3.4.2014 | 11:55
"Af náttúrulegum völdum". Þrjú töfraorð og málið dautt.
David Cameron forsætisráðherra Breta var ekki lengi að negla niður orsakir þess að hann hætti við að fara út að hlaupa í morgun. Hann notaði þrjú töfraorð, sem ævinlega hafa verið notuð til að breiða yfir afleiðingar af rányrkju og illri meðferð manna á auðlindum jarðar:
"Af náttúrulegum völdum"
Málið dautt. Frekari rökstuðningur Camerons var að mengunin stafaði af ryki, sem kæmi frá Sahara.
Fyrir 30 árum fjallaði forsíða og megingrein tímaritsins Time um eyðimerkur jarðar. Í henni kom fram hve mjög auðnir, sandar og eyðimerkur jarðar hafa stækkað í gegnum aldir og árþúsund af mannavöldum.Einnig kom fram, að eyðimerkurnar héldu sífellt áfram að stækka, skógar jarðar að minnka vegna skógarhöggs, og að á lista yfir bestu vini eyðimarkanna trónuðu tveir efst: 1. Geitin. 2. Sauðkindin.
Það var til dæmis ekki tilviljun að Fönikía á norðurströnd Afríku gegnt Ítalíu, væri stórveldi og skæður keppinautur Rómaveldis fyrir rúmum 2000 árum.
Þar var þá mikið gróðurlendi, þar sem nú eru eyðimerkur og sandar. Ástæðan var rányrkja sem fór svona illa með landið.
Sömuleiðis var veldi Mesapótíumanna mikið enn fyrr í mannkynssögunni. Þar var einnig stunduð mikil rányrkja og nú eru þar eyðimerkur sem áður voru gróðursæl héruð.
Eyðimerkur jarðarinnar eru sístækkandi. Þess vegna verður æ meira ryk frá þeim sem berst víða um lönd, ekki "náttúrulegar ástæður".
Ein af ástæðum þess að Nikita Krústjoff hrökklaðist frá völdum í Sovétríkjunum voru gersamlega misheppnaðar landbúnaðar"umbætur" hans í syðstu ríkjunum. Þær ollu stórfelldri gróðureyðingu þegar fram í sótti og uppþornun Aralvatns.
Í San Joachim dalnum í Kaliforníu fóru menn út í vanhugsaðar áveitur og virkjanir sem smám saman ollu því að landið varð of salt og gróðurinn eyddist.
En ryk frá stækkandi eyðimörkum eru hvalreki fyrir þá sem telja að allt sé í stakasta lagi. Billegasta skýringin er jafnan höfð á lofti, að þær stækki "af náttúrulegum völdum" og forsætisráðherra Breta notar "náttúrulegar orsakir" af völdum Sahara til að útskýra svo mikla mengun lofts yfir Bretlandseyjum, að ekki sé hægt að hlaupa útivið.
Einhver mesta gróðureyðing nokkurs lands í heiminum af völdum rányrkju blasir við á Íslandi.
Á aðeins örfáum öldum tókst landsmönnum að höggva megnið af skógunum og misstu sjálfstæði sitt meðal annars vegna þess að ekki var lengur nægur viður til skipasmíða.
Við landnám "var landið viði (kjarri og skógi) vaxið milli fjalls og fjöru segir Ari fróði þegar hann skrifar Íslendingabók aðeins rúmum tveimur öldum eftir landnám.
Skógur og kjarr höfðu bundið jarðveginn á landinu í 10 þúsund ár og komið í veg fyrir að hann blési upp vegna öskugosa eldfjallanna og tímabundinna kuldaskeiða.
Þegar búið var að höggva kjarrið og sauðfé í landinu stórfjölgaði fyrir um 500 árum, náði vindurinn að komast undir gróðurþekjuna, sem hvíldi ofan á lausum eldfjallajarðvegi, gagnsætt því sem var í Noregi.
Menjar eru um kolagrafir við Kjalveg og kjarrhögg skammt suður af Jarlhettum þar sem síðar varð blásin auðn.
En menn hafa notað eldgos og kólnandi tíðarfar sem allsherjar útskýringu á þessari einstæðu jarðvegseyðingu. Er þó vitað að eldgos á Íslandi hafa verið alla tíð og voru jafnvel 30 sinnum tíðari þegar íslaldarjökullinn hvarf og fyrst eftir það en dæmi eru um síðar.
Fyrir rúmum hundrað árum var svo komið að Rangárvellir voru að leggjast í auðn vegna sandfoks.
Þá réðust Rangvellingar gegn sandvánni nánast með berum höndunum, höfðu sigur og búa síðan yfir meira en 100 ára reynslu og ómetanlegri þekkingu á orsökum jarðvegs- og gróðureyðingar og því hvernig best er að bregðast við henni.
En hér á landi eru margir David Cameronar sem gera ekkert með þekkingu landgræðslustjóra og manna hans og reynsluna af meira en 100 ára starfi Sandgræðslunnar og síðar Landgræðslunnar.
Menn varpa bara fram töfraorðunum "af náttúrulegum völdum" og málið er dautt, - þeir sem voga sér að halda öðru fram eru "umhverfisöfgamenn".
Hætti við morgunhlaupið vegna mengunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
3.4.2014 (í dag):
Umdeild ummæli Sigmundar Davíðs rata í heimspressuna
Þorsteinn Briem, 3.4.2014 kl. 12:35
3.4.2014 (í dag):
"Höfn í Hornafirði stendur nú 15 sentímetrum hærra en árið 1997 og ástæðan er minna farg af bráðnandi jökulþekju.
Súrnun sjávar mun taka yfir sem helsta rannsóknar- og áhyggjuefni vegna hlýnunar jarðar af völdum loftslagsbreytinga og súrnunin er tekin að hafa áhrif á efnahag ríkja."
"Áætlað er að þegar Vatnajökull hefur hopað allur muni land undir honum miðjum rísa um rúma 100 metra og allt að 20 metra við Höfn í Hornafirði.
Fargléttirinn við bráðnun jökulsins mun stórauka eldvirkni, enda á kvikan þá greiðari leið upp á yfirborðið."
Þorsteinn Briem, 3.4.2014 kl. 13:25
"Hubris" (forngríska ὕβρις) er orðið mjög áberandi hjá Sigmundi Davíð.
Og þennan reynslulittla og lítt menntaða auðmann, gerðu innbyggjarar að forsætisráðherra.
Má ég biðja mína landsmenn að vanda sig meira næst?
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 3.4.2014 kl. 13:44
Eins og þegar landar okkar völdu flugfreyjuna?
Erlendur (IP-tala skráð) 3.4.2014 kl. 13:52
Þótt mér finnist ljótt að segja það, er það sem þú segir hér um eyðimerkur er eintóm steypa og endaleysa. Eyðimerkur hafa verið að vaxa í ca. sjö þúsund ár samhliða því að veður hefur kólnað og jöklar skriðið fram. Þegar veður hlýnar gufar hins vegar meira upp úr höfunum auk þess að hlýtt loft tekur til sín miklu meiri vatnsgufu en kalt. Eyðimerkur munu því aftur gróa upp. Þetta er í rauninni barnaskólalærdómur, en virðist þó vefjast fyrir ansi mörgum. En ég held að þú þurfir að lesa nýendurskoðaða Þjóðmálagrein mína, „Að flýta ísöldinni“ þar sem ég ræði þetta, „súrnun sjávar“, „bráðnun Suðurskautslandsins“ og margar aðrar firrur sem haldið er fram af fáfræði einni saman.
Vilhjálmur Eyþórsson, 3.4.2014 kl. 14:23
„Að flýta ísöldinni“ má lesa hér: http://vey.blog.is/blog/vey/entry/1349037/#comments
Vilhjálmur Eyþórsson, 3.4.2014 kl. 14:24
Heimskir taka höndum tveim,
hubris er að bólgna,
eldur kraumar undir þeim,
ætíð þeir þó kólna.
Þorsteinn Briem, 3.4.2014 kl. 14:31
"Hæsta hitastig sem mælst hefur á jörðinni var á láglendi í El Azizi í Lýbíu í Saharaeyðimörkinni þar sem hitastigið mældist +58°C.
Í heitum eyðimörkum dregur yfirborðið í sig svo mikinn hita að lag af heitu lofti (allt að 77°C) myndast rétt fyrir ofan yfirborðið."
"Hiti eykur ennfremur þurrk með því að auka uppgufunarhraða.
Í heitum eyðimörkum getur uppgufunarhraðinn verið svo mikill að þegar loks rignir helst jarðvegurinn þurr, því regndroparnir gufa upp í miðju lofti."
"Eyðimerkur endurvarpa hitanum aftur út í geiminn, sem veldur því að hitastigið fer undir frostmark á næturnar.
Lofthiti í eyðimörkum getur því sveiflast um 80°C á einum sólarhring."
Eyðimerkur jarðar - Stjörnufræðivefurinn
Þorsteinn Briem, 3.4.2014 kl. 15:22
Þar með er greinin góða í Time orðin að "hreinni steypu." Sömuleiðis stórfróðlegur fyrirlestur Björns Sveinbjörnssonar, fulltrúa hjá landbúnaðrstofnun Sameinuðu þjóðanna sem hann hélt hér um árið. Sömuleiðis bókin "Cadillac desert" eftir Marc Reisner.
Sömuleiðis frásögn Ara fróða og rannsóknir og reynsla sérfræðinga Landgræðslu Íslands.
"Allt tóm steypa". Þrjú orð og málið er dautt.
Ómar Ragnarsson, 3.4.2014 kl. 16:13
Lestu greinina.
Vilhjálmur Eyþórsson, 3.4.2014 kl. 17:49
Allt tóm steypa. Það sem þú sérð hér Ómar, eru vitringar sem skoða afleiðingarnar og sjá afleiðingarnar sem ástæðuna.
Báðir hafa ýmislegt til síns máls ... en það sem menn gleima, er það að sólina nægir ekki til að hita jörðina. Samt sem áður, eru umræður um "Global warming" í algleimi. Því ef við hefðum ekki þennan hjúp, sem lokar inni hitann ... værum við lítið annað en frosinn titlingaskítur á þessari jörð. Þannig að orðið "eintóm steypa" má nota í mörgu samhengi. Má líka nota það um "eftirá" vitsmuni, Vilhjálms og Steina.
Þegar Rómarríki, Grikkland og Persía voru í algleimingi. Svo maður tali nú ekki um Egyptaland, byggðu þessir menn skip í þúsundatali. Til þess að byggja borgir þessara tíma, varð að ryðja skóginn (Eins og gert er í suður-Ameríku í dag), og var hann þá hreinlega brenndur. Einhver staðar kom þessi efniviður frá ... að sjálfsögðu.
Víkingatímabilið, var af mikilli ástæðu vegna ofgnægðar skóga í Skandinavíu. En í Svíþjóð hafa verið skóglendi í gegnum árþúsundin, af mismunandi gerð. En Víkingarnir brenndu skógana, huggu og beittu á þá svo að um munaði. Frá 800 til um 1200 hafði skógum Svíþjóðar verið svo gengið að, að landið var á miðöldum að stóru leiti heiðar. Í dag eru reglur, sem krefja bændur þess að þeir verða að endurnýja skóginn eftir að hafa höggvið hann. Þetta hefur verið í gildi, allt frá því að Svíakonungur á sínum tíma, setti á reglur um að græða upp skóga á heiðunum.
Beit búfjár hafa verið vandamál í gegnum alla sögu mankynsins. Og þörf á nýjum beitilöndum var oft stór ástæða þess að ríki breiddu úr sér, og líka oft ástæða þess að önnur létu í lægri hlut. Þetta vandamál var áfram til staðar í Ameríku, þegar innflytjendur fluttu þangað og eru nú ekki ósögufrægar sögurnar af stríðum milli naut og fjárbænda þar í landi.
