Það sama og Eichmann sagði.

Það getur verið göfugt að setja sér það mark að útrýma einhverju, svo sem fátækt. Oftast er það þó þannig, að ómögulegt er að ná takmarkinu. 

Mikilvægast er að missa aldrei sjónar á takmarki, sem fólk setur sér, eins og hinn slungni erlendi sölumaður benti á í fyrirlestri sínum, sem vitnað er í á mbl.is í dag.  

Tvær setningar þekkja allir Íslendingar sem hafðar eru eftir Jóni Sigurðssyni; "vér mótmælum allir" og "aldrei að víkja" eða öllu heldur "eigi víkja!".

Þá fyrri sagði hann en hina síðari aldrei. Honum var á stórafmæli gefið innsigli með kjörorðinu "eigi víkja!" en notaði áfram sama innsiglið og fyrr.

Hvergi eru til gögn um það að Jón hafi sagt eða skrifað "eigi víkja!"

Var hann þó sjálfstæðishetja okkar Íslendinga, sams konar brautryðjandi og listaverkið á fótstalli styttunnar af honum á Austurvelli táknar.  

En Jóni var ljóst að Íslendingar höfðu því miður enga burði á hans tíð til að vera algerlega sjálfstæð þjóð og að slíkt myndi ekki takast fyrr en löngu eftir hans dag. 

En jafnvel þótt hann segði aldrei "eigi víkja!" hefur það vafalaust verið honum efst í huga að missa aldrei sjónar á lokatakmarkinu, sama hversu langt það væri framundan.

Á tímabili var talið mögulegt að útrýma berklum og það takmark sett, en það hefur ekki tekist fullkomlega. 

Stundum dettur okkur í hug að útrýma meindýrum og ófögnuði úr hýbýlum okkar eins og flugum og rottum, en með ólíkindum er hvernig Hitler líkti Gyðingum við meindýr, sem þyrfti að útrýma og hve margir tóku þátt í því með honum að stefna að útrýmingu þeirra.  

Í viðtali sem tekið var einn helsta samstarfsmann Hitlers og Himmlers, Adolf Eichmann, áður en hann var gómaður og færður fyrir dómstól í Ísrael, sagði hann að það versta við Helförina hefði verið að aðeins hefði tekist að drepa 6 milljónir Gyðinga en ekki alla, alls 10,5 milljónir.

Skelfilegt er þegar lifandi manneskjur eins og bandarísku kynþáttahatararnir, sem dæmdir voru í lífstíðarfangelsi, segjast sjá mest eftir því að hafa ekki drepið fleiri.

En um hinn "hinn viti born mann", "homo saphiens" gildir víst það sem faðir minn heitinn sagði oft: "Svo er margt sinnið sem skinnið."  


mbl.is „Ég vildi að við hefðum drepið fleiri“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gallinn við þennan pistil er sá að Jón sagði ekki „Vér mótmælum allir“ heldur flestir þjóðfundarfulltrúar og ekki einu sinni víst að Jón hafi tekið undir í þeim kór, þó það sé auðvitað líklegt. Sjá um þetta til dæmis: http://www.visindavefur.is/svar.php?id=31349 og http://is.wikipedia.org/wiki/V%C3%A9r_m%C3%B3tm%C3%A6lum_allir

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 7.5.2014 kl. 20:39

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta er rétt hjá þér, Þorvaldur, en hann hóf þó málið fyrstur með orðunum, "Ég mótmæli..."

Menn gleyma því nú á tímum, að 1851 gat tekið margar vikur að hafa samband á milli Danmerkur og Íslands, og það hlýtur að hafa kallað á það að Trampe greifi hafi farið frá Kaupmannahöfn til Íslands með fullt umboð konungs til að fylgjast með Þjóðfundinum og taka til sinna ráða eftir atvikum.

Manni skilst að Þjóðfundarmenn hafi verið seinir til verka og komnir lítt áleiðis og sá texti, sem þeir voru þó komnir með, bar með sér að hann yrði aldrei samþykktur í Kaupmannahöfn.

Haustið var í aðsigi með verri veðrum og erfiðari siglingum og Trampe hefur séð sitt óvænna.

Enda gerði konungur enga athugsemd við gerðir hans eftirá.  

Ómar Ragnarsson, 7.5.2014 kl. 23:55

3 identicon

Trampe kom til þjóðfundarins með niðurstöður hans fyrirfram gefnar, amk. svona nokkurn veginn.  Íslendingarnir voru svo með einhverja þvermóðsku, eins og þeirra er háttur, og vildu semja sína ályktun sjálfir.  Um það náðist ekki samkomulag við stjórnarfulltrúann og því fór sem fór.

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 8.5.2014 kl. 08:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband