29.3.2014 | 21:29
Ögmundur er ekki tímaskekkja, ástandið hér á landi er það.
Spurt er í athugasemd við fréttina um fyrirætlan Ögmundar Jónassonar að fara inn á Geysissvæðið á morgun án þess að borga landeigendum fyrir það, hvort Ögmundur sé tímaskekkja.
Skoðum málið og berum ástandið hér á landi saman við ástandið í Bandaríkjunum, en þar í landi telja menn sig forystuþjóð fyrir frelsi, einkaframtaki og markaðshyggju.
Flest helstu náttúruverðmæti Bandaríkjanna eru í þjóðareigu og hafa verið það allt frá stofnun Yellowstone-þjóðgarðsins fyrir 140 árum.
Rukkaður er aðgangseyrir inn í þjóðgarðana, en það er meðvituð stefna að aðgangseyririnn nægir hvergi nærri til að borga fyrir kostnaðinn við viðhald og þjónustu í þeim, vegna þess að annars yrði aðgangseyririnn svo hár, að það yrði ekki fyrir hina tekjulægri að borga fyrir hann.
Þetta er í samræmi við einkunnarorð, sem standa letruð stóru letri yfir inngangshliðinu: "Til yndisauka og ánægju fyrir fólkið/þjóðina".
Hér rekum við okkur strax á algera andstæðu við gróðahyggjuna og sérhagsmunaákafann, sem ríkir hér á landi og er hreint ótrúleg tímaskekkja og hneisa.
Þar að auki fær hver þjóðgarðsgestur í Bandaríkjunum strax í hendur við innganginn vandaðan leiðbeininga- og upplýsingabækling og sér um leið og hann kemur inn í garðinn fyrir hvað hann er að borga, - og hann sér meira en það, - hann sér að það sem gert er í garðinum er miklu dýrara en hann hefur borgað fyrir, - þetta eru reyfarakaup.
Þetta er alger andstæða þess, sem nú er að gerast hér á landi.
Bandaríkjamenn skoða þetta út frá miklu víðara sjónarhorni en við. Þeir telja að um heiður, sóma, stolt og þar með viðskiptavild þjóðarinnar sé að ræða en ekki um þröng einkasjónarmið eða staðbundin sjónarmið. Þeir telja sig ekki eiga náttúruverðmætin, heldur hafa þau að láni frá afkomendum sínum og vera vörslumenn gersema fyrir komandi kynslóðir og mannkyn allt.
Þeir vita að óbeinar tekjur af þjóðgörðunum streyma inn þjóðfélagið um allt landið. Þeir vita til dæmis, að þær 1,5 milljónir ferðamanna á ári, sem koma til Yellowstone, þurfa að fara langa leið til þess og að mest af þeim tekjum fellur til víða um Bandaríkin.
Hvergi í þeim 28 þjóðgörðum sem ég hef komið í víða um lönd hef ég séð neitt í líkingu við ruglið og óreiðuna sem hefur viðgengist á Geysissvæðinu og víðar í áratugi með ástandi, sem er fyrir löngu orðið þjóðarskömm.
Þess vegna verður för Ögmundar og vonandi sem flestra fleiri inn á svæðið á morgun ekki tímaskekkja, heldur er fyrir langalöngu orðið tímabært að hreinsa þessi mál upp og það sem fyrst.
Líkir gjaldtökunni við þjófnað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Annað dæmi:
21.1.2013:
Heildarkostnaður ríkis og Reykjavíkurborgar vegna byggingar Hörpu um 18 milljarðar króna eftir yfirtöku að meðtöldum fjármagnskostnaði vegna lána til 35 ára
1.7.2010:
Um 10 milljarða króna kostnaður vegna byggingar Hörpu fyrir yfirtöku ríkis og Reykjavíkurborgar
Heildarkostnaður vegna byggingar Hörpu er því um 28 milljarðar króna.
Tekjur vegna Iceland Airwaves og CCP Fanfest eru hins vegar nú þegar samanlagt um einn og hálfur milljarður króna í nokkra daga á ári hverju, eða 30 milljarðar króna á 20 árum.
Þorsteinn Briem, 29.3.2014 kl. 21:41
Þegar ég bjó í bandaríkjunum þá keypti ég stundum árskort (national park annual pass). Það gilti í alla þjóðgarða hvort sem maður var á fót, bíl eða öðru farartæki. Aldrei sá ég eftir krónu í þetta kort og það virkaði sem hvatning til að nýta kortið og ferðast. Í suma þjóðgarða kostar per bíl og 16 ára og yngri þurfa ekkert að borga. Ég skammast mín fyrir það sem er í gangi á Íslandi í dag en það minnir vissulega á fyrirkomulagið hér á NZ þar sem maður borgar stórfé til að skoða t.d. jarðhita svæði (sjá t.d. http://waiotapu.co.nz/entry/ )
Sigrun Hreinsdottir (IP-tala skráð) 29.3.2014 kl. 21:51
Fyrir græðgi er öll náttúran of lítil.
Frank Justus Miller.
Sigurdur V.Gudjonsson (IP-tala skráð) 30.3.2014 kl. 01:49
vandamálið með geissisvæðið að eignarhaldið er ekki á hreinu mig minnir að stór hluti af því tilheiri lauginni sem er eign ríkisins. og skiptum við haukadalstorfu er ekki á hreinu þar á ríkið nokkurn hlut. hitt er annað að sinuleisi rkisins er mikkið á svæðinu svo ef eithvað kemur fyrir hver ber ábyrðina
kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 31.3.2014 kl. 21:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.