6.6.2014 | 21:37
Áhrifaríkt að koma á slóðir innrásarinnar.
Í tengslum við vinnu mína vegna bókarinnar/kvikmyndarinnar "Emmy, stríðið og jökullinn" fórum við Helga til Normandy 2006 til að skoða vettvanginn þar sem hermenn Bandamanna óðu í land, tókum þar myndir og "uppistönd".
Frakkar standa myndarlega að því að viðhalda sögulegum minjum, söfnum og öðru sem þarf til þess að upplifunin af því að standa þarna í sporum hermannanna verði sem dýpst.
Um alla Evrópu allt norður til nyrstu byggða Noregs, leggja menn rækt við stríðsminjar í formi bygginga, safna, vígvéla og hvers þess sem haldið getur minningunni um hildarleiki stríðsins á lífi.
Hér á landi hefur þetta verið vanrækt með undantekningu á Reyðarfirði. Með naumindum hefur verið hægt að afstýra því að gamli flugturninn á Reykjavíkurflugvelli yrði brytjaður niður en því miður hefur margt annað verið eyðilagt eða látið drabbast niður.
Í Kaldaðarnesi hefur að óþörfu verið skipulega eytt öllum minjum flugvöll, sem gegndi gríðarmiklu hlutverki á undan Reykjavíkurflugvelli og allt til 1944. Það var til dæmis send Hudson-flugvélin sem klófesti fyrsta þýska kafbátinn, sem Bandamenn náðu á sitt vald í stríðinu.
Það er dapurlegt og hlálegt í senn að sumum verðmætum minjum frá Reykjavíkurflugvelli og Vatnagörðum skuli hafa verið bjargað í safn alla leið vestur á Hnjót í Patreksfirði.
Á Reykjavíkurflugvelli og við Reykjavíkurhöfn ætti að reisa tvö stríðsminjasöfn, annað um þátt flugvallarins í orrustunni um Norður-Atlantshaf en hitt um þátt Reykjavíkurhafnar og skipalestirnar.
Ef menn eru í vandræðum með fyrirmyndir ættu þeir að fara til Narvikur í Norður-Noregi og sjá hvernig staðið er málum þar.
Orrustan um Narvik var að sönnu mikilvæg í stríðinu en orrustan um Norður-Atlantshaf þó enn merkilegri, því að umfjöllun um hana er að finna í öllum heildarritum um stríðið þar sem hún er í sama flokki og aðrar stærstu orrustur stríðsins, svo sem orrusturnar, sem kenndar eru við Normandy, Stalingrad, Kursk, Moskvu, El Alamein og Midway, svo að nokkrar séu nefndar.
Normandí þá og í dag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
A öllum minum ferðalögum um heiminn þá gaf eg mér aldrei tima til að fara til Normandi, mér hefur verið sagt að það se þess virði að sjá það sem var gert til minningar um þá sem börðust gegn Nazistum.
Búinn að setja Normandi a "before kicking the bucket listan."
Kveðja fra Houston
Jóhann Kristinsson, 6.6.2014 kl. 21:57
28.5.2010:
Borgarminjavörður: Varðveisla minja frá stríðsárunum í Nauthólsvík og Öskjuhlíð - Mynd og kort
Hvar eru mestu stríðsminjar á Íslandi? - Vísindavefurinn
Þorsteinn Briem, 6.6.2014 kl. 22:02
Tvö hundruð milljónir króna í hersetusafn á Ásbrú við Keflavíkurflugvöll
Þorsteinn Briem, 6.6.2014 kl. 22:05
Stríðsminjasafnið á Reyðarfirði:
Þorsteinn Briem, 6.6.2014 kl. 22:07
Nóg af stríðsminjum hér á landi. Margir halda utan um þær.
Stór góð og skemmtileg var myndin ykkar um Reykjafjörð og Drangjökull. Stendur upp úr hvað varðar stórfenglegt landslag, viðtöl og aðkomu. Fá gönguferðalög eru eins skemmtileg eins og milli Reykjafjarðar og Ingólfsfjarðar. Á slóðum Eiríks rauða landkönnuðar.
Þarna hefur alist upp kjarkmikið fólk sem allstaðar hefur náð langt. Áttahagatryggð þess er dásamleg og sýnir hve mikið má gera úr litlu. Afrek að stór fjölskylda skuli enn halda úti heilli sundlaug norður við íshaf. Önnur sundlaug frá tíð ungmennafélaga er undir Eyjafjöllum og ekki síður merkileg. Að halda utan um þær er sjálfboðavinna og minjastarf sem ætti að lofa meir.
Sigurður Antonsson, 6.6.2014 kl. 23:32
Sæll Ómar! Þakka þennan fróðleik um Normandí og lítla rækt við stríðsminjar á Íslandi
Í Bolungarvík vinnur Samgöngufélagið að gerð minnisvarða um mesta slys á sjó við Ísland sem varð er skipalestin QP-13 villtist af leið og sigldi inn í belti Breskra tundardufla skammt frá Aðalvík á Vestfjörðum 5. júli 1942 og sex skip og um 240 manns fórust. Raunar var þarna sennilega unnið eitt mesta björgunarafrek Íslandssögunnar en um 260 manns var bjargað úr sjónum við afar erfiðar og hættulegar aðstæður, þar af bjargaði frönsk korvetta um 180 manns.
Þetta eru atburðir sem eru flestum Íslendingnum ókunnir, því miður og er minnismerkinu ætlað að bæta úr því. Minnismerkinu er valinn staður í Bolungarvík um 53 km frá slysstað þar sem Bolungarvík er eini byggði staðurinn hérlendis í beinni sjónlínu við þann stað er atburðurinn varð og flök nokkurra skipanna liggja á hafsbotni.
Stefnt er að vígslu minnismerkisins við hátíðlega athöfn, vonandi að viðstöddum sendiherrum þeirra þjóða er hlut áttu að máli (Bretland, Bandaríkin, Rússland og Frakkland), laugardaginn 5. júli kl. 13:00.
Jónas Guðmundsson.
Jónas Guðmundsson (IP-tala skráð) 7.6.2014 kl. 00:47
Takk Ómar fyrir þennan fróðleik. Ég hef nú lesið margt um seinni heimstyrjöldina, en þetta sem Jónas Guðmundsson kom með í sinni færslu, hef ég aldrei heyrt um eða lesið. Þetta eru atburðir sem maður verður að kynna sér og í raun ótrúlegt að ekki hafi borið meira af þeirri sögu. Bíð eftir að fá að lesa meira um það.
M.b.kv.
Sigurður K Hjaltested (IP-tala skráð) 7.6.2014 kl. 18:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.