Frásagnargleðin í umferðinni.

Stefán Jón Hafstein var fréttaritari Ríkisútvarpsins í Bandaríkjunum í nokkur ár. Þegar hann sneri aftur heim til Íslands varð honum starsýnt á hegðun landans í umferðinni og gat ekki orða bundist. 

Flutti hann meira að segja einn bráskemmtilegan pistil um stefnuljósanotkunina hjá okkur.

Mér varð hugsað til þessa pistils í dag þegar ég var á leiðinni í þungri umferð frá Hafnarfirði til Reykjavíkur og kom akandi eftir Reykjanesbraut framhjá Kaplakrika.

Þegar komið er að gatnamótunum við Reykjavíkurveg í Engidal fer umferðin til Reykjavíkur til hægri eftir tveimur samsíða beygjuaðreinum.

Ég var á hægri aðreininni en bílstjóri vinstra megin við mig gaf þá stefnuljós til hægri. Það var á engan hátt hægt að skilja þessa stefnuljósagjöf öðruvísi en þannig að af einhverjum ástæðum vildi hann færa sig yfir af vinstri aðrein yfir á hægri aðrein.

Ég hægði því ferðina aðeins til þess að búa til rými fyrir framan mig fyrir þennan ökumann með blikkandi stefnuljós til hægri.

En þrátt fyrir þetta færði hann sig ekki en hélt þó áfram að gefa stefnuljós til hægri.

Hik mannsins gat ég svo sem skilið út af fyrir sig, því að það er algengt í umferðinni hér á landi að menn eru orðnir svo varir um sig vefna óreiðunnar í umferðinni, að þeir þora ekki nýta sér tillitssemi annarra ökumanna og treysta engum.

Ég hægði því aðeins meira á sér svo að ökumanninum mætti vera ljóst að hann gæti treyst því að ég hleypti honum inn í auða bilið sem hafði myndast fyrir framan við.

En þá hófu bílstjórarnir fyrir aftan mig að flauta og gefa óánægju sína til kynna þannig að á endanum neyddist ég til að gefa í og tefja ekki umferðina meira fyrir aftan mig.

Svo var að sjá

Þar með var niðurstaða þessa sú að ég var orðinn skúrkurinn sem olli töfum í þungri umferð í stað þess að sýna þeim, sem voru fyrir aftan mig þá tillitssemi að halda uppi nógu góðum hraða til að umferðin afkastaði sem flestum bílum.

Í ljós kom að bílstjórinn sem gaf stefnuljósið var að gera það, sem Stefáni Jóni Hafstein fannst svo fyndið hér um árið, að gefa fyrst stefnuljós eftir að hann var kominn inn á beygju í aðrein, þar sem engin leið var lengur að gera neitt annað en að aka áfram þessa beygju.

Þetta nefndi Stefán Jón "hina heimsfrægu frásagnargleði Íslendinga sem skóp Íslendingasögurnar og aðrar stórkostlegar bókmennir."

Úr stefnuljósunum mátti lesa: "Ég verð að segja sem flestum frá þeim tímamótum á ferð minni í bíl mínum að vera kominn inn í þessa líka vel löguðu beygju! Sjáið þið hvað ég tek hana fallega!"   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ríkisstjórnarstefnan ljós,
í stefnuljósum dósent,
Sigmundur hann fer í fjós,
fylgið þrettán prósent.

Þorsteinn Briem, 4.4.2014 kl. 20:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband