Nú er frost á Fróni, - og mest niðri við jörð.

Ég er í þeirri aðstöðu að ég fylgist sérstaklega og náið allt árið með veðurupplýsingum frá svæðinu norðan Vatnajökuls og síðasti sólarhringur hefur verið athyglisverður.

Í nótt og í morgun hrundi hitastigið niður í mínus 27,7 stig´á sjálfvirku veðurstöðinni við Kárahnjúka og það komst í fréttir fjölmiðlanna, eins og sést á tengdri frétt á mbl.is

Þetta hringdi bjöllum hjá mér, því að 15 kílómetrum fyrir suðvestan þessa veðurstöð er Sauðárflugvöllur sem ég er umsjónarmaður og ábyrgðarmaður fyrir og á honum standa tveir bílar og kælivökvinn gæti frosið á og eyðilagt eða stórskemmt í þeim vélarnar.

Þetta er mesta frost sem komið hefur á þessum slóðum síðustu þrjú árin að minnsta kosti.

En með því að skoða tölurnar, annars vegar á Brúaröræfum, sem er sjálfvirk veðurathugunarstöð aðeins tvo kílómetra frá vellinum, og hins vegar uppi á Brúarjökli um 10 kílómetra þar fyrir sunnan, mátti sjá, að þar hefði frostið ekki orðið eins mikið og niðri við Kárahnjúka, ekki einu sinni uppi á jöklinum, og var munurinn heil 5 stig. BISA.20.5.13

Ástæðan er þekkt, - kalt loft sígur niður að faltri, hvítri jörð í rólegum vindi og kólnar þar enn frekar, en uppi á jöklinum er meiri hreyfing á loftinu, sem sígur undan halla jökulsins, svo að það nær ekki að kólna eins og kyrrara loft niðri á tiltölulega flötu landi.

Myndin, sem ég mun setja inn hér að ofan er tekin í maí í fyrravor og sést, að bílarnir tveir eru meirihluta til á kafi í snjó. 

Sé snjórinn meiri núna, virkar hann eins og einangrun og kemur í veg fyrir að það verði eins kalt undir yfirborði hans og yfir yfirborðinu. Í fyrravor hafði sólbráð orðið við bílana vegna þess að sólin hitaði upp dökka fletina á þeim, og því gæti snjórinn náð hærra upp nú.

Sé svo þarf ekki að hafa áhyggjur af því að vatn frjósi á bílnum og vélar þeirra skemmist.

Í vetur hafa ekki komið jafn miklir hlákukaflar þarna og á sama tíma undanfarna vetur. Ef það ástand helst til vors getur snjórinn verið undrafljótur að fara þegar hlýnar í vor. Myndin hér að ofan var tekin 20. maí í fyrravor, en aðeins tveimur vikum síðar var snjórinn nær alveg horfinn og 16. júní var völlurinn formlega opnaður, þótt ófært væri í kringum hann í nokkrar vikur eftir það.   


mbl.is Munar 30 gráðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband