Hvar endar þetta fáránlega "jeppa"tal?

Notkun orðhlutans "jepp" er orðin beinlínis hlægileg hér á landi um bíla, sem eiga nær ekkert sameiginlegt lengur með jeppum, og í engu öðru tungumáli sést hliðstæða svona orðavals.

Fyrstu jepplingarnir hér á landi sem nota hefði mátt þetta orð um, voru fjórhjóladrifnir Subaru, Toyota Tercel, Fiat Panda 4x4 og Toyota RAV4, en nýyrðið jepplingur varð ekki til í íslensku fyrr en sá síðasnefndi kom til sögunnar og fleiri fóru að bætast við, svo sem Honda CRV, Landrover Freelander og Renault Scenic 4x4.

Um svona bíla var síðan farið að nota tvö nýyrði erlendis, SUV (Sport Utility Vehicle) og Crossover, þ. e. bíla með heilsteyptri sjálfberandi hárri byggingu, drif á öllum hjólum og örlítið meiri veghæð.

Ekkert íslenskt nýyrði hefur verið kynnt um þessa bíla, en orðið umskiptingur lýsir því kannski að hluta.

Smám saman komust bílaframleiðendur að því að fjórhjóladrif og veghæð skipti kaupendur miklu minna máli en útlitið sjálft og fóru því að lækka veghæðina og bjóða "jepplingana" án fjórhjóladrifs.

Ástæðan var sú að útlitið var orðið að stöðutákni þótt auðvitað væri aðeins meira rými inni í hábyggðum bílum en lágbyggðum. Renault_Captur_Luxe_ENERGY_TCe_90_Start_&_Stop_eco²_–_Frontansicht,_10._Juli_2013,_Münster_(3)[1]

Nú er svo komið að langflestir "jepplingarnir" eða "borgarjepparnir" eru ekki fjórhjóladrifnir og flestir með svo litla veghæð, að hlaðnir komast þeir hvorki lönd né strönd á slæmum vegum.

Og nú eru að koma á markað "borgarjeppar" sem eru ekki einu sinni seldir með fjórhjóladrifi eins og til dæmis Renault Captur.

Þar með er notkun orðshlutans "jepp" komin út í tóma vitleysu og komið mál til að hætta að nota það í bílum sem hafa engu betri eiginleika á erfiðum og torfærum vegum en venjulegir fólksbílar, en veita falska öryggistilfinningu.

Veghæð þeirra óhlaðinna er minni en var til dæmis á Volkswagenbjöllunni og flestum öðrum fólksbílum hér í gamla daga.

Flestir þessara bíla er með framenda sem skagar langt fram alveg niðri við jörð og er því hætt við að rekast niður á ójöfnum vegum, til dæmis þar sem hvörf eru í þeim eða þeir liggja yfir ár og læki.

Ef bílarnir væru með fjórhjóladrifi gæti framendinn að vísu nýst sem ágætis snjóýtutönn, en er auðvitað ekki hannaður með slíkt í huga heldur sem tískufyrirbrigði og í besta falli hentugt lag til að lækka loftmótstöðu.

Í ofanálag er nú í gangi tilhneiging til að lækka yfirbyggingu þessara bíla og hefur hún að meðaltali lækkað um 5-10 sentimetra á síðustu misserum og orðin svipuð og var á venjulegum fólksbílum fram undir 1960. Á sama tíma hafa venjulegir fólskbílar hækkað, svo að hæðarmunurinn á þeim og þessum "borgarjeppum" er orðinn minni en 10 sentimetrar !    

Eina sérstæða þessara umræddu bíla er að þeir hafa sðeins hærra þak en venjulegir fólksbílar og orðin "háþekja", "háþekjubíll" eða "fjölnotabíll" ættu kannski best við, en með sama áframhaldi er hætt við að einnig sá munur sé að þurrrkast út!     


mbl.is Með notagildið á hreinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Skrepplingarnir enda á götunni með sama áframhaldi.

Þorsteinn Briem, 26.3.2014 kl. 21:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband