Á að banna júdó, íslensku glímuna o. s. frv.?

Enn er mér í minni þegar ég sá um að útvega skemmtiatriði á Sjómannadeginum í Vestmannaeyjum í áratug og fór þangað með flokk júdóglímumanna úr Ármanni. Þá, eins og nú, átti ný bardagaíþrótt á borð við júdó undir högg að sækja vegna fordóma.

Menn fordæmdu íþrótt þar sem "ofbeldi" væri beitt til að sveifla mönnum harkalega í gólfið, "hengja" þá, "beita fantatökum" og kenna aðferðir til að  "misþyrma fólki".

Sýning júdómannanna gerbreytti viðhorfum áhorfenda því að þar var upplýst um hinar ströngu reglur og aga sem giltu í hinni fornu japönsku íþrótt og og einnig upplýst um það að færni í íþróttinni gæti komið sér vel við að gera ofbeldismenn skaðlausa ef sú staða kæmi upp i daglegu lífi.

Einkum hrifust áhorfendur af því að sjá hvernig júdómönnum væri kennt að falla þannig til jarðar, ef þeim væri skellt á hábragði eða sveiflubragðí, að höggið af fallinu dreifðist á allan líkamann og yrði þannig skaðlaust.

Á þeirri hálfu öld sem liðin er síðan þetta gerðist hafa fjölmargar bardagaíþróttir numið land hér á landi, og þær eiga það sameiginlegt að allur umbúnaður í kringum þær, reglur og agi, á að tryggja að meiðsli í þeim verði ekki meiri en til dæmis í boltaíþróttum og vetraríþróttum.  

Einnig hafa ólympískir hnefaleikar, öðru nafni áhugamannahnefaleikar, verið leyfðir, en það var nú ekki svo lítið af fordómum, sem þurfti að takast á við, til að leyfa þá.

Í þessum íþróttum ganga tveir einstaklingar til leiks í drengilegri keppni af fúsum og frjálsum vilja, og allur undirbúningur keppni, æfingar og rannsóknir og greiningar á sjálfum sér og mótherjunum lýsa sér í að efla vilja og vitsmun, skynsemi, yfirvegun, hugarró, einbeitni og æðruleysi.

Mér er í minni þegar ég lýsti heimsmeistarakeppni í áhugamannahnefaleikum í tvær nætur fyrir 15 árum, þar sem enginn meiddist í viðureignum, sem tóku alls margar klukkustundir, en hins vegar voru tvær konur bornar af velli í íslenskum handboltaleik, sem fram fór kvöldið á undan fyrri lýsingu minni, önnur þeirra steinrotuð.

Bardagaíþrótt Gunnars Nelsons er blönduð úr ýmsum öðrum bardagaíþróttum svo sem kick-boxi og glímum, þar sem mörg brögðin eins og "lásar" og "hengingar" koma kunnuglega fyrir sjónir.

Þau rök, að hugsunin á bak við þessar íþróttir, sé svo slæm, að þess vegna eigi að banna þær, halda ekki þegar grannt er skoðað.

Samkvæmt því ætti að banna skylmingar, því að þær líkja eftir því að ráðast að manni með sverði og reka hann á hol.

Banna þyrfti íslensku glímuna, því að þar beita menn ofbeldi til þess að skella mótherjanum harkalega í jörðina.  

Banna þyrfti skák, af því að allan tímann eru menn ýmist drepnir á skákborðinu eða hafðar frammi hótanir um manndráp og lymskuleg brögð, blekkingar og útsmognar aðferðir við að klekkja á andstæðingnum.

Banna þyrfti þjóðaríþróttina handbolta vegna meiðslatíðni, meðal annars vegna afleiðinganna af því "ofbeldi" að "taka fast á þeim", "taka vel á mótið þeim", orðum sem lýsa sér oft  í því að toga í peysur, ryðjast á menn, gefa þeim högg eða olnbogaskot eða beita öðru fjölbreytilegu "líkamlegu afli til að stöðva mótherja.

Auðvitað er fráleitt að banna framantaldar íþróttir. Í þeim er þess gætt að hafa aga og reglur, sem setja mönnum takmörk og refsa þeim ef út af er brugðið, og eru þannig uppeldisatriði í sjálfu sér og hjálpa til að byggja sig upp, andlega og líkamlega.

Þegar litið er á menn eins og Gunnar Nelson og Ólaf Stefánsson, eftirbreytnisverða framkomu þeirra og frammistöðu, sést hvergi betur en á þeim gildi hins fornkveðna að "íþróttir efla alla dáð, / orkuna styrkja, viljann hvessa."  (Vona að ég fari rétt með)


mbl.is „Þetta er ekki ofbeldi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Að berja liggjandi mann í andlitið með olnbogunum er hvorki drengilegt né sýnir fegurð eða snilli.

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 10.3.2014 kl. 20:52

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Endilega!

Sigurður Þór Guðjónsson, 10.3.2014 kl. 21:01

3 identicon

Drög að lögum um bann við hættulegum leik:

 

Af “fagur fagur fiskur í sjó”

fannst Einsa kalda komið nóg,

bað sig háttvirta hemja,

hætta að lemja,

og helbláa höndina  í burtu dró!

 

http://www.ruv.is/frett/slegid-a-sattarhond-%E2%80%9Ei-hvert-skipti%E2%80%9C

Þjóðólfur í Frekjuskarði (IP-tala skráð) 10.3.2014 kl. 21:03

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Reglur eru mismunandi í mismunandi íþróttagreinum, þótt skyldar séu. Í hnefaleikum er bannað að gefa mönnum högg sem snert hafa gólf með öðrum líkamshluta en iljunum og er refsing við broti á þessu brottvísun úr keppni.

Ef annar keppandinn snertir gólfið með hnjám eða höndum, - eða hangir máttlaus eða varnarlaus í köðlunum, stöðvar dómarinn bardagann og gefu viðkomandi talningu á meðan hinn fer út í gagnstætt horn.

Viðurkennt er að spörk með fótum í höfuð manna, sem liggja í gólfi, eru miklu hættulegri en högg gefin með höndunum eftir ákveðnum reglum.

Ég geri ráð fyrir því að ef slysatíðni vegna svona högga í blönduðu glímunni yrði of há, myndu höggin verða bönnuð.

Ómar Ragnarsson, 10.3.2014 kl. 21:17

5 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Þessi samanburður við aðrar íþróttir er býsna góður. Ég hef til dæmis aldrei litið á skák sem ofbeldisíþrótt fyrr en þú minntist á það.
Er ég ofbeldismaður því ég hef gaman af skák?

Sumarliði Einar Daðason, 10.3.2014 kl. 21:21

6 Smámynd: Óskar

Tja, að kalla skák ofbeldisíþrótt er náttúrulega síðasta sort.  Það er hlaupin einhver Vigga Hauks í þig Ómar.  Ég hef fylgst með skák frá því Bobby og Boris voru að drepa menn hvers annars fyrir meira en 40 árum og aldrei man ég eftir því að maður á keppnisstað hafi orðið fyrir meiðslum fyrir utan að einn skákmaður kastaði eitt sinn hrók í hávaðasaman áhorfanda.  Það er vont að fá hrók í sig, meiraðsegja fyrir hróka alls fagnaðar.

En aftur að aðalatriðinu, þessi "íþrótt" sem um ræðir gengur út á að að berja eða limlesta andstæðinginn.  Skák gengur ekki útá það, ekki heldur handbolti, fótbolti eða blak eða bara nokkrar venjulegar íþróttir.

Ég er samt ekki á því að það eigi að banna þetta, sjálfur hef ég mjög gaman af því að horfa á Gunnar og félaga berja hvorn annan í mauk en ég deili líka algjörlega áhyggjum þeirra sem eru á þeirri skoðun að börn ættu ekki að horfa á þetta.  Ég mundi sjálfur ekki leyfa mínum börnum að horfa á þessa íþrótt vegna þess að hún hreint og beint gengur útá það að beita ofbeldi.

Óskar, 10.3.2014 kl. 21:48

7 Smámynd: P.Valdimar Guðjónsson

Það var nú aðeins "sláandi" að þessa sömu helgi skyldi keppnismaður í þessari íþrótt láta lífið vegna höfuðhöggs. Þungur kross að bera.

Ef ég skil rétt er þessi tegund bardagaíþrótta frekar ung. Væntanlega þá að einhverju leiti enn í mótun. Frjáls högg með olnboga hvar sem er í höfuð keppinautarins hljóta að vera undir smásjá. Maður trúir allavega ekki öðru. Einhver líkti þvi við að fá hafnaboltakylfu í hausinn.

P.Valdimar Guðjónsson, 10.3.2014 kl. 21:55

8 identicon

Bönnum fótbolta líka, bara á árinu 2013 létust 8 knattspyrnumenn í leik, á árinu 2012 voru þeir bara 4 sem létust og á árinu 2011 voru það 3. (og til að fyrirbyggja allan miskilning, þetta var kaldhæðni)

Nøkkvi Johannesson (IP-tala skráð) 10.3.2014 kl. 21:56

9 identicon

Hvar á að draga línuna? Á að leifa einvígi með skammbyssum? Er verjanlegt að leifa íþrótt þar sem "tveir einstaklingar til leiks í drengilegri keppni af fúsum og frjálsum vilja, og allur undirbúningur keppni, æfingar og rannsóknir og greiningar á sjálfum sér og mótherjunum lýsa sér í að efla vilja og vitsmun, skynsemi, yfirvegun, hugarró, einbeitni og æðruleysi" en þeim er frjálst að drepa ef þeir geta? Þar sem "allur undirbúningur keppni, æfingar og rannsóknir og greiningar á sjálfum sér og mótherjunum" miðast að því að valda mótherjanum sem mestum líkamlegum skaða?

Hábeinn (IP-tala skráð) 10.3.2014 kl. 22:14

10 Smámynd: Steingrímur Helgason

Bílar/bílstjórar drepa fleiri & örkumla en allar íþróttir, hverju nafni er þær nefnast.

Bönnum bíla/bílstjóra!

Steingrímur Helgason, 10.3.2014 kl. 22:39

11 identicon

Bílar/bílstjórar fara ekki af stað með því hugarfari að valda sem mestum skaða. Ef svo væri þá væru bílar/bílstjórar bannaðir.

Hábeinn (IP-tala skráð) 10.3.2014 kl. 22:48

12 identicon

Mér skilst að meiðsli í handbolta séu algengari en í ólympísku boxi....

Jón Logi (IP-tala skráð) 10.3.2014 kl. 23:12

13 identicon

Tölum bara við börnin okkar. Þau eru vel gefin. Ég mun að vísu ekki sýna mínum börnum þessa bardaga því sem foreldri tel ég þau ekki hafa neitt á því áhorfi að græða. En ég veit fullvel að einn daginn munu þau verða vitni að ofbeldi á einn eða annan hátt (fréttir, tölvuleikir, Alþingi) og það EINA sem ég get gert er að fræða þau eftir bestu vitund og biðja þau um að leita til mín ef þau sjá eitthvað sem veldur þeim óhug. Svoleiðis er bara samfélag nútímans, take it or leave it.

Jón Flón (IP-tala skráð) 10.3.2014 kl. 23:56

14 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Gerið þið það fyrir mig að lesa það sem ég skrifa. Ég skrifa um þá röksemd að hugarfarið eitt að baki íþrótt nægi til þess að banna eigi hana og tek sem dæmi hugarfarið að baki því að keppa í því hvor geti rekið hinn á hol með sverði eða hvor geti drepið fleiri menn á skákborði.

"Er þeim frjálst að drepa?" er spurt. Að sjálfsögðu ekki enda gerist það ekkert frekar í bardagaíþróttum en mörgu öðrum íþróttum. Meiðslatölur í íþróttum eru fyrir hendi sem sýna að svona spurningar eru út í hött.

Reynslan af bardagaíþróttum er ekki sú að menn "berji yfirleitt hver annan í mauk" eða "limlesti hver annan."

Harðar reglur eiga að tryggja að meiðslin verði ekkert meiri en gerist í öðrum íþróttum eins og skíðaíþróttum, bandarískum ruðningi eða handbolta.

Ómar Ragnarsson, 11.3.2014 kl. 00:15

15 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Nú er ég sammála þér Ómar minn, eins og svo oft áður. Við erum kannski andlega skyldir indíána-andar, (eða eitthvað).

Mér fannst einn komast vel að kjarna málsins, sem hringdi inná Bylgjuna seinnipartinn í dag, og spurði hvort ekki ætti að banna fjölmiðlafréttirnar. Þær væru nefnilega vegvísir að slæmu fordæmi fyrir öll börn á Íslandi, þegar sýnt er í beinni, frá t.d. stjórnmála-leikhúsi fáránleikans við Austurvöll.

Það er staðreynd að börn skynja/skilja fyrr og betur, lygar og ósamræmi, heldur en fullorðnir. Og þá verða þau skiljanlega rigluð og óörugg.

Það er daglega gert lítið úr skynjun og skilningi barna, á öllum vígstöðvum stjórnsýslukerfisins. Sorglegt en satt.

Sá sem fer eftir settum leikreglum er til fyrirmyndar, hvort sem er í íþróttum eða annarsstaðar.

Ég velti fyrir mér fyrirmyndar-siðferðisgildi grínteiknimyndar Fréttablaðsins í dag, (10-3-2014), sem dreifist "ókeypis" á hvert heimili höfuðborgarsvæðisins?

Á ekki bara að banna Fréttablaðið líka, svo börnin geti lifað áfram í stökkbreyttri siðferðisbrenglunar-bómull, þangað til þau komast á ESB-stríðsjötuna Alþjóðabankastýrðu?

Hjálpi okkur allir heilagir, frá svona pólitískum forræðis-miðstýringarheilaþvotti!

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 11.3.2014 kl. 00:56

16 identicon

Spurningin var er verjanlegt að leifa íþrótt þar sem mönnum er frjálst að drepa ef þeir geta. Það var ekki spurt hvort þeim væri frjálst að drepa. Þeim er frjálst að drepa. Þeir fara í hringinn til að koma sem fastasta höggi á sem viðkvæmastan stað. Þetta er ekki leikur þar sem líkt er eftir. Drepist andstæðingurinn er það talið hluti af íþróttinni, ekki brot. Í flestum íþróttum, handbolta - fótbolta - skylmingum, er keppandi brotlegur skaði hann vísvitandi andstæðinginn. Sá er eðlismunurinn.

Þegar keppendum er frjálst að drepa ef þeir geta er ekkert sem kemur í veg fyrir að upp spretti afbrigði þar sem nota má hnúajárn og kylfur. Bæta svo við öxum og keðjusög til að krydda skemmtunina. Náttúrulega að því gefnu að í þessum íþróttum ganga tveir einstaklingar til leiks í drengilegri keppni af fúsum og frjálsum vilja. Þarna er orðinn stigsmunur en ekki eðlismunur.

í þessum íþróttum ganga tveir einstaklingar til leiks í drengilegri keppni af fúsum og frjálsum vilja. Og þá er allt í lagi þó þeir berjist til dauða.Er ekki það sem við viljum lifa eftir og kenna börnunum okkar. Hugarfarið að baki þessari íþrótt er að mannslíf eru einskis virði. 

Hábeinn (IP-tala skráð) 11.3.2014 kl. 01:39

17 Smámynd: Mofi

Mér finnst það varhugavert að þegar menn deyja í svona íþrótt þá var það vegna þess að andstæðingurinn reyndi að koma öflugi höggi á þá. Andstæðingurinn var að reyna að meiða viðkomandi til að vinna bardagan, líklegast ekki drepa en við getum aldrei vitað það með vissu. Ef að Gunnar Nelson hefði dáið þarna í hringnum af því að hans andstæðingur hefði náð honum niður og náð að láta nokkur góð olbogaskot lenda á andliti hans; hvernig væru þá viðbrögð okkar?

Mofi, 11.3.2014 kl. 09:56

18 Smámynd: Landfari

Boð og bönn eru engin lausn og verndar ekki börn gegn ofbeldi. Ofbeldi sjá þau miklu frekar í hversdagsleikanum og í bíómyndum sem þó eru leifðar börnu.

Í þessari kepnin sjá þau ekki ofbeldi því það er ekki ofbeldi þegar báðir taka þátt af fúsum og frjálsum vilja. Við vilum samt ekki að þau fari að herma eftir þessu frekar en t.d. skíðastökkvara á olympiuleikunum og það er á ábyrgð okkar foreldra. 

Þó sumt sé leift á á einum stað þða er það bannað á öðrum stað. Þetta er út um allt í þjóðfélaginu. Sumt af því að það er hættulegt, annað af því að það er ekki viðeigandi.

Persónulega þá virðist mér þesi gunnar Nelson vera umtalsvert betri fyrirmynd en Justin Bieber  sem allt of margir krakkar líta upp til.

Landfari, 11.3.2014 kl. 10:23

19 identicon

Ómar,finnst þér það í raun samanburðarhæft að líkja þeim saman slagsmálastráknum Gunnari Nelson og handboltakappanum Ólafi Stefánssyni.? Þú ert nú meiri ´´grínarinn,, Ómar.

Númi (IP-tala skráð) 11.3.2014 kl. 11:43

20 identicon

Mér finnst allt of algengt að fólk kynni sér ALLS EKKI málin þegar þeir þeysast með látum fram á ritvöllinn. Mikið er um sleggjudóma frá mönnum og konum, algerlega án þess að þau hafi minnstu hugmynd um það sem þau eru tala um. Ég verð að viðurkenna að fyrst þegar ég sá þessa íþrótt þá leist mér ekki á blikuna og sagði "Ég er friðarsinni og horfi ekki á svona ofbeldi!". Málið er að þessi íþrótt, blandaðar bardagalistir var einu sinni talsvert verri en hún er í dag og átti að setja lög í bandaríkjunum til að banna hana. Þá komu menn saman og settu reglur sem minnkuðu til muna líkurnar á því að menn gætu slasað sig alvarlega. Það er til dæmis ekki allt leyfilegt í þessari íþrótt og menn ættu kannski að kynna sér örlítið reglurnar. Ef fólki líst ekkert á þetta þá er mjög auðvelt að einfaldlega slökka á sjónvarpinu eða tölvunni.

Mér finnst fullkomlega samanburðarhæft að líkja saman Gunnari Nelson og Ólafi Stefánssyni því báðir eru þeir miklir friðarsinnar í íþróttagreinum þar sem mikill atgangur er og þeir hafa báðir náð langt með einstökum gáfum og hæfileikum sem þeir báðir hafa. Þeir eru báðir mjög stóískir í eðli sínu og hreyfist varla í þeim blóðið utan leikvallar. Það er ótrúlega margt líkt með þeim.  Gunnar Nelson er einstaklega góð fyrirmynd fyrir unga krakka því hann er algerlega laus við allan derring og stæla.

Það að fara að banna svona íþrótt er fásinna því þá mætti banna ansi margar aðrar íþróttagreinar. Hins vegar  er það í höndum foreldra að halda börnum frá því að horfa á  keppni í svona íþróttagrein eða fræða þau um eðli íþróttarinnar því fræðsla hefur alltaf virkað betur á fólk heldur en boð og bönn.

Það sem börn sjá í fréttatíma sjónvarpsins getur stundum verið ansi grafískt og mætti gagnrýna það því þar er oft verið að drepa saklaust fólk.

Þorvaldur Þórsson (IP-tala skráð) 11.3.2014 kl. 15:00

21 identicon

http://en.wikipedia.org/wiki/List_of_association_footballers_who_died_while_playing

http://boxrec.com/media/index.php/Category:Ring_Fatalities

„Skemmtilegur“ samanburður.

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 11.3.2014 kl. 16:59

22 identicon

Sérstaklega í ljósi þess að fjöldi knattspyrnuiðkenda er margfaldur á við fjölda hnefaleikara.

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 11.3.2014 kl. 17:03

23 identicon

Og þá má ekki gleyma því að Jónas heitinn orti: „Vísindin efla alla dáð, etc.“, enda hefði hann ekki látið frá sér fara ofstuðlun eins og: „Íþróttir efla alla dáð...“

Maður er bara að verða eins og Vesturbæjarbúi, þótt ég sé löngu fluttur þaðan og í Hlíðarnar.

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 11.3.2014 kl. 20:30

24 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í "Íþróttir efla alla dáð" er engin ofstuðlun, þar sem "efla" er þar í lágkveðu.

Þorsteinn Briem, 11.3.2014 kl. 21:32

25 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ég gæti best trúað að "Tobbi" mæri hér ruglið í sjálfum sér, "Þorvaldi S", rétt eins og Jón Valur Jensson hælir sjálfum sér sem "Predikaranum".

Þorsteinn Briem, 11.3.2014 kl. 21:49

26 Smámynd: Þorsteinn Briem

Úr sama kvæði, Til herra Páls Gaimard, eftir Jónas Hallgrímsson:

"Þvílíkar/ færum/ þakkir/ vér
þ
ér sem úr/ fylgsnum/ náttúr/unnar
gersemar/, áður/ aldrei/ kunnar,
með/ óþreyt/anda/ afli/ ber."

(Ritverk Jónasar Hallgrímssonar, 1. bindi, Reykjavík 1989, bls. 105.)

Hér er /-anda/ í síðustu línunni í lágkveðu.  

"Stundum kemur áherslulaus forliður á undan fyrstu kveðu. Kveður kallast tvíliður eða þríliður eftir atkvæðafjölda.

"Bragarháttur kveður á um hvernig hrynjandin á að vera og hvernig stuðlar og höfuðstafir raðast á kveður, en ávallt gildir að ekki má vera of langt á milli ljóðstafa, stuðlarnir mega ekki vera báðir í lágkveðu ... og höfuðstafur er alltaf í fyrstu hákveðu."

Þorsteinn Briem, 11.3.2014 kl. 22:49

27 identicon

Nú er það vitaskuld að æra óstöðugan að munnhöggvast við bullið í Steina.  En maður sem segir: „Í "Íþróttir efla alla dáð" er engin ofstuðlun, þar sem "efla" er þar í lágkveðu.“ hefur náttúrlega ekki vit á bragfræði og því fer fjarri að hann hafi brageyra. 

Og athugasemdin fjallaði reyndar um að Ómar vitnaði rangt í kvæði Jónasar Til herra Páls Gaimard. Og með því að breytingin skaut inn aukastuðli varð línan ofstuðluð.  Stuðlar geta verið bæði í lágkveðu og hákveðu þótt þeir geti ekki verið báðir í lágkveðu.  Þá er rangt stuðlað.  Og maður sem hefur brageyra heyrir það og sömuleiðis ef stuðlarnir eru þrír og það þótt einn þeirra sé í lágkveðu. 

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 12.3.2014 kl. 08:33

28 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Virðing fyrir reglum og aga er vissulega mikilvægust í öllum viðurkenndum íþróttum.

En ekki er krafist sömu virðingar fyrir réttindum og tilgangi manneskjunnar yfirleitt í sjálfsákvörðunar-frelsisrétti. Sá réttur einstaklinga er hundsaður af opinberum "siðmenntuðum" sviðum samfélaganna, sem þó telja sig siðmenntuð? Og enginn gerir veður út af þeim sjálfsákvörðunar-frelsis-réttindabrotum!

Hvers vegna?

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 13.3.2014 kl. 00:20

29 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Og bardagaíþrótt er viðurkennd íþrótt, sem einstaklingar stunda af fúsum og frjálsum eigin vilja!

Enginn þvingar þá til þátttöku í bardagaíþrótt, eins og viðgengst í þvingunar-hernaðarþátttöku í herskylduríkjum!

Umhugsunarvert fyrir þá sem eru að sækjast eftir aðild að hernaðarbandalaginu ESB!

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 13.3.2014 kl. 00:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband