Hver ákvað að þetta þyrfti gegn umhverfisverndarfólki ?

NATO er lang öflugasta hernaðarbandalag heims, raunar það eina sem hægt er að nefna því nafni, og Bandaríkín eru eina risaherveldið.

Ég hef frá upphafi stutt aðild okkar að bandalaginu en það reyndi þó á þolrifin þegar tveir menn ákváðu dag einn að við skyldum verða viljugir aðilar innrásinni í Írak.

Enn meira reyndi þetta á þolrifin þegar ákveðið var, að vegna hryðjuverkaógnunar, sem steðjaði að heiminum og öryggis Íslands, skyldi æfingin Norðurvíkingur með notkun fullkomnustu vígvéla heims beinast gegn mestu hryðjuverkavá og hervá, sem taldist steðja að Íslandi: Umhverfisverndarfólki.

Æfingin var haldin á hálendi Íslands og umhverfisverndarfólk var álitið vera eina hryðjuverkaógnin eða stríðsógnin sem steðjaði á Íslandi.

Ég þurfti að fljúga talsvert yfir hálendið á þessum tíma og varð því að gæta vel að því að fljúga ekki inn á loftrhýmisbannsvæði, sem búið var að setja til þess að hægt væri að beita öflugustu herþotum heims ótruflað gegn þessari mestu hættu sem talin var ógna landi okkar og þjóð.

Í ensku er orðið "overkill" notað um svona lagað og miðað við umfang æfingarinnar og herbúnaðinn sem notaður var. er þetta eitthvert ótrúlegasta og stærsta "overkill" sem maður getur ímyndað sér.

Sama orð kom í hugann í Gálgahrauni 21. október sl. haust þegar 60 lögregluþjónar í skotheldum vestum með handjárn, gasbrúsa og kylfur þóttu lágmark til að bera hreyfingarlaust fólk, sumt konur og jafnvel ellilífeyrisþega, út úr fyrirhugaðri braut stærsta skriðbeltatækis á Íslandi sem kom í kjölfarið í fylgd fótgönguliðs lögregluþjóna.

Fólkið, sem fjarlægt var, þótti svo hættulegt, að það þótti ekki hættandi á að leggja það niður fyrir utan svonefnt vinnusvæði, sem lögreglan merkti fyrir verktakana, þegar búið var að bera það burtu, heldur var það umsvifalaust fangelsað í framhaldinu, sumt langt fram eftir degi.

Á meðan þessu fór fram var veginum út á Álftanes lokað með lögregluvaldi, rétt eins og að íbúar þess byggðarlags væru liklegir til að gerast aðilar að mestu hryðjuverkaógn, sem steðjaði að landinu.

Ég er fjölmiðlamaður og fjölmiðlamenn eiga að spyrja nokkurra grundvallarspurninga:  Hver/hverjir? - Hvar? - Hvernig? - Hvenær?  - Hvers  vegna? - Og hvað svo?  

Ég fæ ekki séð að spurt hafi verið fyrstu spurningarinnar nema að hluta til í Norðurvíkingmálinu og í Gálgahraunsmálinu.

En það vantar einn aðilann: Hver eða hverjir tóku þá ákvörðun í æfingunni Norðurvíkingi að mesta herveldi heims skyldi fengið til að æfa sig í því að ráðast á íslenskst umhverfisverndarfólk?

Við vitum að Gordon Brown ákvað það "overkill" í október 2008 að beita hryðjuverkalögum gegn okkur Íslendingum, sem við fordæmum einróma og réttilega. En enginn spyr eftirfarandi spurninga:

Hver ákvað það að beita NATO-hernum gegn ímynduðum umhverfishryðjuverkamönnum í Norðurvíkingsæfingunni? 

Og hver eða hverjir ákváðu það ótrúlega "overkill" sem birtist í Gálgahrauni 21. október 2013 ?  

   


mbl.is Má sín lítils gegn orrustuþotunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það var full ástæða til að fylgjast gaumgæfilega með mótmælendum á Austurlandi. Erlendis hafa slíkir hópar staðið fyrir allskyns skemmdarstarfsemi og við framkvæmdirnar við Kárahnjúka og við álversbygginguna í Reyðarfirði var of mikið undir til að taka áhættu vegna þeirra.

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.2.2014 kl. 15:52

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Útlendingar hafa alltaf verið stórhættulegir hér á Íslandi.

Sífellt sprengjandi hér upp raflínustaura úti um allar koppagrundir.

Þorsteinn Briem, 9.2.2014 kl. 16:23

3 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Í lýðræðisríkjum hafa íbúar rétt til friðsamlegra mótmæla. Erum við lýðræðisríki eða bananalýðveldi þar sem peningavöldin ræða öllu?

Úrsúla Jünemann, 9.2.2014 kl. 17:09

4 identicon

Segir mest um skilgreiningu kerfisaflana á hryðjuverkum:

Það eða þeir sem standa og berjast gegn framkvæmdum kerfisaflana...

H. Friðriksson (IP-tala skráð) 9.2.2014 kl. 18:09

5 identicon

Having spent my 37 year professional career as a Systems Engineer and Operations Research Analyst working  as a contractor to various elements of the US Department of Defense (USAF,USN,USMC,USA,DARPA) , I find it hard to see how supersonic  fighters would be an effective defense against “eco-terrorists”, which I presume was the so-called threat in these exercises.  I don’t even know if that is a realistic threat in Iceland.  During the Cold War, the threat against Iceland was perceived by NATO as the Soviet Union, and Iceland was a highly strategic location in that context.  To-day, this simply isn’t so.   Air Space Sovereignty is certainly an issue, and Iceland has no realistic means to maintain that, so periodic demonstrations of NATO solidarity for that purpose are justifiable.

It is my presumption that the “scenario” has something to do with Icelandic hydro-power and heavy industrial plants in Iceland, which certainly have drawn criticism from the “green” elements of the society.

If any group wanted to do harm to such assets, it is hard to see how  F-16s, F/A-18s or any other modern fighter would be effective against them.  Local area defense would make more sense, such as  security fences and perimeter sensors (they can be very sophisticated!).  A  civilian aircraft, be it a hijacked airliner or a lighter aircraft, can be countered by a local air defense system.  One example of such a system is the US Avenger air defense system, which is mounted on a single HUMMWEE, supplemented by an AN/APQ-64 surveillance radar mounted on a small trailer. It is highly deployable and mobile.  If that is as real threat, that type of system would make a whole lot more sense.

And finally, the expansion of NATO and its mission is a subject I would not even touch with a ten foot pole!

Hjalmar Sveinsson 

Hjalmar Sveinsson (IP-tala skráð) 9.2.2014 kl. 20:10

6 identicon

Gott innlegg frá Hjálmari.

Orkukerfið verður ekki vari með orrustuþotum, hvorki þá, nú eða í framtíðinni.

Það er hægt ða lama orkukerfið vopnaður einum skiftilykli og verið kominn úr landi e-h vikum áður en skaðinn kemur fram og kerfið hrynur.

Mótmælin á byggingartíma Kárahnúkavirkjunar snérust augljóslega um að vekja athygli á málinu en ekki að valda tjóni. Ef það hefði verið málið þá væri sjálfsagt margbúið að valda þessu tjóni.

Besta öryggið er fólgið í innri styrk samfélagsins, trausti og samheldni og ekki komi upp það ofríki að slíti í sundur lög og frið.

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 9.2.2014 kl. 20:22

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Mótmælendur ullu tjóni á Reyðarfirði

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.2.2014 kl. 21:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband