27.4.2014 | 18:26
Hliðstæður frá síðustu áratugum.
Það þarf ekki að fara öld aftur í tímann til að sjá hið gamalkunna dæmi um leiðtoga þjóða, sem bregðast þannig við innanlandsvanda að efna til átaka við önnur lönd til að þjappa þjóð sinni að baki sér. Nefna má tvö dæmi um þetta.
Þegar Argentínumenn réðust á Falklandseyjar vorið 1982 og tóku þær af Bretum, snerist argentínska þjóðin þannig á punktinum, að í stað óvinsælda Leopolds Galtieris og stjórnar hans innanlands, var hann hylltur af múg og margmenni á götum höfuðborgarinnar þegar hernám Falklandseyja hafði heppnast og sjálft breska ljónið niðurlægt.
Honum og Argentínumönnum tókst að afla sér ákveðinnar samúðar umheimsins, þegar fólk um allan heim leit á landakortið og sá, að Falklandseyjar voru skammt undan ströndum Argentínu næstum 10 þúsund kílómetra frá Bretlandi.
Galtieri hafði aðeins verið við völd í fjóra mánuði, þegar hann ákvað að efla vinsældir sínar með innrásinni í Falklandseyjar.
Hann taldi sig njóta mikillar velvildar Ronalds Reagans, sem hafði hælt honum á hvert reipi sem afburða hershöfðingja og útvarðar hins "frjálsa heims" í suðri.
Í umfjöllun umheimsins um stríðið gleymdist í bili, að íbúar eyjanna voru breskir, töluðu ensku og vildu vera breskir þegnar áfram.
En eftir að Bretar höfðu farið í stríð við Argentínu snerist dæmið hratt við. Nú blasti við að Galtieri hafði misreiknað sig herfilega á margan hátt.
Margareth Thatcher naut nefnilega enn frekari hylli hjá Reagan en Galtieri, ef eitthvað var, og hún sá tækifæri til að stimpla sig inn sem sterkasti þjóðarleiðtogi Breta síðan Winston Churchill leið.
Argentínski herinn átti enga möguleika til að standast breska hernum snúning þegar Thatcher fyrirskipaði honum að fara í stríð við Argentínu og taka 'Falklandseyjar af þeim.
Fyrir þetta reis "járnfrúin" Margareth Thatcer til mikilla vinsælda í Bretlandi fyrir staðfestu sína, enda var hún lagin við að vekja upp gamlar minningar um hina staðföstu stríðshetju og raunar þjóðhetju Winston Churchill, sem einnig hafði verið formaður Íhaldsflokksins.
Ekki var það síður sætt fyrir hana að góður árangur Breta í stríðinu minnti á forna frægð hins breska heimsveldis og hers Breta.
Thatcher tókst að þjappa þjóðinni að baki sér með því að nýta sér það að vera fært upp í hendurnar gamalkunnri aðferð við að finna sameiginlegan utanaðkomandi óvin.
Galtieri varð hins vegar að gjalda grimmilega fyrir dýpkeyptar afleiðingar af misheppnuðu áhættuspili og hrökklaðist frá völdum eftir aðeins hálft ár í starfi.
Georg W. Bush lék svipaðan leik í kjölfar árasarinnar á Bandaríkin 11. september 2001, og það fleytti honum áfram um hríð að geta þjappað bandarísku þjóðinni að baki sér í "styrjöldinni við hryðjuverkamenn.
En 2008 var svo komið að stefna hans varðandi það að gefa gróðaöflum í þjóðfélaginu sem lausastan taum og minnka eftirlit með þeim sem mest leiddi til þess að flokkur hans tapaði forsetakosningunum það ár.
Enda ekki hægt fyrir flokkinn að finna lengur neinn utanaðkomandi óvin, sem hægt væri að efna til átaka við og þjappa þannig þjóðinni að baki sér.
Á baki þjóðrembudýrinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Oft hjá Pútín gistir grís,
grettinn mjög í framan,
við því öllum hugur hrís,
hanga alltaf saman.
Þorsteinn Briem, 27.4.2014 kl. 19:50
Hví kallarðu þetta hliðstæðu við Rússland/Úkraínu, Ómar? Ætlunin er ekki að dæma, en ég skil ekki samhengið.
Elle_, 27.4.2014 kl. 22:10
Pistillinn er tengdur við hugleiðingar á mbl.is um það að Pútín freistist til að sækjast eftir vinsældum meðal þjóðar sinnar með því að finna sér óvin utan frá þar sem Úkraínumenn eru.
Rússar hafa alltaf verið veikir fyrir sterkum leiðtogum, allt frá dögum Katrínar miklu og Péturs mikla, jafnvel þótt hinir sterku leiðtogar væru harðstjórar inn á við.
Lenín og Stalín voru dýrkaðir, og þrátt fyrir arfa mistök Stalíns á fyrsta ári innrásar Þjóðverja í landið hafði hann lag á að láta alla dýrðina af sigrinum í styrjöldinni falla á sig.
Pútín sýnist auðvelt að þjappa rússnesku þjóðinni að baki sér með því að koma hinum rússnesku mælandi Úkraínumönnum í austasta hluta Úkraínu "til hjálpar" við að losi sig undan stjórninni í Kænugarði og sameinist Rússlandi.
Sama gerði Hitler 1938 þegar hann vildi "hjálpa" þýskumælandi þegnum Tékkóslóvakíu til að sameinast Þýskalandi.
Ómar Ragnarsson, 28.4.2014 kl. 01:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.