8.5.2014 | 13:10
Stóriðjutrúin blómstrar sem aldrei fyrr.
"Orkufrekur iðnaður" byggist á mestu hugsanlegri orkunotkun eins og heitið ber með sér.
Þeir sem trúa á eftirsókn eftir sölu á raforku til orkufreks iðnaðar hafa eðli málsins samkvæmt sóst eftir fjárfestingu stóriðjufyrirtækja eða annarra fyrirtækja, sem svelgja í sig sem allra mesta orku og í viðtali við bæjarstjórann á Blönduósi kemur fram að tæpan aldarfjórðung hafi sveitarstjórnarmenn þar um slóðir einmitt hamast við það árangurslaust að laða til sín "orkufrekan iðnað"..
Eftirsóknin eftir stóriðju eða þungaiðnaði hefur verið svo mikil, að fyrir nokkrum árum var varpað fram hugmynd um "litla stóriðju" til að "bjarga þjóðinni". Svona álíka og að tala um "léttan þungaiðnað".
Í aðdraganda kosninganna 2007 varpaði ég fram hugmyndinni um gagnaver, sem höfðu þann kost fram yfir stóriðjuna að gefa af sér miklu fleiri og betri störf en stóriðjan. Áltrúarmenn töldu þetta af og frá og hamast enn við sömu hugmynd og þá, að reisa risaálver í Helguvík.
Gagnaver á Blönduósi getur nýtt sér ýmsa kosti sem sá staður býður upp á. Blönduvirkjun framleiðir tiltöllulega græna orku og svalt loftslag er kostur fyrir gagnaver. Ísland er þjóðfélag með ágætlega menntaða þjóð og fleira jákvætt má tína til.
En ókostirnir vega þungt, svo sem fjarlægðin frá Reykjavík og alþjóðaflugvelli. Það er ekki tilviljun að Reykjnesbær þyki fýsilegur kostur fyrir gagnaver. Og nú fréttist að ívilnanir til gagnavera kunni að verða dregnar til baka og að Ísland skrapi botninn meðal þjóða í nettengingu við önnur lönd.
Fáir landshlutar hafa brennt sig jafn illa á virkjanaframkvæmdatrúnni og Norðurland vestra. Blönduvirkjun átti að "bjarga byggðunum" og skapa mikla möguleika til uppbyggingar á orkufrekum iðnaði.
Reyndin varð sú að ásamt Vestfjörðum sker Norðurland vestra sig úr meðal byggða landins hvað varðar fólksfækkun síðasta aldarfjórðung. Hinir mörgu sem fengu vinnu og verkefni vegna virkjanaframkvæmda urðu atvinnulausir þegar framkvæmdunum lauk eða fluttu í burtu.
Byggðirnar misstu af heilum áratug við það að byggja upp "eitthvað annað" af því virkjanframkvæmdirnar ruddu öllu öðru í burtu. Skjótfenginn gróði fyrir sumar en bakslagið því meira.
Fyrir fimm árum sagði bæjarstjórinn í Vesturbyggð að 99,9% líkur væru á því að reist yrði risaolíhreinsistöð á einum fegursta stað á Vestfjörðum sem myndi "bjarga Vestfjörðum".
Ekkert hefur frést af þessu bjargræði siðan.
Þegar álver tók til starfa í Straumsvík 1970 var því lofað að stórfelldur afleiddur áliðnaður með úrvinnslu úr áli og framleiðslu fjölbreyttra álafurða myndi fylgja í kjölfarið. 44 árum síðar er löngu ljóst að þessar vonir byggðust á hreinum barnaskap og að verið var að selja stóriðjuhugmyndina á fölskum forsendum hvað þetta varðaði.
Framleiðslan á flestum slíkum vörum byggist á hagkvæmni stærðarinnar og örþjóðin Íslendingar á litla möguleika í því efni.
Að sjálfsögðu eiga allar byggðir landsins að viðhalda vöku sinni varðandi afkomu sína og framtíðarmöguleika.
En þegar þess er gætt að aðeins 0,8% af þjóðarinnar vinnur við stóriðju en 99,2% við "eitthvað annað" er augljóslega eitthvað bogið við það ef 99,2% athyglinnar beinist að stóriðjunni en 0,8% að einhverju öðru þegar leitað er að möguleikum til tekna og atvinnusköpunar.
Áhugi á gagnaverum enn til staðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ferðaþjónusta varð stærsta útflutningsgreinin hér á Íslandi í fyrra, 2013.
Tekjur af erlendum ferðamönnum voru þá 275 milljarðar króna, eða 26,8% af heildarverðmæti útflutnings þjónustu og vöru.
Þorsteinn Briem, 8.5.2014 kl. 13:48
26.2.2014:
"Fram til ársins 2018 eru afborganir Landsvirkjunar á erlendum lánum áætlaðar um 128 milljarðar króna [andvirði Kárahnjúkavirkjunar].
Langstærstur hluti af handbæru fé fyrirtækisins frá rekstri mun því líkt og síðustu ár fara í að standa skil á afborgunum erlendra skulda."
Áhersla lögð á að lækka miklar erlendar skuldir Landsvirkjunar næstu árin
Þorsteinn Briem, 8.5.2014 kl. 14:00
Framleiðsla á koltrefjum í bígerð - Smellpassar við Sauðárkrók segir Össur Skarphéðinsson fyrrverandi iðnaðarráðherra
6.4.2014:
"Í svari iðnaðarráðherra við fyrirspurn Össurar Skarphéðinssonar þingmanns Samfylkingarinnar segir að horfur séu á miklum vexti í framleiðslu bifreiðahluta úr koltrefjum á næstu árum og einnig framleiðslu vindmylluspaða."
Þessi aukna eftirspurn skapar Íslandi tækifæri á þessu sviði og er áhugaverð framleiðsla fyrir okkur Íslendinga, þar sem hver verksmiðja notar einungis 15-20 megavött af raforku, segir í svarinu.
Í Fljótsdalsstöð fer fram raforkuvinnsla Kárahnjúkavirkjunar, afl stöðvarinnar er 690 MW og raforkan fer öll til álvers Alcoa-Fjarðaáls í Reyðarfirði.
Koltrefjar framleiddar hér á Íslandi
Þorsteinn Briem, 8.5.2014 kl. 14:09
"Alpan hf. hefur ákveðið að flytja álpönnuverksmiðju sína frá Eyrarbakka til bæjarins Targoviste í Rúmeníu."
"Þórður Bachmann framkvæmdastjóri segir að fyrirtækið keppi á alþjóðlegum mörkuðum og þar hafi samkeppnin harðnað á undanförnum árum á sama tíma og rekstrarumhverfi fyrirtækja í útflutningi hafi versnað stórlega, bæði vegna aukins innlends kostnaðar, skorts á vinnuafli og mjög hás gengis krónunnar.
Ekki er við því að búast að starfsumhverfið batni á næstunni að mati Þórðar, því auk álversframkvæmda og virkjana sem þeim fylgja hafi hið opinbera miklar framkvæmdir á prjónunum næstu ár."
Álpönnuverksmiðjan flutt frá Eyrarbakka til Rúmeníu
Þorsteinn Briem, 8.5.2014 kl. 14:20
Það er alveg rétt að um of er einblínt á stóriðjudrauma þegar á sama tíma er rætt um hvað við eigum nú góða háskóla og hversu gildi menntunar sé nú mikið. Þarna er ekki beint samhljómur enda er fjarri því allir starfsmenn stóriðju séu háskólagengnir. Og við sáum nú hversu háskólagengna liðinu gekk vel að setja þjóðfélagið á hausinn á stuttum tíma. Allir viðskiptafræðingarnir, verkfræðingarnir svo ekki sé minnst á "blessuðu" hagfræðingana. Hversu góð er nú sú háskólamenntun þegar upp er staðið? Kannski hefði verið betra að þeir hefðu bara unnið í stóriðjunni eða afleiddum störfum?
En sjálfum finnst mér hins vegar löngu kominn tími til að nota orkuna okkar í " eitthvað annað" og betra en málmbræðslur.
Erlingur Alfreð Jónsson, 8.5.2014 kl. 14:40
Hjá Norðuráli á Grundartanga unnu um 500 manns í árslok 2009, þar af um 400 félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness, og á vef félagsins er tekið sem dæmi að starfsmaður, sem unnið hefur í sjö ár hjá Norðuráli, hafi fengið 308.994 króna mánaðarlaun í nóvember 2010.
12. 6.2008:
"Á vefsíðu Fjarðaáls kemur fram að meðallaun framleiðslustarfsmanna eru tæpar 336 þúsund krónur á mánuði, með innifalinni yfirvinnu, vaktaálagi og fleiru."
Þorsteinn Briem, 8.5.2014 kl. 15:09
6.4.2014:
"Í svari iðnaðarráðherra við fyrirspurn Össurar Skarphéðinssonar þingmanns Samfylkingarinnar segir að horfur séu á miklum vexti í framleiðslu bifreiðahluta úr koltrefjum á næstu árum og einnig framleiðslu vindmylluspaða."
"Framleiðslueiningarnar séu meðalstórar á íslenskan mælikvarða, þ.e. 80 -100 störf, en 30–40% starfanna séu hátæknistörf sem krefjast háskólamenntunar."
Koltrefjar framleiddar hér á Íslandi
Þorsteinn Briem, 8.5.2014 kl. 15:21
Ef ég væri ríkur (sem ég verð sjálfsagt aldrei) myndi ég ekki fjárfesta í áli. Frekar reyna mig á áburðarframleiðslu og reyna að klófesta Fosfór.
Á undan því væri hins vegar ferðaþjónusta.
Steini: Þú kemur oft með tölu um skattekjur ríkisins af ferðaþjónustu (hva, 27 milljarðar í fyrra?). Ekki býrðu svo vel að eiga meiri bak-upplýsingar um hvernig talan er samansett? Væri þér mjög þakklátur ef þú birtir slíkt.
Jón Logi (IP-tala skráð) 9.5.2014 kl. 09:18
Skipting á tekjum íslenska ríkisins af hverjum ferðamanni, mynd 4 bls. 3
Þorsteinn Briem, 9.5.2014 kl. 19:43
Hafðu þökk fyrir Steini. Vissulega núum við saman hornunum endrum og sinnum, enda púkar báðir. En svona heimildir eru ómetanlegar, og nú áttu inni hjá mér. Ef eitthvað ég get grafið upp fyrir þig, þá lætur þú mig bara vita.
Jón Logi (IP-tala skráð) 10.5.2014 kl. 06:46
Takk sömuleiðis, Jón Logi.
Þorsteinn Briem, 10.5.2014 kl. 13:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.