Gerist svipað og í turnahverfinu ofan Skúlagötu?

Að öðru jöfnu ættu stórar blokkir að vera hagkvæmasta og ódýrasta húsnæðið fyrir tekjulítið fjölskyldufólk og fólk af millistétt og allt umhverfi þeirra að iða fjölbreyttu mannlífi og starfsemi, sem íbúðabyggð fyrir fjölskyldufólk fylgir.

En reynslan af turnabyggðinni ofan við Skúlagötu er þveröfug. Það þarf hvorki leikskóla né grunnskóla í þetta hverfi því að það er steindautt og gersneytt slíku mannlífi.

Enda ekki furða, því að verð íbúða þar er allt upp í milljón króna á fermetrann.

En það þjónar þó ákveðnum tilgangi fyrir þá, sem þar búa og ekkert við því að segja þótt reist séu svona hverfi vel stæðs fólks, því að það mun hvort eð er leita að hentugum stöðum fyrir sig til að búa á.

Hlíðarendahverfið nýja er útaf fyrir sig hið besta mál.

Og ef þetta nýja hverfi verður því marki brennt að verð húsnæðis verði hátt er heldur ekkert við því að segja, ekkert frekar en þegar íbúðabyggðin í vestanverðum Laugarási reis á sínum tíma og fékk í munni almennings heitið "Snobbhill".

Eigendur fjármagns og fasteigna munu ævinlega finna sér hverfi sem hentar þeim.

En fari svo að Hlíðarendahverfið verði mestan part byggt vel stæðu eða ríku fólki verður vaxandi vandi tekjulágra húsnæðiseigenda og venjulegs fjölskyldufólks ekki leystur í Vatnsmýrinni heldur mun það fólk leita í úthverfi og nágrannakaupstaði Reykjavíkur, alveg gagnstætt við yfirlýstan tilgang Hlíðarendahverfisins og turnanna í Skuggahverfinu.

Því að rétt eins og að fólkið í Austur-Þýskalandi "kaus með fótunum" og steymdi til Vestur-Þýskalands og annarra Vesturlanda, mun þetta fólk, sem sárvantar ódýrt húsnæði, "kjósa með hjólunum" í ljósi þeirrar staðreyndar að þyngdarpunktur íbúðabyggðar höfuðborgarsvæðisins er austast í Fossvogi og stærstu krossgötur landsins þar fyrir austan.

Næst þeim liggja Ártúnshverfi, Árbæjarhverfi, Langholtshverfi, Grensáshverfi, Breiðholt, Mjódd, Fossvogshverfi, austurhluti Kópavogs og Smárinn.

Á meðan heimsmálunum verður þannig háttað að mannkynið sóar orkulindum jarðar með rányrkju á þeim og Bandaríkjaher er nokkurs konar heimslögregla sem fer inn í hvert það land sem ógnar bruðli jarðarbúa með takmarkaðar orkulindir, verður erfitt að hamla gegn afleiðingunum um allan heim, því miður.

Fólkið leitar þangað sem því finnst sjálfu henta að búa og þá gilda lögmál um myndun byggðar sem erfitt er að streitast á móti í frjálsu þjóðfélagi.

Stærsta og mest knýjandi viðfangsefnið í húsnæðismálum okkar er vandi tekjulágra leigjenda og venjulegs fjölskyldufólks. Sá vandi er vaxandi og verður að takast á við hann á raunsæjan hátt.     

   


mbl.is Líkir Hlíðarenda við evrópskar borgir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Mikill meirihluti húsa í Skuggahverfinu eru gömul og frekar lítil og þar að auki er þar leikskólinn Lindarborg á Lindargötu 26 og stúdentagarðurinn Skuggagarðar á Lindargötu 42-46.

Og ekki held ég að Þorvaldur Gylfason prófessor á Lindargötu 33, Guðni Ágústsson fyrrverandi ráðherra á Lindargötu 35 og Hjörleifur Guttormsson náttúrufræðingur á Vatnsstíg 21 viðurkenni að þeir séu dauðir úr öllum æðum.

Einnig harla ólíklegt að þeir séu milljónamæringar, enda þótt þeir séu ekki fátæklingar.

En að sjálfsögðu ætti að reyna að koma í veg fyrir að háhýsi verði reist á Skúlagötu 22, sem myndi skyggja á útsýni frá Skólavörðuholti alla leið niður að sjó.

Ætlunin er að byggja allt að 850 íbúðir á Hlíðarendasvæðinu, þar af um 200 svokallaðar stúdentaeiningar og 50% íbúðanna verða tveggja herbergja en um 20% þriggja herbergja.

Í fyrra voru opnaðir stúdentagarðar, Sæmundargarðar, við Háskóla Íslands fyrir um 300 stúdenta og reistir verða stúdentagarðar á milli Nauthólsvegar og Öskjuhlíðar í nágrenni Háskólans í Reykjavík.

Mjög stórir vinnustaðir
eru skammt frá Hlíðarendasvæðinu, Háskólinn í Reykjavík, Landspítalinn og Háskóli Íslands, og líklegt að margir sem þar starfa kaupi íbúðir á Hlíðarendasvæðinu, í stað þess að búa langt frá þessum vinnustöðum.

Og það þýðir minni eldsneytiskaup, minni mengun, færri árekstra, minni tíma í ferðalög á milli heimilis og vinnustaðar, svo og minna slit á bílum og götum.

Þar af leiðandi getur verið hagstæðara að búa nálægt vinnustað, enda þótt íbúðir séu dýrari þar en langt frá vinnustaðnum.

Og jafnvel nóg að hjón eigi einn bíl
, í stað tveggja.

Rúmlega þriðjungur Reykvíkinga býr vestan Kringlumýrarbrautar og Landspítalinn er skammt frá gatnamótum Snorrabrautar, Hringbrautar, Bústaðavegar og Miklubrautar við Hlíðarendasvæðið og þau eru ein stærstu gatnamót landsins.

Þorsteinn Briem, 6.3.2014 kl. 17:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband