 6.2.2014 kl. 20:45

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég sé reyndar núna að í pistli mínum segi ég ekkert um það hvenær Wegener setti um merkingar fyrir mælipunkta mína, heldur aðeins að þeir hafi verið rifnir niður eftir hans dag.

Ómar Ragnarsson, 6.2.2014 kl. 20:48

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

"1. desember 1918

Ísland verður fullvalda ríki. Íslendingar öðlast forræði utanríkismála sinna. Stefnan í utanríkismálum er ákveðin af ríkisstjórninni en framkvæmd af dönsku utanríkisþjónustunni í umboði Íslendinga. Utanríkismálin heyra undir forsætisráðherra, Jón Magnússon. Kveðið er á um hlutleysi Íslands í sambandslagasamningi við Danmörku.

1918-1940


Nokkrir íslenskir viðskiptaerindrekar störfuðu erlendis milli heimsstyrjaldanna.

4. ágúst 1919


Danir skipa fyrsta erlenda sendiherrann á Íslandi, J.E. Bøggild, sem var af íslenskum ættum.

16. ágúst 1920


Fyrsta sendiráð Íslands er opnað í Kaupmannahöfn. Sveinn Björnsson, síðar forseti Íslands, er skipaður fyrsti sendiherra Íslands.

26. júní 1921


Kristján X., konungur Danmerkur og Íslands, heimsækir Ísland í fyrsta sinn.

1921


Lárus Jóhannesson, lögfræðingur, er ráðinn til starfa hjá forsætisráðherra í tvær klukkustundir á dag til þess að annast utanríkismál. Hann er fyrsti starfsmaður Stjórnarráðs Íslands sem annast þau sérstaklega.

1924-1926


Staða sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn er lögð niður af sparnaðarástæðum og endurvakin á ný. Sveinn Björnsson fer til Íslands en Jón Krabbe er forstöðumaður á meðan.

1. febrúar 1925


Stefán Þorvarðsson, lögfræðingur, síðar fyrsti skrifstofustjóri utanríkisráðuneytisins, gerist starfsmaður í dönsku utanríkisþjónustunni. Fleiri Íslendingar fylgja í kjölfarið, Pétur Benediktsson 1930, Svanhildur Ólafsdóttir 1933, Vilhjálmur Finsen 1934, Agnar Kl. Jónsson 1934, Helgi P. Briem 1935, Gunnlaugur Pétursson 1939 og Henrik Sv. Björnsson 1939.

1927


Jón Þorláksson, forsætisráðherra, áskilur Íslendingum réttindi á Jan Mayen til jafns við aðrar þjóðir.

1928


Utanríkismálanefnd Alþingis stofnuð. Fyrstu nefndarmennirnir voru Benedikt Sveinsson, sem var formaður, Jón Þorláksson, Ásgeir Ásgeirsson, Sigurður Eggerz, Bjarni Ásgeirsson, Ólafur Thors og Héðinn Valdimarsson.

1930


Alþingishátíð vegna 1000 ára afmælis Alþingis. Fjöldi erlendra gesta kemur til Íslands.

30. janúar 1934


Vilhjálmur Finsen, ritstjóri, er skipaður "attaché" við danska sendiráðið í Ósló, fyrsti fulltrúi Íslands við danskt sendiráð.

20. mars 1938


Stofnuð er utanríkismáladeild í Stjórnarráðinu, fyrsta starfseining þess sem fjallar um utanríkismál og hún heyrir undir forsætisráðherra. Stefán Þorvarðsson verður fyrsti yfirmaður hennar.

1939


Síðari heimsstyrjöldin hefst.

1939-1940


Ísland tekur þátt í heimssýningu í fyrsta sinn, sem haldin er í New York.

9. apríl 1940


Þjóðverjar ráðast inn í Danmörku.

10. apríl 1940


Ísland tekur meðferð utanríkismála í eigin hendur. Utanríkismáladeild Stjórnarráðsins er gerð að utanríkisráðuneyti, sem er upphaf íslensku utanríkisþjónustunnar.

23. apríl 1940


Aðalræðisskrifstofa Íslands er opnuð í New York. Hún er fyrsta sendiskrifstofan sem opnuð er eftir að utanríkisþjónustan verður til. Vilhjálmur Þór er skipaður aðalræðismaður, fyrsti ræðismaður Íslands. Hann verður síðar utanríkisráðherra.

27. apríl 1940


Ísland opnar sendiráð í London. Og sendiráð er opnað í Stokkhólmi skömmu síðar, í Washington 1941 og Moskvu 1944.

10. maí 1940


Bretar hernema Ísland.

8. júlí 1940


Stefán Jóh. Stefánsson verður fyrsti utanríkisráðherra Íslands. Bráðabirgðalög eru sett um utanríkisþjónustu erlendis.

1940


Á fyrsta starfsári utanríkisþjónustunnar er staðan þessi: Sendiráð: 3. Ræðisskrifstofa: 1. Starfsmenn í ráðuneytinu: 5. Launaðir starfsmenn erlendis: 15. Starfsmenn samtals: 20.

15. febrúar 1941


Lög sett um utanríkisráðuneyti Íslands og fulltrúa þess erlendis.

17. júní 1941


Sveinn Björnsson, sendiherra, kjörinn ríkisstjóri Íslands.

1. júlí 1941


Samningur er gerður við Bandaríkin, meðal annars um varnir landsins, viðurkenningu á frelsi og fullveldi þess, að sjá landinu fyrir nægum nauðsynjavörum á stríðstímanum og tryggja siglingar að og frá landinu.

16. ágúst 1941


Churchill, forsætisráðherra Breta, kemur til Íslands eftir að hafa undirritað Atlantshafssáttmálann með Roosevelt, Bandaríkjaforseta. Sáttmálinn markaði upphafið að stofnun Sameinuðu þjóðanna 1945.

17. janúar 1942


Ólafur Thors verður utanríkisráðherra í fyrra skiptið.

1942


Fyrsta kjörræðisskrifstofa Íslands er stofnuð í Winnipeg. Grettir Leó Jóhannsson verður fyrsti kjörræðismaður Íslands. Í utanríkisráðuneytinu er stofnuð upplýsingadeild undir stjórn Agnars Kl. Jónssonar og hann verður jafnframt fyrsti deildarstjóri ráðuneytisins.

16. desember 1942


Vilhjálmur Þór verður utanríkisráðherra."

Þorsteinn Briem, 7.2.2014 kl. 09:11

7 identicon

Japanir fóru fram á að setja upp tæki á Siglufirði á 8. áratug 20. aldar. Talað var við mig og ég beðinn að stinga upp á manni með tæknikunnáttu og stakk ég upp á Steingrími Kristinssyni, blaðaljósmyndara Morgunblaðsins.

Stuttu seinna komu Japanir með tæki í kassa og settu upp skammt frá húsi Steingríms og var það þar, meðan ég bjó á Siglufirði, í næsta húsi við Steingrím.

Bless,

Sigurður Þór Bjarnason.

Sigurður Bjarnason (IP-tala skráð) 8.2.2014 kl. 05:42

8 identicon

Japanir fóru fram á að setja upp tæki á Siglufirði á 8. áratug 20. aldar. Talað var við mig og ég beðinn að stinga upp á manni með tæknikunnáttu og stakk ég upp á Steingrími Kristinssyni, blaðaljósmyndara Morgunblaðsins.

Stuttu seinna komu Japanir með tæki í kassa og settu upp skammt frá húsi Steingríms og var það þar, meðan ég bjó á Siglufirði, í næsta húsi við Steingrím.

Tækið átti að nota til að mæla (og mynda) norðurljósin.

Bless,

Sigurður Þór Bjarnason.

Sigurður Bjarnason (IP-tala skráð) 8.2.2014 kl. 05:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband