31.5.2014 | 09:23
Gert á hverjum degi um allt land.
Óteljandi eru þau skipti sem maður sér bílstjóra leggja bílum sínum í tvö stæði eða jafnvel allt upp í fimm ! Þetta hefur viðgengist hér á landi í áraraðir vegna þess að ekkert er aðhafst af hálfu lögreglu vegna þessara umferðarbrota og myndin á tengdri frétt á mbl.is sýnir þess vegna alvanalega íslenska hegðun.
Í Ameríku fjarlægir lögreglan svona bíla, lætur ökumennina borga kostnaðinn og sektar þá þar að auki.
"Á Íslandi við getum verið kóngar allir hreint" er hins vegar í fullu gildi hér á landi upp úr og niður úr.
Nýlega kom ég á stað, þar sem var mikil umferð fólks og slegist var um bílastæðin. Þar lagði einn pallbílaeigandi bíl sínum þversum í ein fimm bílastæði ! Er búinn að setja ljósmynd á facebook síðu mína sem sýnir þetta.
Réttlætingarnar fyrir þessari frekju eru endalausar:
"Ég vil vera öruggur um að bíllinn minn sé ekki rispaður."
"Ég kom hérna á undan þér."
"Það var bíll hér, sem er farinn, en þvingaði mig til að leggja svona." Þetta er meira að segja sagt þótt bíllinn standi yst á stæðinu og enginn bíll hafi getað staðið þannig að það hafi valdið neinni þvingun. Líka sagt þótt maður hafi horft á þegar lagt var og séð að afsökunin er lygi.
Vegna þess hve ég ek um á litlum bílum, get ég oft lagt löglega innan settra marka, þótt búið sé að leggja öðrum bíl hálfum inn á það bílastæði. Ég er yfirleitt sjaldan í vandræðum að finna stæði fyrir örbílana mína, því að oftast er einhverjum bílum lagt ólöglega, sem gefa mér einum færi á að nýta hálf skert bílastæði.
Að því leyti til get ég því verið persónulega þakklátur fyrir hina séríslensku hefð.
Yfirleitt bregðast þeir plássfreku ókvæða við og saka mig um yfirgang. Einn sagði að ég kæmi í veg fyrir að kona hans kæmist farþegamegin inn í bílinn með því að leggja svona þétt upp að honum.
Ég sagðist vera með kaðal og geta dregið hann og gæti líka skutlast eftir hjólastól fyrir konuna hans. Hann varð eitt spurningamerki. "Jú," sagði ég, "það er greinilega bilaður bakkgírinn á bílnum þínum úr því að þú getur ekki bakkað þessa tvo metra sem þarf til að konan þín komist inn í bílinn, og ef hún getur ekki gengið þessa fáu metra, er sjálfsagt mál að ná í hjólastól."
Ég hef líka svarað þessu fólki með því að hvetja það til að sækja lögreglu og láta hana skera úr. Þá sljákkar yfirleitt í því eða það ekur bölvandi og ragnandi í burtu.
Í því tilfelli sem myndin á facebook síðunni var tekin, voru flestir aðrir bílar farnir þegar ég kom að sækja minn bíl. Ég veit því ekki hvernig pallbílsbílstjórinn hefur brugðist við. Stundum sjá viðkomandi og viðurkenna að þeir hafi farið rangt að og kannski var það þannig í þetta skipti.
En oftar er það að þeir verða öskureiðir yfir afskiptaseminni og frekjunni í mér.
Síðan er það hvernig ófatlaðir leggja í stæði fyrir hreyfihamlaða. Nákvæmlega sami yfirgangurinn.
Range Rover-eigandi tekur alltaf tvö stæði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sammála þér að öllu leiti, en það mætti alveg hafa bílastæðin breiðari. Það er varla hægt að opna hurð án þess að reka hana í næsta bíl. Og þar sem þú ert að miða við Ameríku þar sem að lögreglan fjarlægir slíka bíla má benda á að þar eru stæðin við súpermarkaðina töluvert breiðari en hér á landi.
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 31.5.2014 kl. 13:32
Hárrétt, Rafn Haraldur, þótt stæðin séu raunar misjafnlega breið. Síðan 1980 hafa bílar að meðaltali breikkað um 15-20 sentimetra. Subaru 4x4 1981, sem ég á, er 1,61 á breidd en nú eru samsvararandi bílar meira en 1,80.
Ford Anglia 1962 var 1,46 en nú eru bílar í svipuðum stærðar- og lengdarflokki þrjátíiu sentimetrum breiðari.
Borgaryfirvöld og aðrir, verða að taka sér tak og fylgjast með tímanum.
Ómar Ragnarsson, 31.5.2014 kl. 15:19
Borgar- og bæjaryfirvöld hér á Íslandi ákveða nú tæpast breidd á bílastæðum við stórverslanir.
Og fjöldinn allur af bílum var mjög breiður, til að mynda Ford Fairlane 1957, eins og undirritaður átti fyrir margt löngu.
Þorsteinn Briem, 31.5.2014 kl. 15:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.