Síðan má taka aðra hliðar þessa máls, svo sem þörf skóga á vatni. En votbjörk, drekkur um það bil 800 lítra af vatni. Sem er ekkert smáræði. Menn hafa nú á dögum, nýtt sér þetta til að þurka upp votlendi ... en hégómagirnd manna hefur einnig leitt til þess að tré sem ekki áttu þar heima, hjálpuðu til við að þerra upp landið á of skömmum tíma.
Þannig, að það sem Ómar segir hér ... er engin "eintóm steypa".
Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 3.4.2014 kl. 18:12
Með dyggri hjálp lúpínunnar hafa Landgræðslan, Skógræktin og áhugamannafélög unnið stórvirki við uppgræðslu.
Sjá hér og hér.
Ágúst H Bjarnason, 3.4.2014 kl. 18:16
Svokallað "blóðregn" er þekkt náttúrulegt fyrirbæri í Evrópu, hvað svo sem Ómar Ragnarsson fullyrðir. Forsætisráðherra Bretlands sér ekki álfa í hverju horni og svaraði því spurningum fréttamanna af þekkingu og yfirvegun.
Vísindalegar staðreyndir eru hins vegar eitur í beinum umhverfisöfgamanna sem þrífast á heimsendaspádómum og pólitískum styrkjum.
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 3.4.2014 kl. 19:27
Svo má spyrja hvenær mannskepnan hætti að teljast hluti af náttúrunni. Og hvers vegna engisprettufaraldur, ísöld, ebola og flóðbylgjur teljast eðlilegur hlutur náttúrunnar en maður, sem ekki er nakinn og sveltandi, aðskotahlutur sem hefur engan rétt. Eða ætti maður e.t.v. frekar að spyrja hvernig manneskja hugsar svona? Hvað þarf firringin og mannhatri að vera mikið til að hvalur eða foss sé talinn rétthærri en mannslíf?
Oddur zz (IP-tala skráð) 3.4.2014 kl. 21:15
Við Íslendingar höfum miklar útflutningstekjur af því að erlendir ferðamenn skoði íslenska fossa.
Þorsteinn Briem, 3.4.2014 kl. 21:27
2013 komu yfir hálf miljón ferðamanna að Gullfossi og borguðu hver um 10.000 krónur fyrir rútuferðina. Það gerir árlegar tekjur uppá 5 miljarða á ári.
Árið 2012 námu tekjur af útflutningi áls 226 milljörðum króna.
Oddur zz (IP-tala skráð) 3.4.2014 kl. 22:19
Ekki veit ég til þess að ferðamenn hafi greitt að meðaltali tíu þúsund krónur fyrir ferð að Gullfossi.
Þorsteinn Briem, 3.4.2014 kl. 22:24
Ferðaþjónusta varð stærsta útflutningsgreinin hér á Íslandi í fyrra, 2013.
Tekjur af erlendum ferðamönnum voru þá 275 milljarðar króna, eða 26,8% af heildarverðmæti útflutnings vöru og þjónustu.
Þorsteinn Briem, 3.4.2014 kl. 22:29
Samtök iðnaðarins:
"Mikilvægi hátækniiðnaðar fyrir atvinnulíf framtíðarinnar speglast í því að fimmtungur allra nýrra starfa sem urðu til hér á Íslandi á árunum 1990-2004 sköpuðust vegna hátækni.
Á sama tíma fjölgaði aðeins um 500 störf í stóriðju og fækkaði um fjögur þúsund í sjávarútvegi.
Í lok tímabilsins störfuðu 5% vinnuaflsins, 6.500 manns, við hátækni, 900 við stóriðju (0,7%) og ríflega 10 þúsund í sjávarútvegi.
Í hátækni eru 40% starfsfólksins með háskólamenntun og um 60% með háskóla- og iðnmenntun.
Ef borinn er saman virðisauki Íslendinga af stóriðju og hátækni sést að virðisauki framleiðslunnar í hátækni er rúmlega þrefalt meiri en í stóriðju.
Þetta skýrist af því að hátæknigeirinn er vinnuaflsfrekur og í innlendri eigu en einungis þriðjungur virðisaukans í stóriðju verður eftir í landinu og um 70% eru flutt úr landi."
Þorsteinn Briem, 3.4.2014 kl. 22:31
Um þrjú þúsund störf voru þá í tengdum greinum, til dæmis smásölu, afþreyingu, verslun, menningu, tómstundum og þjónustu tengdri farþegaflutningum.
Ferðaþjónusta á Íslandi í tölum - Febrúar 2010
Þar að auki er ferðaþjónusta í öllum bæjum, þorpum og sveitum landsins.
Stóriðja er og verður hins vegar einungis á örfáum stöðum á landinu.
7.3.2012:
"Þrjú álver eru rekin á Íslandi og hjá þeim starfa um tvö þúsund manns en þegar bætt er við þeim sem tengjast álverunum teljast um 4.800 starfa í áliðnaði og tengdum greinum.
Þetta kemur fram í skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann fyrir Samtök álframleiðenda."
Þorsteinn Briem, 3.4.2014 kl. 22:35
Lásu menn virkilega ekki nægilega vel skýrslu IPCC?
Grein í The Spectator:
http://www.spectator.co.uk/features/9176121/armageddon-averted/
Úrklippur:
"...The received wisdom on global warming, published by the Intergovernmental Panel on Climate Change, was updated this week. The newspapers were, as always, full of stories about scientists being even more certain of environmental Armageddon. But the document itself revealed a far more striking story: it emphasised, again and again, the need to adapt to climate change. Even in the main text of the press release that accompanied the report, the word ‘adaptation’ occurred ten times, the word ‘mitigation’ not at all...".
"...Professor Chris Field is the chairman of Working Group 2 of the IPCC, the part devoted to the effects of climate change rather than the cause. ‘The really big breakthrough in this report,’ he says, ‘is the new idea of thinking about managing climate change.’ His co-chair Vicente Barros adds: ‘Investments in better preparation can pay dividends both for the present and for the future … adaptation can play a key role in decreasing these risks’. After so many years, the penny is beginning to drop..."
Ágúst H Bjarnason, 4.4.2014 kl. 14:21
Besti vinur eyðimarkar er....hún sjálf. Þegar landrof er komið af stað, þá er erfitt að stöðva það.
Sjálfsagt náðu Íslendingar að hjálpa til við landrof á öldum áður, með því einfaldlega að vera til. Mér þykir þó hlutur mannskepnunnar gerður heldur stór miðað við þau heljaröfl náttúrunnar sem léku sína leiki síðustu 1000 árin eða svo.
Þetta sést vel á Rangárvöllum. Við Þingskála var apalhraun nokk nakið fyrir 1000 árum, - nú eru þar grónir hólar, þar sem sandfok/vikurfok hefur fyllt upp, og svo hefur gróið.
Uppi við Keldur á Rangárvöllum er varnarmúr sem kynslóðir af fólki hlóð úr hraungrýti. Handan við hann er auðnin ein, en á bak við graslendur. Þær þurfti reyndar stundum að moka, - svo mikið skóf stundum yfir af ösku og sandi. Eitt sinn féll niður þekjan í gamla eldhúsinu þar á bæ, - þá var sandlagið ofan á orðið nær metri á þykkt.
Reyðarvatn er skammt frá Keldum, - nema þar er ekkert vatn, - það hvarf í sandstormum árið 1888 ef ég man rétt, og er nú túnslétta með sandsvörð.
Það sem ég er að fara með þessu, - sandbarinn Rangæingurinn, - er einfaldlega það, að sum mannana verk hafa spornað við landrofi, og er það greinilegt á Rangárvöllum. Þetta er vel þekkt, og mun betur en það sem var í gangi fyrir 500-1000 árum síðan.
Jäon Logi (IP-tala skráð) 4.4.2014 kl. 23:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.