Vandmeðfarið vald.

Á löngum starfsferli eru þeir dagar líkast til dapurlegastir að verða vitni að því þegar verið er að segja samstarfssfólki upp störfum. Einkum er þetta sorglegt þegar uppsagnirnar virðast vanhugsaðar og miklu meiri en tilefni er til. 

Fyrir aldarfjórðungi var mikill munur á réttindum starfsfólks í opinberri þágu og þágu einkafyrirtækja.

Þessu kynntist ég vel þegar ég skipti tvívegis um starfsvettvang, fór fyrst úr vinnu í opinberu fyrirtæki yfir í einkafyrirtæki og síðan til baka aftur sex og hálfu ári síðar.

Við blöstu helstu kostir og ókostir þessara rekstrarforma.

Í opinbera fyrirtækinu hafði myndast ástand sem stundum er kallað "union-ismi" á erlendu máli, en fyrirbærið felst í því að mikil tregða myndast innan hins opinbera fyrirtækis gegn hverri þeirri ráðstöfun sem gæti breytt viðfangsefnum eða starfsaðstöðu launþeganna.

Þetta gat stundum lýst sér í því að einstakir starfsmenn fengju nær engin verkefni til að sinna suma daga en síðan mun meiri verkefni aðra daga, og yfirstjórnendurnir áttu óhægt með að bregðast við þessu.

Í einkafyrirtækinu, sem barðist fyrir tilveru sinni frá degi til dags ríkti hins vegar gerólíkt ástand mikils ótta um hag sinn, jafnvel þótt mikill sóknarhugur ríkti meðal starfsfólks.

Maður sá einstaka starfsmenn komna í þá aðstöðu að hlaupa um allan daginn á milli margra verkefna til þess að sanna tilverurétt sinn á vinnustað.

Þegar samdráttur varð í fyrirtækinu vegna utanaðkomandi tæknibreytinga fóru ráðamenn þess á taugum og stóðu fyrir stórfelldri fjöldauppsögn sem greinilega var langt umfram það sem þurfti.

Í einni deild fyrirtækisins breyttist uppörvunar-og hugmyndaleitarfundur í uppsaganarfund, þar sem fundarefninu varð að breyta og fólk var í staðinn ýmist kallað inn til yfirmannsins þar sem því var afhent uppsagnarbréf, eða því sagt að hverfa af fundinum.

Aðeins nokkrum vikum síðar kom í ljós að miklu fleira fólk hafði verið rekið en þörf var á.

Voru sumir þá endurráðnir, en allir höfðu orðið fyrir persónulegu áfalli, sem fólk þold misjafnlega vel, þannig að sumir treystu sér ekki til að koma til baka til starfa eftir þá höfnun, sem uppsögn hefur í för með sér.

Í Hruninu urðu margir af reyndustu starfsmönnunum á fjölmiðlunum að þola uppsögn, þótt litið væri eftir af starfsævi þeirra, oft starfsmenn sem voru svo færir, að þeir voru tveggja eða fleiri manna makar hvað snerti framlegð.

Eg átti þess kost að starfa með Hönnum Maríu Karlsdóttur og Teodóri Júlussyni í söngleiknum Ást í Borgarleikhúsinu 2007 og það var unun að fá að starfa með svo reyndu og færu leikhúsfólki.

Theodór var tilnefndur til Grímuverðlauna fyrir leik sinn og siðar fékk hann Edduverðlaun.

Mér er enn minnisstætt þegar hann á einum stað í söngleiknum gekk til baka af framsviðinu og lagði hönd sína hughreystandi á herðar mér. Þótt hann sneri baki í áhorfendur sýndu þeir mikil viðbrögð við því hvernig hann "lék með bakinu", en það er snilld sem fáum leikurum er gefin.

Þorsteinn Gunnarsson fékk einhverja mestu viðurkenningu erlendis sem leikarar geta fengið þótt kominn væri um sjötugt.

Kominn á eftirlaunaaldur vann Gunnar Eyjólfssson sum af sínum bestu afrekum sem og Árni Tryggvason og Bessi Bjarnason.

Þótt stjórnendum fyrirtækja sé vissulega oft vandi á höndum og erfitt fyrir þá að rata á nauðsynlega lausn í svona málum, er það mikilsvert að vanda sem best til verka og muna að aðgát skal höfð í nærveru sálar.   


mbl.is Leikarar fái að eldast með virðingu og reisn í starfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Skapandi greinar hér á Íslandi veltu 189 milljörðum króna árið 2009, útflutningstekjur þeirra voru þá 24 milljarðar króna og ársverk voru 9.371.

Kortlagning á hagrænum áhrifum skapandi greina - Maí 2011


Ríkið fær tekjuskatt
þeirra sem starfa hjá ríkisstofnunum og næsthæsta virðisaukaskatt í heimi af því sem þeir kaupa fyrir laun sín hérlendis, svo og til að mynda bensíngjald, sem Sjálfstæðisflokkurinn sagðist ætla að lækka.

Raunverulegur launakostnaður ríkisins er því mun minni en einkafyrirtækja.

Þorsteinn Briem, 13.4.2014 kl. 13:38

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sjalla allt er fokkings fokk,
Framsókn er í sjokki,
náhirð vill ei nýjan flokk,
á náreið er óþokki.

Þorsteinn Briem, 13.4.2014 kl. 14:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband