19.2.2014 | 08:12
Frægustu þingumræður heims.
Ekkert þjóðþing í veröldinni státar af jafn frægum og mögnuðum umræðum og breska þingið. Þær hafa þróast á svo löngum tíma, að frekar má tala um aldir en áratugi, en þessi þróun hefur frekar byggst, eins og svo margt í breskri löggjöf, á hægfara breytingum á hefðum frekar en skráðum reglum.
Sumar heitustu umræðurnar hafa orðið þær sögulegustu í starfi þjóðþinga heims, og er umræðan um styrjaldarreksturinn í Noregi, "Norway debate", 7. og 8. maí 1940 kannski sú, sem frægust varð og hafði mestar afleiðingar, því að þáverandi forsætisráðherra, Neville Chamberlain, var gagnrýndur harðlega af stjórnarandstöðunni fyrir ófarir Breta í Noregi.
Þegar honum fórst vörnin óhönduglega, fékk hann ekki aðeins harðar ádrepur frá mönnum eins og Loyd George, fyrrum forsætisráðherra, heldur einnig eigin fylgismönnum og hámarki náði þessi sameiginlega aðför stjórnarandstöðunnar og minnihluta stjórnarþingmanna með áskorun Leo Amery, fyrrum ráðherra: "Í guðs bænum, farðu frá!" ("In the name of god, go!")
Fjórðungur stjórnarþingmanna greiddi ýmist atkvæði með stjórnarandstöðunni eða sat hjá þegar tillaga um traustyfirlýsingu var borin upp, og þetta veikti stöðu Chamberlains svo mjög, að hann varð að segja af sér og Winston Churchill að taka við með því að mynda þjóðstjórn.
Í ljós kom að þessi þróun mála í þinginu skipti sköpum fyrir Breta bæði í lengd og bráð, því að staðfesta Churchills og ræðusnilld, leiðtogahæfileikar við erfiðar aðstæður í sögu Breta og vestrænna lýðræðisþjóða, komu í veg fyrir að Bretar gerðu það, sem margir bjuggust við, að beygja sig fyrir ofurefli Þjóðverja og leita nauðasamninga við þá eftir að Bretar biðu afhroð við Dunkirk og Frakkland féll í framhaldinu.
Ekki veit ég hvort sagnfræðingar hafa rannsakað niður í kjölinn, hve mikil áhrif hinar dramatísku þingumræður 7. - 8. maí 1940, umgerð þeirra og eðli, höfðu á það að beina málum í þann farveg sem reyndist hinn skásti af öllum mögulegum, kom upp á nákvæmlega réttum tíma og mátti helst ekki gerast seinna en raun varð á.
Chamberlain hafði sagt skömmu fyrir innrás Þjóðverja í Danmörk og Noreg: "Hitler hefur misst af strætisvagninum" og eftir ófarir í Noregi og enn meiri ófarir í Frakklandi er hægt að halda því fram að stjórn hans hefði hvort eð er fallið síðar um vorið. Chamberlain var í þann veginn að missa heilsuna vegna krabbameins og dó í nóvember 1940.
Hvernig sem því er farið gerðu umgjörð og eðli þingumræðurnar hana magnaðri og eftirminnilegri og þar með árangursríkari.
Umræðurnar á þinginu bera sum sumt með sér eðli átaka í dýraríkinu, þegar uppgjör verður milli tveggja karldýra og þau takast á, en gæta þess af eðlisávísun að halda hörkunni innan skynsamlegra marka.
Þetta er til dæmis vel þekkt í reglulegu uppgjöri meðal sleðahunda, sem raða sér sjálfir með því í "goggunarröð" í sleðaeykinu þegar merki sjást um að styrkur hundanna innbyrðis hefur riðlast.
Stundum særast hundarnir meira í þessum átökum en heppilegt er, og þau geta að þessu leyti farið úr böndunum án þess þó að annar hundurinn drepi hinn.
Kannski finnst forseta neðri deildar breska þingsins eitthvað slíkt hafa verið að þróast í umræðum þingsins en margir þingmenn eru honum greinilega ósammála.
Það er auðvitað matsatriði hvenær frammíköll verða of hávær og skemma jafnvel umræðurnar, en ansi er ég hræddur um að dregin yrði um of burst úr sjarma þeirra ef þingmenn steinþegðu alltaf.
Þingmenn gagnrýna forseta þingsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sigmund Davíð sleðahund,
sjáum nú á þingi,
hann oft syndir hundasund,
í heilmarga þar hringi.
Þorsteinn Briem, 19.2.2014 kl. 09:53
Í kvöld er ég syfjaður, - það er satt.
En þú ert með Sigmund Davíð á heilanum.
Í fyrramálið verð ég sprækur.
En þú verður ennþá með Sigmund Davíð á heilanum......
Hver er svipuð tilvitnun......
Jón Logi (IP-tala skráð) 19.2.2014 kl. 22:14
Hef alltaf gaman af framsóknarmönnum og sunnlenskum bændum.
Þorsteinn Briem, 19.2.2014 kl. 22:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.