11.2.2014 | 22:29
Man einhver eftir olíuhreinsistöðinni miklu?
Fyrir fimm árum ítrekaði þáverandi sveitarstjóri Vesturbyggðar það að það væri 99,9% öruggt að risaolíuhreinsistöð myndi rísa í Hvestudal við Arnarfjörð sem skapaði 500 manns atvinnu og færði hundraða milljarða fjárfestingu inn í landið.
Þetta kemur upp í hugann við að heyra dýrðarfréttirnar af 77 milljarða fjárfestingu í kísilverksmiðju á Grundartanga og lesa jafnframt upplýsingar Tryggva Helgasonar um fyrirtækið Silicor Materials.
Í sjónvarpsviðtali við bóndann á Hvestu upplýsti hann þremur árum eftir að fullyrt var að allt væri klappað og klárt með olíuhreinsistöðvina, að hann væri búinn að hætta við allar þær góðu hugmyndir sem hann hafði fengið um uppbyggingu á Hvestu í kjölfar 2ja megavatta virkjunar , af því að hann myndi frekar bíða eftir olíuhreinsistöðinni.
Það gerir hann sennilega enn. 99,9% líkur eru væntanlega til þess.
Þegar maður ferðaðist á þessum tíma um þetta svæði ríkti þar svipuð þrúgandi þöggun um málið og um álverið og virkjunina á Austfjörðum á sínum tíma. Hver sá, sem sagði eitthvað vafasamt um það gat átt á hættu að vera stimplaður sem "óvinur Vestfjarðar", "á móti atvinnuuppbyggingu", "á móti byggð á Vestfjörðum" eða "að vilja fara aftur inn í moldarkofana."
Að vísu voru haldnir tveir kynningarfundir um málið, annar á Bildudal vegna Hvestudals, en hinn á Ísafirði vegna hugsanlegrar staðsetningar verksmiðjunnar í Dýrafirði.
Fundirnir voru ólíkir að því leyti að á Ísafirði þorðu menn að setja fram mismunandi skoðanir á hressilegan hátt eins og er gömul og gróin ísfirsk hefð.
Athugun leiddi í ljós að fyrirtækið, sem skráð var fyrir þessu hundraða milljarða ævintýri reyndist vera skúffufyrirtæki í eigu rússneskra aðila í ESB-landinu Skotlandi, sem átti engar eignir og var með rekstrarreikning upp á sem svaraði einum síma með netsambandi.
Hægt var að rekja þræði austur til Rússlands til manna, sem voru sérfróðir í fjármagnsflutningum (öðru nafni peningaþvætti), skattaskjólum og snilld í kennitöluflakki og stofnun og niðurlagningu fyrirtækja.
Á tímabili var rekinn þvílíkur dýrðaráróður fyrir þessu 99,9% pottþétta máli til að "bjarga Vestfjörðum", að ég taldi mig tilneyddan til að fara til Noregs, skoða þær tvær einu olíuhreinsistöðvar sem Norðmenn, sjálf olíuframleiðsluþjóðin á og gera um það stutta heimildarmynd.
Í ljós kom að engin ný olíuhreinsistöð hafði verið reist á Vesturlöndum í 20 ár vegna þess að enginn vildi hafa slíkt óþverraskrímsli í nágrenni sínu.
77 milljarða verksmiðja á Grundartanga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég hef þrisvar verið nærri risa olíuhreinsunarstöð, en það var á Sikileyjar árum mínum. Þvílíkur fnykur!
Ég hef lengi verið áhugasamur um eina spurningu sem ég hef hvergi séð velt við og sjálfur hef ekki treyst mér til að vinna úr.
Spurningin er þessi: Ef bensínhreyfill væri gerður ólöglegur og gefin 10 ár til að úrelda þær, á heimsgrundvelli (jafn ólíklegt og það væri), hverju myndi það breyta í mengun á heimsgrundvelli ef a) hráolía væri ekki lengur unnin í bensíns (hvað fer mikið til spillis af olíunni við þessa hreinsun) og b) þar sem dísel nýtir meira magn olíunnar miðað við nýtingu bensínhreyfils og hefur auk þess meira vægi (torq), hvort ... tja ... hvort það myndi hægja á mengun?
Ég geri mér ljóst að spurningin er flókin og líklega barnaleg, en mér finnst hún engu að síður áhugavert umhugsunarefni.
Guðjón E. Hreinberg, 12.2.2014 kl. 02:05
Að öðru leyti, takk fyrir góða ábendingu. Það mætti gera meira af því að velta við hversu oft fólk hefur rokið upp til handa og fóta, ginið við glópagulli erlendra fjárfestinga, án þess að íhuga hvað við getum skapað með eigin hugviti hér heima, og þá í jafnvægi við þá stórkostlegu náttúru við eigum.
Að ekki sé talað að vinna úr þeirri einstöku sérstöðu sem við höfum á alþjóðagrundvelli.
Við erum því miður mjög heimóttarleg á mörgum sviðum, Íslendingar, jafn frábær og við getum verið á öðrum.
Guðjón E. Hreinberg, 12.2.2014 kl. 02:08
Það er fróðlegt að bera þetta saman við raforkusæstrenginn
Fyrirtækin sem standa að honum hafa nær ótakmarkað aðgengi að vösum almennings
Grímur (IP-tala skráð) 12.2.2014 kl. 05:45
"Fundirnir voru ólíkir að því leyti að á Ísafirði þorðu menn að setja fram mismunandi skoðanir á hressilegan hátt eins og er gömul og gróin ísfirsk hefð"
Þeir gerðu meira á Ísafirði. Bæjarstjórnin fór nánast í heilu lagi til Þýskalands að skoða þar olíuhreinsistöð að verki. Létu allir vel af. Ferðalagið kostaði bæjarfélagið á aðra milljón fyrir hrun. Allt undir stjórn Halldórs Halldórrsonar bæjarstjóra, sem nú gefur sig út fyrir hagkvæmni í rekstri.
Ásgeir Överby (IP-tala skráð) 12.2.2014 kl. 08:26
Hvað þurfum við mikið, þessar ríflega 300 þús. sálir, til þess að hafa það gott?
Olíuhreinsistöð, kísilverksmiðja, álver, sæstrengur, olíuvinnsla úti í ballarhafi, stórskipahafnir í Eyjafirði, Finnafirði, Vopnafirði, miljón ferðamenn, og er þá fátt eitt nefnt. Er þetta brölt allt fyrirhafnarinna virði? Hver hagnast á þessu? Þurfum við ekki að flytja inn mannskap til að sinna þessu, sbr. Kárahnjúka og nú Fjarðaál? Nú er talað um að flyta þurfi inn erlent vinnuafl til að byggja hótel og skrifstofubyggingar fyrir 12 miljarða. Landið er enganveginn tilbúið að taka á móti sífjölgandi ferðamönnum. Það vantar flugmenn, rútubílstjóra, fararstjóra, hótelstarfsmenn, og ekki eru til áætlanir um hvernig bregðast eigi við stórauknu álagi á landið hvað þá peningar í það verkefni. Enn sem fyrr dettur manni í hug að það sé vitlaust gefið.
Guðmundur Gunnarsson (IP-tala skráð) 12.2.2014 kl. 11:48
Útgjöld erlendra ferðamanna til íslenskra fyrirtækja voru 238 milljarðar króna árið 2012 og ekki þarf nema örlítið brot af þeirri upphæð til að stækka hér bílastæði, bæta salernisaðstöðu, leggja nýja göngustíga og viðhalda þeim gömlu.
Og íslenska ríkið fær stóran hlut af þeim tekjum sem skatt þessara fyrirtækja.
Þar af leiðandi er engin ástæða til að leggja hér á Íslandi sérstakan skatt á erlenda ferðamenn vegna einhverra göngustíga.
Íslenskir og erlendir ferðamenn geta að sjálfsögðu greitt fyrir afnot af salernum og bæði íslenskir og erlendir ferðamenn nota hér göngustíga.
Þorsteinn Briem, 12.2.2014 kl. 12:18
Þróun alþjóðlegrar ferðaþjónustu frá árinu 1980 - Línurit bls. 7
Og í fyrra, 2013, varð ferðaþjónustan stærsti útflutningsatvinnuvegurinn hér á Íslandi.
30.12.2013:
Níu þúsund starfa í ferðaþjónustunni hér á Íslandi allt árið og þeim fjölgar um nokkur þúsund á næstu árum
Um 3,4 milljónir manna heimsóttu Yellowstone-þjóðgarðinn í Bandaríkjunum árið 2012 en garðurinn var stofnaður árið 1872 og ég veit ekki betur en að hann sé í góðu lagi.
Yellowstone National Park
Þar að auki er yfirleitt ekki hægt að banna útlendingum að koma hingað til Íslands eða Íslendingum að veita þeim þjónustu.
Þorsteinn Briem, 12.2.2014 kl. 12:33
Innlegg #6 frá Steina stendur 100%. Ríkið er að fá óvæntan pening úr ferðaþjónustunni, og þyrfti bara að veita smá hluta af ÞEIM peningum í aðstöðubætur.
Svo er löngu búið að skattleggja til þess í gegn um flugvallagjald muni ég rétt, en einhvern veginn týnist þessi peningur alltaf eitthvað annað...
Jón Logi (IP-tala skráð) 13.2.2014 kl. 07:31
Ahhh, smá vitleysa hjá mér.
Það heitir farþegagjald, og er ætlað til uppbyggingar ferðamannastaða. Svo er það gistináttaskatturinn líka.
Þessir pottar sér og spes eru komnir í hundruði milljóna.
Margsköttun kallast þetta. Það er t.d. enn deilt um hvort vera eigi VSK á skattinum!
% af skattekjum væri sanngjarnari.
Jón Logi (IP-tala skráð) 13.2.2014 kl. 07:45
Ég þakka þér - Guðmundur Gunnarsson - fyrir að vekja athygli á góðum punktum. Þú talar eins og Þjóðveldismaður - sem er vonandi einnig hól í þínum eyrum.
Guðjón E. Hreinberg, 13.2.2014 kl. 12:02
Aldrei hefi eg skilið þessa umræðu um nauðsyn þessa mikla þungaiðnaðar á Íslandi. Þegar Alkóa opnaði sína álbræðslu austur á Reyðarfirði lokaði sama forretning 2 gömlum álbræðslum á Ítalíu þrátt mikil mótmæli. Hvenær kemur að því að álfurstarnir loka hér sínum stássjónum hér lendis getur verið stytta en menn gruna. Vestur í BNA eykst endurvinnsla á áli mjög hratt, Bandaíkjamenn hafa lært mikið af Evrópu og þetta gengur allt upp. Gríðarlegur sparnaður í orku með endurvinnslu og minna transsport ýtir undir að álbræðslur á Íslandi standist ekki samkeppni nema Íslendingar verði svo vitlausir að afhenda þessum álfurstum rafmagn fyrir nánast ekkert neitt eins og sumir stjórrnmálamenn hafa verið hallir undir svo framarlega að þeir fái sínar sporslur.
Fyrir um 30-40 árum var mikið rætt um olíuhreinsistöð í Geldingarnesi sem auðvitað var eins og hvert annað glapræði sem því miður sumir stjórnmálamenn virðast vera hrifnir af.
Mjög líklegt er að þessar stórkarlalegu hugmyndir tengjast peningaþvætti enda virðast flestir þessir aðilar vera meira og minna n.k. huldumenn sem enginn kannast við.
Guðjón Sigþór Jensson, 13.2.2014 kl. 14:00
Ekki bara það Guðjón, - heldur var talað um að hindra eðlilega nýsköpun til þess að bremsa af þenslu vegna álversins og virkjunarinnar.
Þetta var þegar Álgerður og Haarde voru á toppinum, og banksterarnir í góðu flugi.
Náði hæstu hæðum svona 2004-2007 með tilheyrandi vaxta-okri, sem svo olli þenslu hjá fjármagnseigendum í staðinn.
Bara segi það, - okkar bestu möguleikar liggja EKKI í orkufrekum iðnaði, heldur margbreytni. Kjölfestan er .... fiskur.
Jón Logi (IP-tala skráð) 14.2.2014 kl. 17:54
Mig minnir að einhver hafi sagt mér að hvert starf á Reyðarfirði hafi kostað 200 milljónir plús. Nú er *loksins* komið í höfn samkomulag fyrir uppbyggingu á Bakka, og þar á hvert starf að kosta frá 40 til 60 milljónum, plús.
Ég hef oft velt því fyrir mér, ef þjóðin hefði aðgang að digrum sjóðum, hversu ódýrt hún gæti skapað ný störf ef hugvitssemi hennar fengi notið sín í stað þess að fámennir hópar sitji að kötlunum.
Því miður veit ég ekki rétt svar við þessari spurningu - þó ég hafi vissulega sterkar skoðanir á henni.
Þess vegna vinn ég að umræðunni um Endurreist Þjóðveldi. Mig langar að fá spurningunni svarað.
Guðjón E. Hreinberg, 15.2.2014 kl. 01:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.