25.5.2014 | 13:30
Þetta vofir yfir öllum söngvurum.
Raddböndin, sem þrumuraddir bestu söngvara heims gefa frá sér, eru með minnstu líffærum mannslíkamans. Það er því ekki lítið lagt á þau þegar bestu og öflugustu söngvarar þurfa að ekki aðeins að reiða sig á þau í hvert skipti sem þeir koma fram, heldur byggja alla sína afkomu og tilveru á þeim.
Bryn Terfel er langt í frá eini stórsöngvarinn, sem þessi litlu grey hafa hrekkt illilega.
Raddböndin minna mig stundum á kerti í bílvélum, sem skila verða fullkomnum neista inn í brunahólfið, en get átt það til að verða óhrein eða "fálast upp" eins og flugmenn og flugvirkjar sletta þegar þeir tala um þetta fyrirbæri.
Þegar einhver allra besti tenórsöngvari allra tíma, Jussi Björling, hélt söngskemmtun í Þjóðleikhúsinu á sjötta áratugnum á leið sinni yfir hafið frá Bandaríkjunum, flaug fréttin um það eins og eldur í sinu, að bleik hefði heldur betur verið brugðið á konsertinum.
Sumir létu að því liggja að þarna hefði komið í ljós að of mikið væri látið með Björling og hann ofmetinn, - okkar eigin Stefán Íslandi væri jafnvel betri !
Já, gamli rembingurinn okkar kominn upp, rétt einu sinni.
Um Jussi Björling þarf ekki að deila. Helstu stórsöngvarar síðar á 20. öldinni voru sammála um snilli hans, hvernig hann virtist ekki hafa neitt fyrir því að syngja eins og engill, rétt eins og Pavarotti varð frægur fyrir að gera og sagðist taka Jussi sér til fyrirmyndar.
Svíinn var einfaldlega þreyttur og timbraður á tónleikunum eftir að hafa verið í á annan tug klukkustunda að hossast í hægfleygri íslenskri vél yfir hafið og þar að auki farinn að láta á sjá vegna óreglu, sem átti eftir að flýta fyrir dauða hans.
Okkar bestu hafa lent í þessu eins og dæmi frá síðasta hausti sýnir. 1985 var ég á Akureyri þegar Kristján Jóhannsson var upp á sitt besta, en hafði skotist frá Ítalíu alla leið norður til að endurlifa gamlar gleðistundir smiðsins góða á sinni tíð.
Allir gömlu vinirnir urðu að samgleðjast Kristjáni þessa helgi og helst upp á gamla mátann eins og siður er Íslendinga.
Fyrir hádegi sprakk hann á efsta tóni í Akureyrarkirkju og lenti aftur í vandræðum í Reykjavík á tónleikum eftir hádegið og varð að láta röddina falla um áttund til að komast í gegnum það erfiðasta.
Auðvitað hristi hann þetta af sér og ferilinn frækilegi hélt áfram erlendis.
Á tímabili varð Björk Guðmundsdóttir að aflýsa tónleikum um skeið meðan rödd hennar var að ná sér eftir bólgu í raddböndum og allir söngvarar hafa orðið að sæta því að jafnvel fullkomnustu læknavísindi nútímans ráða ekki við jafn aumingjalegan sjúkdóm eða sýkingu og venjulegt kvef er.
Úr því að stórsöngvarar verða að glíma við þetta má nærri geta hvað getur komið fyrir venjulega gutlara.
Mér er enn í minni þegar ég missti röddina algerlega á skemmtun á föstudagskvöldi fyrir 13 árum og voru góð ráð dýr, því að ég þurfti að fara beint af henni og skemmta á þorrablóti í Danmörku daginn eftir.
Kom sér vel að Haukur Heiðar Ingólfsson, undirleikari minn, er afbragðs læknir og tók mig í sérstaka meðferð, sem hann varaði mig þó við að að væri þess eðlis, að erfitt væri að gera slíkt nema jafnvel aðeins einu sinni.
Ég yrði að búa mig undir það að fá röddina aftur í nokkrar klukkustundir og missa hana síðan á ný.
Þetta heppnaðist, röddin kom rétt fyrir samkvæmið, en okkur báðum til undrunar fór hún ekki aftur eins og Haukur hafði búið mig undir.
Björgvin Halldórsson er fundvís á nöfn á fyrirbæri og Haukur sagði mér að hann kallaði þessa meðferð "Pavarotti".
Sem er réttnefni, sýnir að enginn er óhultur.
Röddin brast í sjöunda lagi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Var það ekki Jussi sem varð alveg band-óður í flugvélinni á leiðinni og ætlaði að brjóta sér leið út með exi í miðju flugi? Var það ekki Jóhannes sem flaug, og Steini nokkur Jóns um borð einnig?
Jón Logi (IP-tala skráð) 25.5.2014 kl. 14:08
"First a lost my weight, then I lost my voice and then I lost Onassis."
Maria Callas (Kalogeropoulos).
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 25.5.2014 kl. 14:45
Gullfætur Messi og Ronaldo eru tryggðir í bak og fyrir enda vinnutæki þeirra. Þeir framleiða fallega fótboltatóna með löppunum í tuðrusparkinu sem gleðja og kæta :)
Ragna Birgisdóttir, 25.5.2014 kl. 15:39
Svo er íslenskt (stundum) gluggaveður "áhættuatriði" fyrir óvana. Ekki gert ráð fyrir óvæntum kuldagjóstri þegar minnst varir. Chris Christoferson söngvari sá útum íslenska hótelgluggann fyrir nokkrum árum þetta bjarta fallega sólskinsveður. Fór út að hlaupa. Í stuttbuxum. (Sem hlauparar hér gera aðeins nokkra daga á sumri)Vanreiknaði vindinn. Sem og hitastigið, og varð skítkalt.
Nældi sér í kvef. En gerir kannski minna til hjá viskiraddar söngvurum.
P.Valdimar Guðjónsson, 25.5.2014 kl. 16:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.