25.4.2014 | 01:18
Danskir Íslandsvinir.
Í sjálfstæðisbaráttu okkar fyrr á tíð var það hluti af því að blása mönnum baráttuanda í hug að láta ýmislegt flakka í hita leiksins, sem hallaði mjög á Dani. Alhæfingar af slíku tagi geta verið varasamar.
Þannig var það danskur maður, Rasmus Kristján Rask, sem öðrum fremur stóð að því að bjarga íslenskri tungu frá því að fara hallloka fyrir dönsku eða öðrum útlendum málum.
Þótt Rask hefði frumkvæði að þessu var ekki ónýtt fyrir hann að fá Fjölnismenn og Jón Sigurðsson með í baráttusveitina, og var með ólíkindum hvað Jónas Hallgrímsson afkastaði í nýyrðasmíði og snilldartökum á móðurmálinu sem jók veg þess mjög.
Breskur maður gekkst fyrir því að íslenska hundakyninu yrði bjargað frá útrýmingu.
Danskir Íslandsvinir áttu mjög stóran þátt í því að Danir féllust á að íslensku handritin yrðu flutt til Íslands, en sá gerningur á sér enga hliðstæðu í samskiptum þjóða, þvi að bæði Danir og Íslendingar töldu handritin vera mestu gersemar sínar.
Og líklega er það einsdæmi að "herraþjóð" eða nýlenduveldi haldi helstu sjálfstæðishetju ígildi nýlendu uppi fjárhagslega, en Jón Sigurðsson starfaði í Kaupmannahöfn fyrir danska ríkið, og var reyndar ómetanlegur fyrir danska og norræna menningu vegna þekkingar sinnar á því sviði.
Þegar rýnt er aftur í aldir ófrelsis íslensku þjóðarinnar sést að á þeim öldum gat engin örþjóð á borð við okkur verið sjálfstætt ríki, - einvaldskonungar eða valdamiklir aðalsmenn réðu Evrópu.
Spurningin er einungis sú, hvaða þjóð í Norður-Evrópu réðu Íslandi, og ef Bretar eða öflug þjóð á meginlandinu önnur en Danir hefðu ráðið yfir okkur, væri áreiðanlega ekki tölu hér íslenska og ekki einu sinni víst að við hefðum öðlast sjálfstæði.
Rannsóknir sýna, að hvergi í Evrópu réði einvaldskonungur eins litlu og á Íslandi, þannig að Danir voru greinilega skásti kosturinn.
Á Íslandi réðu stórbændur og embættismenn í raun öllu sem þeir vildu og áttu meir en 90% allra jarðeigna á Íslandi.
Þeir voru ígildi íslensks aðals með svipuð réttindi og danski aðallinn varðandi frítt nám fyrir syni aðalsmanna í Kaupmannahöfn en hins vegar enga herskyldu íslensku sonanna eins og þeirra dönsku.
Stundum var það hæstiréttur í Kaupmannahöfn sem kom í veg fyrir dómsmorð eða sektardóma sem spillt íslenskt dómskerfi ól af sér.
Verðlaun Jóns Sigurðssonar veitt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hárrétt athugað og íslenskir sagnfræðingar hafa síðustu árin brotist undan hlekkjum þess hugarfars, sem leiddi af þjóðernisofstækisfullri Íslandssögu Hriflu-Jónasar.
Varðandi hlut erlendra einstaklinga í varðveislu menningarminja hérlendis, þá má geta þess að það kemur fram í Byggðasögu Skagfirðinga að fjárframlag bresks manns hafi orðið til þess að gamli bærinn í Glaumbæ varðveittist, en varð ekki fórnarlamb jarðýtutannar eins og margir slíkir um miðja síðustu öld.
E (IP-tala skráð) 25.4.2014 kl. 05:08
--- Það var danska kónginum sem ofbauð hinar hryllilegu galdrabrennur (sem voru dómteknar hér) á Íslandi og sagði hingað og ekki lengra.
--- Það var gungan Brynjólfur biskup Sveinsson sem spornaði aldrei við þrátt fyrir að hann segðist vera á móti hindurvitnum í orði.
Örnólfur Hall (IP-tala skráð) 25.4.2014 kl. 14:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.