9.4.2014 | 19:16
Fráleit, dýrkeypt og skaðleg tíska.
Allar gagnrýnisraddir karlmanna vegna kvenfatatískunnar verða hjáróma þegar kostnaður vegna hennar er borinn saman við bílatískuna, sem ég vil kalla nafninu "karlmannatíska í stáli".
Bílatískan er oft sérlega heimskuleg, dýrkeypt og jafnvel skaðleg.
Eitt dæmi þess er sú árátta að gera æ erfiðara fyrir bílstjórana að sjá út úr bílunum, svo að jafnvel sést nánast ekkert aftur úr bílnum.
Þetta er orðið svo mikil plága, að það er jafnvel farið að verða erfitt að sjá fram úr minnstu bílunum eins og þeim sem meðfylgjandi mynd er af.
Engin skynsamleg skýring finnst á þessari tísku, enda er hún aðeins sveifla í eina átt eftir að tískan hafði árum saman verið sú að stækka gluggana, lækka vélarhlífarnar og bæta útsýnið.
Ég á einn bíl frá þessum tíma, árgerð 1988, sem sýnir þetta vel, sjá mynd hér fyrir neðan og mynd af bíl sömu gerðar, árgerð 2000.
Fyrsta grófa dæmið, sem ég sá um þetta var upphaflega gerðin af Land Rover Freelander.
Sá bíll var með alveg sértaklega hárri og kantaðri vélarhlíf, sem virtist eiga að gefa til kynna hvað þetta væri töff og karlmannlegt torfærutröll með svona hernaðarlegt útlit vegna þess hve aflmikil og stór vélin þyrfti mikið rými.
En þegar vélarhúsið var opnað, kom í ljós svo mikið óþarfa autt rými fyrir ofan vélina, að auðvelt hefði verið að koma þar fyrir varahjólbarða, jafnvel tveimur hjólbörðum.
Síðan hefur þetta bara versnað og nú er höfuðið bitið af skömminni með því að fara að pranga inn á bínotendur sérstökum myndavélum, svo að eitthvað sjáist fram fyrir bílinn.
Horft á veginn í gegnum vélarhlífina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.