7.5.2014 | 20:20
Það var ekki púað á Vladimir Kuts í Melbourne.
Á Ólympíuleikunum í Melbourne í desember 1956 grúfði dimmt ský yfir heimsstjórnmálunum. Rússar höfðu fyrr um haustið sent herlið inn í Ungverjaland og bælt niður uppreisn þar gegn alráðum og spilltum valdhöfum, leppum Sovétríkjanna, og Bretar og Frakkar höfðu ásamt Ísraelsmönnum ráðist á Egypta til að hrifsa af þeim Súesskurðinn.
Sovétmenn áttu marga afburða íþróttamenn á þessum tíma, sem settu svip á Ólympíuleikana í Melbourne, svo sem Vladimir Kuts, sem hreppti gullið, bæði í 10 kílómetra hlaupinu og 5 kílómetra hlaupinu, Bretum til mikilla vonbrigða, af því að þeir höfðu árin á undan átt bestu millivegalengda- og langhlaupara heims, svo sem Gordon Pirie, Derek Ibbotson, Chris Chataway og Roger Bannister, sem fyrstu manna hljóp mílu á innan við 4 mínútum.
Í Melbourne var leitast við að blanda ekki saman íþróttum og stjórnmálum, og þar baulaði enginn á Kuts, þegar hann vann afrek sín. Né heldur minnist ég þesa að slíkt hafi verið gert gagnvart öðrum keppendum Sovétríkjanna.
Mér fannst rússneska lagið gott í gærkvöldi og afar vel flutt, vonaðist til þess fyrirfram að það kæmist áfram og varð að ósk minni. Ég fæ ekki séð hvað rússnesku tvíburasysturnar gerðu svona mikið af sér til að verðskulda baul áhorfenda.
Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva hefur hingað til verið haldin án þess að stjórnmál og erfiðleikar í samskiptum þjóða og þjóðarbrota hafi verið látin hafa áhrif á hana.
Það hefur gefist illa og leitt til ósamkvæmni, til dæmis varðandi Ólympíuleikana 1980 og 1984 að blanda saman íþróttum og stjórnmálum og hef ég rakið það áður hér á bloggsíðunni.
Útskúfun Suður-Afríku frá leikunum meðan aðskilnaðarstefnan ríkti þar í landi var undantekning, sem stafaði af því að íbúum landsins var gróflega mismunað í þáttöku í leikunum, en það stríðir beint gegn Ólympíuhugsjóninni og reglum leikanna.
Það á að forðast það eins og hægt er að blanda saman annars vegar listum og íþróttum og hins vegar stjórnmálum, enda er það mjög oft vonlaust.
Nasistar reyndu að eigna sér og nota tónlist Wagners, sem auk þess er sagður hafa sýnt einhverja andgyðinglega tilburði, og sumum fannst þvi eftir á nasisminn beið afhroð, að þessi tónlist ætti að fara svipaða leið og hann.
Sem betur fer var hin stórkostlega tónlist Wagners þess eðlis að hún mun um alla framtíð standa af sér alla misnotkun eða árásir.
Sama á við við þjóðsöngva Sovétríkjanna og Þýskalands, sem reynt var að víkja til hliðar og meira að segja gerður nýr þjóðsöngur fyrir Rússland eftir að Sovétríkin féllu.
En það var vonlaust og báðir þjóðsöngvarnir lifa, einfaldlega af því að það er ekki hægt að drepa þá, þeir eru svo góðir!
Að maður nú ekki tali um þann breska og þann franska !
Púað á rússnesku tvíburana | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þorsteinn Briem, 7.5.2014 kl. 20:29
Rússar hafa sjálfir reynt að blanda tónlist saman við stjórnmál með misjöfnum árangri. Þegar Sovétríkin féllu var ætlunin að þjóðsöngur þeirra yrði afnuminn og saminn nýr í staðinn.
En tónlistin og íþróttirnar fara sínar eigin leiðir og best er það.
Rússar neyddust til að taka upp Sovétsönginn af einföldum ástæðum: Þetta er einn besti þjóðsöngur heims!
Ómar Ragnarsson, 7.5.2014 kl. 20:45
Rússneski þjóðsöngurinn með enskum texta
Þorsteinn Briem, 7.5.2014 kl. 22:14
Þegar ég flaug eitt sinn með Aeroflot til Moskvu frá Stokkhólmi varð ferðataskan mín eftir þar vegna þess að Icelandairvél fór alltof seint til Stokkhólms.
Aeroflot sendi mér hins vegar töskuna ókeypis frá Moskvu 200 kílómetra með leigubíl.
Þorsteinn Briem, 7.5.2014 kl. 22:45
Flottur pistill Ómar. Að sjálfsögðu á að virða listamenn, íþróttamenn og fleiri fyrir það sem þeir gera. Það á alls ekki að meta þá á grundvelli stjórnmálaástands í heimalandi þeirra.
Jón Magnússon, 7.5.2014 kl. 23:56
Takk fyrir, Jón. Þarna erum við sammála.
Ómar Ragnarsson, 8.5.2014 kl. 15:21
National Anthem of Russia, Victory Day parade, Red Square, May 9. 2007
Þorsteinn Briem, 9.5.2014 kl. 14:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.