Skilningsleysi á breytta tíma, rétt eins og fyrir öld.

Svo er að sjá sem stjórnmálamenn og áhugamenn um þau skilji hvorki upp né niður í því sem er að gerast í stjórnmálum samtímans.

Þeir undruðust gríðarlegt fylgi Besta flokksins í borgarstjórnarkosningunum 2010 og svipuð tíðindi á Akureyri og víðar, en héldu að þetta stafaði aðeins af því hve stutt væri frá Hruni og að það myndi ekki endast heldur líða hjá og gamla góða flokkamynstrið spretta fram að nýju.

Nú eru liðin sex ár frá Hruni en fjórflokkurinn er áfram í sárum, en Björt framtíð og Píratar mælast sífellt með fylgi um það bil þriðjungs kjósenda.

Ólafur Harðarson stjórnmálafræðiprófessor hefur í viðtali talið líklegt að þessi tvö framboð muni líða undir lok eins og svipuð fyrirbæri síðustu 100 árin, Bændaflokkurinn, Þjóðvarnarflokkurinn, Samtök frjálslyndra og vinstri manna, Bandalag jafnaðarmanna, Borgaraflokkurinn, Kvennalistinn, Þjóðvaki og Frjálslyndi flokkurinn.

Þetta er alls ekki víst. Rétt eins og flokkaskipunin gerbreyttist fyrir tæpri öld, getur hún verið að breytast að nýju nú, og þá einkum í byggðakosningum.

Ástæðan er sú að það eru nýir tímar nýs veruleika samskipta- og upplýsingabyltingar nets, spjaldtölva og snjallsíma.

Í sveitarstjórnarmálum eru yfir 90% viðfangsefnanna á engan hátt bundin stjórnmálastefnum.

Sú spurning vaknar hvaða erindi stjórnmálaflokkar í litrófinu hægri-vinstri eigi yfirleitt í stjórn sveitarfélaga.

Vel er hugsanlegt að ofurvald gömlu flokkanna sé að ganga sér til húðar, og að við sé að taka vel menntuð kynslóð netmiðlanotenda, sem telur, að afskipti í formi hagsmunapots, spillingar og argaþrasins hjá gömlu fjórflokkunum geri ekkert gott fyrir stjórn sveitarfélaga, heldur þvert á móti, innleiði gamalkunnugan þrýsting og áhrif valda og peninga.

Þessi nýja kynslóð fer stækkandi eftir því sem árin líða og fleiri bætast við á sama tíma og hin gamla kynslóð fellur jafnt og þétt frá.  

Þannig vill til að vegna viðveru minnar vegna kvikmyndagerðar minnar og flugs undanfarin ár við Hvolsvöll fylgist ég nú með einu dæminu um þetta, tilkomu nýs stjórnmálaafls þar um slóðir, framboðs óháðra, sem telja sig hafa fengið sig fullsadda af pólitík gömlu flokkanna, sem þar hafa ráðið lögum og lofum í hátt í eina öld.

Dropinn, sem fyllt mælinn að dómi þessa fólks, er þegar peningaöfl hafi nú komið þannig ár sinni fyrir borð hjá gömlu flokkunum, að troða stóru hóteli niður beint fyrir framan Skógafoss.

Styrmir Gunnarsson gælir við þá hugmynd að sterkt flokkskerfi Sjálfstæðisflokksins muni geta snúið dæminu við á endasprettinum fyrir kosningarnar, rétt eins og því tókst stundum áður.

Þetta er draumsýn ein. Allt fram til ársins 2010, í næstum heila öld, höfðu Sjálfstæðismenn og fyrirrennari hans, Íhaldsflokkurinn, í kringum 50% fylgi í borginni.

Núna er fylgið í besta falli 20% og það, að eitthvert "flokkskerfi" frá gamla tímanum geti meira en tvöfaldað fylgi flokksins í átt að gamla góða veldinu er augljóslega borin von.  

Ég fæ ekki betur séð en að það verði ekki umflúið, að bæði "flokkskerfið" og framboðið muni hrynja og að að orðaval Styrmis um að flokkurinn hrynji í borginni og Framsóknarflokkurinn hverfi séu forspá.

Útspil oddvita Framsóknarmanna er örþrifaráð til að lokka til sín nógu stóran hluta þess fimmtungs kjósenda, sem eru andvígir innflutningi útlendinga til landsins.

En jafnvel þótt það takist, blasir við, að með því að tefla fram í örvæntingu máli, sem er andstætt stefnu flokksins til að bjarga við fylgi hans á síðustu stundu, er það ekki styrkleikamerki flokksins, heldur jafn mikið veikleikamerki og þótt framboðið bíði afhroð vegnasamþykktrar meginstefnu sinnar og falli þá með sæmd heldur frekar en að lifa við skömm.  

        


mbl.is Leitað verður skýringa og sökudólga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Og áfram heldur þú, sem vinstri manna siður er . Snýrð út úr og setur svo allt í samhengi sem hentar þér og þinum. Framsókn hefur "ALDREI" sagt eða gefið það í skyn að þeir séu á móti innflutningi á útlendingum. Málið var, að Reykvíkingar, fengju að segja sitt álit um hvort ætti að leyfa byggingu moskvu í Reykjavík eða ekki. Að sjálfsögðu reynir þú að flytja hér bloggfréttir, þér og þinum til framsóknar. Sorglega er, að þú sem fyrrverandi fréttamaður, og ættir að vera bundin af því að upplýsa alþjóð um það sem er að ske, skulir nú snúa og beygja sannleikann um það sem skiptir máli. Útspil þitt með þessari færslu, sýnir, að ekki er hægt að treysta neinum fréttum eða frétta/blaðurs mönnum vegna vinstri hentugleika slagsíðu. Hélt þú værir meiri maður en svo  en að fara snúa umræðunni á hvolf...!!!!

Sigurður K Hjaltested (IP-tala skráð) 25.5.2014 kl. 21:43

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ég vissi ekki að flytja ætti Moskvu til Reykjavíkur.

Þorsteinn Briem, 25.5.2014 kl. 21:49

3 Smámynd: Jón Ragnarsson

Það er nú þegar 1 moska í Reykjavík. Man ekki eftir kröfu um kosningu um hana.

Jón Ragnarsson, 25.5.2014 kl. 21:52

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Pútín kallinn segir SÍS,
með sínum hjartans vini,
enda er hann Óli grís,
enn með réttu kyni.

Þorsteinn Briem, 25.5.2014 kl. 21:52

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

233. gr. a. Hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á mann eða hóp manna vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar sæti sektum eða fangelsi allt að 2 árum."

Almenn hegningarlög nr. 19/1940

Þorsteinn Briem, 25.5.2014 kl. 21:56

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

65. gr. Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. ..."

Stjórnarskrá Íslands

Þorsteinn Briem, 25.5.2014 kl. 22:04

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Það er hvorki hægt að banna mönnum að byggja mosku í Reykjavík né að úthluta mönnum lóð þar undir mosku.

Og engin atkvæðagreiðsla getur brotið í bága við Stjórnarskrá Íslands.

Þorsteinn Briem, 25.5.2014 kl. 22:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband