Japönsk útsjónarsemi: Coolcar.

Þetta er nýr bíll í umferðinni hér, að vísu aðeins til í nokkrum eintökum ennþá, en hver veit hvað í vændum er?  Er "Bitaboxið að koma aftur? Suzuki Coolcar

Já, Suzuki Coolcar heitir hann, í stærðarflokki með minnstu bílum flotans, mjórri og álíka langur og þungur og þeir en með margfalt meira rými og notkunarmöguleika.  

Ef orðtakið að sá eigi að borga sem notar væri notað í umferðinni væri hér á landi tekið lengdargjald af bílum í stíl við gjaldtöku Japana af bílum, sem miðuð er við stærð þeirra. Daihatsu Cuore 00

Síðan 1998 hafa svonefndir Kei-bílar þar í landi, sem eru styttri en 3,40m, mjórri en 1,48 og með minna sprengirými vélar en 660cc fengið myndarlegan afslátt af opinberum gjöldum.

Þetta hefur virkað vel í þrengslunum í umferðinni í Japan enda er fljótlegt að reikna út ávinninginn.

Meðallengd íslenskra fólksbíla er um 4,50 metrar en ef hún væri 4,00 metrar, sem er alveg nóg í langflestum tilfellum (Toyota Yaris, Volkswagen Golf, Skoda Fabia, Honda Jazz) myndi losna rými á hverjum degi á Miklubrautinni í Reykjavík sem samsvaraði 50 kílómetrum af auðu malbiki og umferðarteppur og tafir minnka og jafnvel hverfa á einstaka stað.

Kei-bílarnir voru minni fyrrum og dæmi um slíka bíla hér voru Daihatsu og Suzuki "bitaboxin" þegar kröfurnar voru: 3,20, 1,40 og vélin minni en 660 cc.

Til útlanda fluttu japanir þessa bíla og venjulega Kei-fólksbíla með 800cc og 843cc vélum. Daihatsu Cuore ´88

Þeir sem sátu í framsætunum í bitaboxunum voru alveg óvarðir fyrir árekstrum framan frá en þó minnist ég þess ekki að neitt banaslys hafi orðið í þeim hér á landi.

Frá 1980 hafa margir Kei-fólksbílar verið fluttir til landsins, svo sem Suzuki Alto og Daihatsu Cuore, Alto með 800cc vél og Cuore með 843cc vél. 

Ég nota enn Cuore 1988 módel sem er orðinn fornbíll en hefur aðeins verið ekið um 80 þúsund kílómetra. Súkka-Toyota

Líka voru fluttir inn Kei-jeppar og jepplingar, Suzuki Fox/Samurai/Jimny og Daihatsu Terios. Í alla þessa bíla settu Japanir 1300 cc vélar til útflutnings og hlóðu utan á Terios og Jimny plastí til þess að geta breikkað sporvídd þeirra.

Auk þess lengdu þeir gafl Terios um 40 sentimetra.

Í fyrra sá ég sérkennilega bíla fyrir utan Bílaryðvörn af gerðinni Suzuki Coolcar og í dag gat ég skoðað og kynnt mér lauslega einn slíkan.

Í grunninn er þetta Kei-bíll en með lengdum gafli og 1300 cc Jimny vél, en hann er smíðaður í Kína og sett á hann fjórhjóladrif í Þýskalandi. Suzuki Coolcar 1

Hann hefur algera sérstöðu meðal bíla í umferðinni hér.

Hann er ekki stærri að utanmáli en minnstu bílarnir á markaðnum hér, Volkswagen Up!/Skoda Citigo, Kia Picanto eða Hyondai i10, en rúmar samt vel sex manns í sæti í þremur sætaröðum auk þess að bjóða upp á um 300/450 líkra farangursrými fyrir aftan þriðju sætaröðina fjórhjóladrif og hærri veghæð !

Vél og driflína eru undir gólfi bílsins og taka því nákvæmlega ekkert af flatarmáli hans, ef undan er skilinn vatnskassi í nefinu og nokkur áfyllingarílát fyrir bílinn. Suzuki coolcar 2

Gagnstætt því sem var um Bitaboxin gömlu, er þessi fremsti hluti bílsins hugsaður sem árekstravörn.

Lega vélar og driflínu gefur lágan þyngdarpunkt, en þakið á bílnum er nokkuð hærra en þörf er á vegna farþeganna, af því að bíllinn er hugsaður sem bæði fólksbíll og sendibíll, og hann gæti því verið nokkuð næmur fyrir hvössum vindi.

Hið háa þak gæti hins vegar gefið möguleika á að gera bílinn að húsbíl, sem væri flestir vegir og slóðar færir vegna fjórhljóladrifsins og veghæðarinnar. Suzuki coolcar 3

Það er alveg nóg rými fyrir sex fullorðna í bílnum, en galli er hvað sætisseturnar aftur í eru flatar, þannig að það vantar stuðning undir lærin á farþegunum.

Við því ætti að vera hætt að bregðast með því að búa til einfalda sessu ofan á sætin, sem væru með það hárri frambrún að stuðningur fengist undir lærin.

Bíllinn er aðeins 980 kíló eða 120 kílóum léttari en Jimny og því talsvert sprækari og jafnframt sparneytnari.  

Þarna er á ferðinni japönsk útsjónarsemi af bestu gerð. Suzuki coolcar 4

Verðið á bílnum gæti legið á bilinu 3-3,5 milljónir, milli Jimny og Suzuki Swift 4x4.

En Suzuki Swift er varla samanburðarhæfur sem fjölhæfur aldrifsbíll vegna þess að hann er með minnstu veghæð allra aldrifsbíla, alveg óvenju lága að aftan.     

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband