Tvísýnn eltingarleikur lyfjanna við bakteríurnar.

Þegar penesillin kom til sögunnar fyrir um 70 árum héldu menn, að nú væri hin endanlega vörn fundin gegn bakteríum og veirum. Og lengi vel virtist þessi bjartsýni vera raunhæf. Á tímabili leit allt út með rósrauðum blæ.

Þegar ég spurði eitt sinn Sæma rokk, hvað hefði verið svona sérstakt við þann tíma, sem við vorum upp á okkar besta, svaraði hann:

"Þetta var tímabil sem kemur aldrei aftur, - eftir syfilis og fyrir AIDS."

Á síðustu áratugum hefur hallast á ógæfuhlið vegna þess að myndast hafa bakteríur sem skapað hafa sér ónæmi gegn sýklalyfjum.

Þetta hefði ekki þurft að gerast ef sýklalyfin hefðu verið rétt notuð, þ. e. aðeins þegar brýn þörf var fyrir þau og síðan ávallt þannig, að kúrinn var kláraður þannig að það lægi óyggjandi fyrir að búið væri að uppræta sýkinguna gersamlega.

En því miður var hvorugs alltaf gætt, heldur óft verið að nota lyfin í tíma og ótíma og slegið slöku við að taka þau reglulega inn eða að drepa sýkinguna alveg alla.

Einna stórvirkastan þátt áttu langt leiddir eiturlyfjaneytendur í þessu með því að taka lyfin svo óreglulega inn að bakteríurnar,sem lifðu af, höfðu myndað með sér ónæmi gegn lyfjunum.

Síðustu árartugina hefur staðið yfir dramatískur eltingarleikur sýkla og lyfja. Til að drepa sífellt ónæmari og sterkari sýkla hefur þurft ný og öflugri sýklalyf.

Þegar sýkingin er mjög heiftarleg eiga læknir og sjúklingur oft ekki um neitt að velja: Annað hvort að nota sterkasta lyfið, þrátt fyrir hugsanlega heiftarlegar hliðarverkanir, eða að hætta á algeran ósigur fyrir sýkingunni með dauða sjúklings sem endalok.

Ég lenti í þessu fyrir sex árum, og venjuleg sýklalyf höfðu ekki minnstu áhrif á stórfellda og hraðvaxandi sýkingu í stóru graftarkýli í baki, sem náði á nokkrum sólarhringum frá hrygg út í síðu og stefndi í að sprengja lífhimnuna, en þá var leikurinn tapaður.

Eina lyfið, sem von var til að gæti drepið sýkinguna heitir Augmentin, en er svo sterkt, að í mörgum tilfellum gengur inntaka þess fram af lifrinni, framkallar svonefndan lifrarbrest sem veldur stíflugulu og ofsakláða, sem rænir sjúklinginn öllum svefni í minnst tvo til þrjá mánuði.

Engin deyfilyf er hægt að taka við við kláðanum og þjáningunum, vegna þess að lifrin virkar ekki, getur ekki unnið úr lyfjagjöfinni.

Engum mannni óska ég svo ills að ganga í gegnum svona helvíti en þakka fyrir, að það fannst þó lyf sem gat unnið á hinum skæðu sýklum og bjargað lífi mínu.

Því miður virðist þetta kapphlaup sífellt sterkari sýkla og sífellt sterkari lyfja ekki vera á enda, og því er framtíðin í þeim efnum og möguleikar læknanna tvísýnir.

Það lítur ekki vel út ef einu lyfin, sem geta drepið viðkomandi sýkla, er svo sterkt að það drepur líka sjúklinginn.  

 Samt verður að halda í vonina.

Þegar alnæmi kom fyrst fram, var það þess eðlis, að það sýndist gersamlega vonlaust að ráða neitt við það og lífslíkur sjúklinganna engar.

Það hefur breyst til skárri vegar þótt endanlegur sigur hafi að vísu ekki unnist.

En þó sýnist það vera kraftaverk hve langt læknavísindin hafa samt komist í baráttunni við þann skelfilega sjúkdóm.    


mbl.is MÓSA berst aðallega með snertingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll.

Gleymum ekki að þakka læknum sinn þátt í því að auka þol baktería gegn sýklalyfjum :-(

Helgi (IP-tala skráð) 28.5.2014 kl. 05:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband