Sívaxandi og umfangsmikil geðþóttalögbrot ?

Vaxandi persónunjósnir og hnýsni "stóra bróður" í hagi allra í ætt við það sem lýst var í bókinni "1984" eru áhyggjuefni eins og Brynjar Níelsson alþingismaður og lögfræðingur ræddi um á umræðufundi í fyrradag.

Ég hef fyrr rætt um símahleranir en nú er fleira að koma upp á yfirborðið.  

Þegar ég sagði frá því að ósköp venjulegt sendibréf til mín frá útlöndum hefði verið opnað hélt ég að hér væri um einsdæmi að ræða og jafnvel einhver mistök.

En fljótlega helltust inn athugasemdir, sem bæði sýndu að þetta er ólöglegt athæfi og miklu útbreiddara en mig hafði órað fyrir.

Þær má sjá í framhaldi bloggpistils mín í gær um þetta.  

Í athugasemdunum eru nefnd dæmi um að bréf ósköp venjulegs og löghlýðins fólks hafi verið opnuð jafnvel árum og áratugum saman.

Varðandi aldraða konu, sem hefur verið pennavinkona við erlenda jafnöldru sína í 60 ár, kemur í ljós að ekki einasta hafa velflest bréf til hennar frá vinkonu hennar verið opnuð, og það án nokkurra skýringa né tilgreindra ástæðna í eitt einasta skipti, heldur hefur þessu verið haldið áfram þótt þessar aðgerðir hafi ekki borið hinn minnsta árangur.

Enda hefur konan aldrei komist í kast við lög og aldrei neytt áfengis eða annarra vímuefna.

Einn þeirra mótmælenda, sem var við Kárahnjúka um hríð hér um árið, hafði símasamband við mig í morgun og greindi mér frá því að þegar erlendur höfundur bókar um enska njósnarann, sem kom sér á vegum lögreglunnar undir fölsku flaggi í hóp mótmælenda, ætlaði að senda þessum mótmælanda bókina hefði verið búið að opna umslagið og taka bókina úr því, svo að umslagið var tómt.

Eftir að þetta hafði gerst tvisvar sagðist mótmælandinn hafa brugðið á það ráð að fá virta innlenda stofnun til að gerast viðtakandi bókarinnar og þá fyrst hefði hún komist til landsins.

Reglugerðarákvæðin um heimild tollara til að opna póstböggla eiga eðli málsins samkvæmt ekki við opnun einkabréfa fólks. Póstbögglar og vörusendingar innihalda yfirleitt ekki persónuleg trúnaðarmál heldur varning.

Öðru máli gegnir um venjuleg sendibréf. Það getur oft verið um einkamál að ræða.  

Það hlýtur að vera ástæða þess að engin heimild er í reglugerð eða lögum um að opna þau.  

Engu er líkara en að ekki sé einasta í gangi sé furðu víðtækar njósnir um einkabréf fólks, heldur einnig samvinna tollayfirvalda og lögregluyfirvalda sem ber með sér geðþóttablæ oft á tíðum, enda virðist enginn þurfa að svara fyrir eitt eða neitt.

Ef reglugerð um tollaeftirlit er skoðuð kemur í ljós að hvergi er veitt heimild til þessa, heldur fer þetta fram án þess að viðtakendur bréfanna fái nokkra skýringu eða uppgefna nokkra ástæðu.

Ekkert utanaðkomandi aðhald virðist í gangi heldur er allt eins viðbúið að þetta geti þróast og vaxið stjórnlaust, og því eru aðvörunarorð Brynjars Níelssonar orð í tíma töluð.

Meðan alger þðgn ríkir um það hvernig þessum málum er varið er full ástæða til að velta vöngum yfir því af hverju þetta sé í gangi.  

Ef tollayfirvöld telja, að rökstuddur grunur sé á að einkabréf séu misnotuð, eiga þau að fara fram á það með rökstuðningi að nauðsynlegt sé að taka upp heimild til að hnýsast í þessi bréf.

En á meðan það er ekki gert er það einkennilegt að tollayfirvöld geti einfaldlega tekið lögin í sínar hendur eins og ekkert sé.   

   


mbl.is Hver eru réttindi mín við handtöku?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Ég er afskaplega fegin að vera laus við þetta. Enda fluttur frá Íslandi og ætla mér ekkert að flytja aftur til Íslands. Hérna í Danmörku eru svona njósnir ekki stundaðar. Þó eru bréf auðvitað athuguð með vélum (rafrænum skönnum sem segja til um innihaldið) hvort að þau innihaldi fíkniefni, en ef engin ástæða er til þess að opna þau þá er það ekki gert.

Hérna eru dönsku tollareglunar og það er ljóst að í Danmörku er bara verið að ræða vörur ekki einkabréf. Enda hafa þau bréf sem ég hef fengið frá Íslandi aldrei verið opnuð síðan ég flutti til Danmerkur.

Jón Frímann Jónsson, 28.4.2014 kl. 01:57

2 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Brynjar Níelsson hefur núna setið á þingi í nærri ár. Ætla mætti, þætti honum þetta svona alvarlegt og málið brynni á honum, að frá honum hefði komið tillaga um breytingar á umræddum lögum. 

En ekkert bólar á slíku, enda afar hentugt fyrirkomulag meðan aðeins er fylgst með "rétta fólkinu". Í skjóli hvaða stjórnmálaflokka hafa t.d. símahleranir helst verið stundaðar gegnum tíðina - í tilfellum sem ekki tengdust glæpastarfsemi? Hjá hverjum var aðallega hlerað? Er einhver í vafa um að hleranirnar hafi verið af pólitískum rótum?

Nei, ég held að Brynjari sé ekki eins leitt og hann lætur. 

Axel Jóhann Hallgrímsson, 28.4.2014 kl. 07:40

3 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Tengdadóttir mín er hollensk. Hún á tvær dætur sem fá afmælis og jólapakka frá ömmunni í Hollandi. Það er nánast regla að pakkarnir eru opnaðir.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 28.4.2014 kl. 07:42

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Við skulum ekki detta í þá gryfju að hjóla í manninn en ekki málið, hjóla í Brynjar frekar en það sem hann segir, - heldur skoða fyrst og fremst það sem hann er að segja.

Gaman væri að vita hvort Holland er á einhverjum svörtum lista meðal annarra þjóða varðandi sendibréf. Það útskýrir ekki samt sumt að því sem viðmælendur mínir eða þeir, sem hafa sent mér athugasemdir, hafa greint frá og bendir til þess að hér sé í gangi ólögleg starfsemi hjá opinberum aðilum sem grasserar frjáls og hömlulaus án nokkurs utanankomandi eftirlits. 

Ómar Ragnarsson, 28.4.2014 kl. 10:25

5 identicon

Sæll Ómar.

Grundvallarmisskilnings gætir í ræðu þinni.

Allur póstur, hverju nafni sem nefnist, er háður eftirliti.
Af hálfu ríkisins er Tollgæzlunni falið að fylgja eftir
eftirlitshlutverki þessu.

Eftirlitið er í þágu borgaranna og til verndar þeim
og snýr ekki síður að þjóðaröryggi.

Segja má að það sé stjórnarskrárvarinn réttur borgaranna
að eftirlit þetta fari fram og þá ekki síður til verndar þjóðríkinu.

Hinn 250 punda Gabriel Braith er víst hættur að hlaupa uppi
glæponana!

Húsari. (IP-tala skráð) 28.4.2014 kl. 12:00

6 identicon

Hvar var öll þessi "gæsla til verndar þjóðríkinu", þegar útrásin var í fullum gangi með forseta ræfilinn í broddi fykingar, eða þegar Geir og Dabbi var að tæma Seðlabankann etc, etc.

Á nú að koma í veg fyrir annað Hrun með því að opna og hnýsast í einkabréf innbyggjara.

Nei, það er ekki öll vitleysan eins á skernu.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 28.4.2014 kl. 12:25

7 Smámynd: Sævar Óli Helgason

Brynjar Níelsson er að sjálfsögðu ekki einn á þingi... Þetta áhugamál Brynjars, sem er einmitt stefnumál okkar Píratanna, hefur einhverra hluta vegna dottið alveg uppfyrir í umræðunni...

Fólk hefur einfaldlega ekki hugmynd hvað er verið að gera því... Og það er aðal vandamálið...!!!

Öllu umræða um þessi mál er af hinu góða... Og þeir sem bölva upphafsmönnum að svona umræðu, vilja hafa kerfislægann "Stóra bróður...!"

Sævar Óli Helgason, 28.4.2014 kl. 12:31

8 identicon

Kæri Húsari, rétt er að bréfasendingar falla undir eftirlit Tollsins. Hins vegar hefur tollurinn ekki leyfi til að opna lokaðar bréfasendinga að viðtakanda fjarstöddum sbr. "Aðrar lokaðar póstsendingar má ekki opna vegna ákvörðunar aðflutningsgjalda nema í viðurvist viðtakanda."48 gr. lög 19/2002.

Út af þessu ákvæði verðum við senda leyfi til Póstsins/Tollsins þegar við fáum sendingu að utan um að þeir megi opna hana til að það sé hægt að tolla hana. Ef tollur hefur óskorað leyfi til að opna allt sem kemur til landsins af hverju í ósköpunum er þeir þá að biðja mörg þúsund manns um leyfi til þess á hverju ári?

Ásdís Bergþórsdóttir (IP-tala skráð) 28.4.2014 kl. 12:33

9 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Þetta er rangt hjá þér Húsari. Tollurinn má opna böggla til að leita að reikningi vegna innheimtu aðflutningsgjalda, en ekki til að skoða sendibréf sem engin ástæða er til að ætla að hafi að geyma tollskyldan varning. Í tilvikum vegna annarra lokaðra póstsendinga má biðja viðtakanda að koma og opna sendinguna fyrir framan tollvörð. Lestu athugasemdirnar við fyrri færslu Ómars þar sem vísað er í lagagreinar varðandi þessi mál.

Erlingur Alfreð Jónsson, 28.4.2014 kl. 12:34

10 identicon

Sæll Ómar.

Í Fyrri heimsstyrjöld var þekkt fyrirbrigði
meðal hermanna sem lýsti sér í blindu af
starfrænum toga en ekki vefrænum.
Blinduna var hægt að lækna í mörgum tilvikum.

Til voru dæmi, en þó fá, þar sem menn
æsktu þess að fá haldið fyrra ástandi, blindunni,
því þeim leist ekki það sem við blasti.

Nokkur munur er stundum á því sem við blasir
samkvæmt lögum, reglugerðum, undanþáguákvæðum,
sérlögum og sérákvæðum eða því sem menn
hugsanlega vildu sjá.

Það er svo löggjafans að breyta því sem breyta þarf
ef breytinga er þörf.

Húsari. (IP-tala skráð) 28.4.2014 kl. 14:00

11 identicon

Sæll Ómar, þú segir: "...bendir til þess að hér sé í gangi ólögleg starfsemi hjá opinberum aðilum sem grasserar frjáls og hömlulaus án nokkurs utanankomandi eftirlits."

Þetta er staðreynd og það er ekkert skrítið vegna þess að það er ekkert eftirlit með þessu frekar en lögreglunni, næstum örugglega engin niðurnegld viðurlög, og það er ekkert sem bannar að ólöglega fengin sönnunargögn séu notuð gegn þér.

Það er verið að berjast fyrir því að þetta verði lagfært, og það er hið besta mál að loksins séu "góðborgarar" eins og þú og Brynjar að vekja athygli á þessu.

Fólki hefur tekist að þagga niður þessa umræðu í mörg ár með því að gjamma um "samsæriskenningar" en nú eru flestir farnir að sjá hversu slæmt ástandið er, og sennilega á Snowden stóran þátt í því.

Og Ómar, þú furðar þig á því að þjóðþekktur umhverfisverndarsinni eins og þú getir ekki átt bréfasamskipti við einstakling í BNA án þess að bréfin séu skoðuð. Karlinn minn, umhverfisverndarsinnar eru á lista BNA yfir hugsanlega hryðjuverkamenn, alveg eins og þeir sem mótmæla stríðsrekstri. Og fábjánarnir hérna eru ekkert betri, þeir gera eins og Kanarnir. Hvað var breska leyniþjónustan að gera á Íslandi að njósna um Saving Iceland? Var eitthvað gert í því? Var það þá alveg löglegt?

Að lokum er gott að átta sig á því að mönnum eins og Stefáni Eiríkssyni lögreglustjóra finnst þetta ekki nógu langt gengið og að lögreglan hafi ekki næg tækifæri til að njósna: Stefán er að berjast fyrir því að leyfa forvirkar njósnir sem er annað nafn yfir lögleiðingu á njósnum á fólki sem er ekki grunað um nein afbrot. 

Simon001 (IP-tala skráð) 28.4.2014 kl. 15:59

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég átti áðan símtal við starfskonu hjá Tollstjóra sem upplýsti mig um það að í hverjum mánuði væru 6 þúsund póstbögglar og bréf gegnumlýst og einnig notaðir hundar.

Af máli hennar mátti ráða að enginn munur væri gerður á bögglum og bréfum, enda færðist smygl á fíkiefnum í bréfum í vöxt. ´

Hún taldi nauðsynlegt að opna hluta af þessum bögglum og bréfum en nefndi enga tölu þar að lútandi. 

Stefni að því að blogga um þetta í kvöld eða fyrramálið, enda finnst mér skorta stórlega á upplýsta umræðu um málið.   

Ómar Ragnarsson, 28.4.2014 kl. 17:11

13 identicon

Ómar, það þarf ekkert að opna umslag til að athuga hvort það sé bara bréf í því eða einhver böggull með, fíkniefni etc. Það fer ekkert á milli mála ef eitthvað meira en bréf er í umslaginu. Það er nóg að þukla, fyrir utan að hægt er að gegnumlýsa umslagið og láta hund þefa af því. Það er engin ástæða til að opna bréfið nema hundur eða gegnumlýsing gefi til kynna að eitthvað gruggugt sé í því, og þá á þetta fólk að hafa samband við þig og bjóða þér að vera viðstaddur - ekki satt?

símon (IP-tala skráð) 28.4.2014 kl. 19:20

14 identicon

Ekki ólíklegt að embættismennirnir séu að skapa sér vinnu með þessu, að sýna hversu ómissandi þeir séu. Slík innri "dynamik" myndast oft í slíkum embættum og getur farið að spinna utan um sig. Ein ástæðan fyrir ofurvexti og útþennslu ríkisbáknsins hér og víðar, en vissulega ekki alltaf.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 28.4.2014 kl. 21:14

15 identicon

Á Íslandi hafa lög aldrei verið virt, nema að nafninu til, síðan Íslendingar skriðu á lúalegan hátt undan Dönum meðan Danmörk var hersetin. Við værum betur sett í dag, ef við tilheyrðum Danmörku, eins og Færeyingar og hefðum bara heimastjórn. Þá myndu Danir standa straum að heilbrigðiskerfinu og vegagerð og halda uppi lögum og reglu í landinu. Hér hefur ríkt óöld og óðaverðbólga, síðan 1944. Ég er fyrir löngu búinn að fá nóg af vitleysunni á Fróni og fluttur frá Íslandi og mun aldrei flytja þangað aftur.

Steini (IP-tala skráð) 28.4.2014 kl. 21:40

16 Smámynd: Þorsteinn Briem

4.5.2014 (í dag):

Ótvíræð heimild til að opna sendibréf


2.5.2014 (síðastliðinn föstudag):

Sendibréf og eftirlit


Ég myndi hafa samband við Umboðsmann Alþingis vegna þessa máls.

Þorsteinn Briem, 4.5.2014 kl. 15:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband