Mynd, sem upplýsir kannski of mikið ?

Markaðsfræðingar og markaðssnillingar ráða vafalaust mestu um þróun bílaflota heimsins, sem undanfarna áratugi hefur að miklu leyti byggst á uppbyggingu ímyndar svonefndra sportjeppa, þar sem einni mikilvægustu staðreynd um getu þeirra er leynt, - þeirri staðreynd að þeir síga langflestir niður um 5-8 sentimetra þegar þeir eru fullhlaðnir og verða þá jafnvel með minni veghæð en venjulegir fólksbílar með einn mann innanborðs.

Mér fannst óhjákvæmilegt að geta um þetta mikilvæga atriði við gerð myndarinnar "Akstur í óbyggðum" sem sýnd verður næstkomandi sunnudag í Sjónvarpinu, þótt maður sjái hvergi fjallað um þetta fyrirbæri í skrifum um bíla.  

Já, máttur þeirra sem stjórna markaðnum er mikill.  

Einhver magnaðasta markaðssnilld allra tíma fólst í því, að Iaccoca hjá Ford fann út, að vegna þess að sportgerðin af Corvair, Monzan, seldist miklu betur en venjulegur Corvair, væri GM að lokka fram nýjan markhóp bílakaupenda sem vildu eiga léttan, sportlegan og allmiklu minni bíl en þá töldust vera "bread and butter" bílar Kananna, en þó skyldi bíllinn geta tekið fjóra í sæti þótt þröngt væri í aftursætinu.

Iaccoca var svo viss í sinni sök, að þegar Mustang sló í gegn fyrir 50 árum, seldust 100 þúsund bílar í hverjum mánuði það sem eftir var ársins, eða vel yfir 700 þúsund bílar. Þetta met hefði verið ómögulegt að setja nema með því að hafa fyrirfram tilbúna framleiðslugetu fyrir svona metframleiðslu.

Þegar Lada Niva kom fram 1977 sló þessi fyrsti sérhannaði og fjöldaframleiddi "crossover" eða umskiptingur í heimi í gegn í Austur-Evrópu og á Íslandi.

En annars staðar hamlaði uppruni bílsins og lélegur frágangur sölu. Tími svona bíla var einfaldlega ekki kominn og ágætir "crossover" bílar AMC seldust nógu vel til að eiga framhaldslíf ef undan er skilinn Cherokkee.

1989 settu Japanir Suzuki Vitara og Daihatsu Feroza á markað og seldust þeir nokkuð vel án þess að aðrir framleiðendur tækju við sér.

1990 kom Ford Explorer fram og seldist afar vel og þegar Toyota Rav 4 kom á markað 1994 var ljóst að nýr og rosalega stór markhópur var að byggjast upp.

Á næstu árum varð sprenging í framleiðslu og sölu svonefndra SUV bíla eða crossover-bíla og hefur sú bylgja risið hærra með hverju árinu síðan.

Markhópurinn er eins góður til að græða á og hægt er að hugsa sér, hin stóra og fjölmenna millistétt í nútíma samfélögum, sem hefur efni á að kaupa mun dýrari bíla en láglaunafólk og þar að auki bíla, sem gefa framleiðendunum miklu meiri peninga í gróða fyrir hvern bíl en fyrir ódýrustu smábílana. 

Það þarf ekki að koma á óvart að BMW skuli seljast vel í Noregi og þá einkum BMW X5. Sá bíll er eitthvert besta tákn um smekk þessa markhóps sem hugsast getur, og þjónar eins vel sem stöðutákn og hægt er.

BMW X5 hefur líka verið þróaður og endurbættur af þýskri nákvæmni og metnaði.

Fróðlegt er að líta á hvernig sportjepparnir hafa breyst síðan 1990. Explorer og fleiri slíkir voru háir og klossaðirm soðnir upp úr pallbílum og með nokkuð mikla veghæð.

Þó vakti það athygli mína í upphafi að hæðin undir bensíngeyminn á Explorer var aðeins 18 sentimetrar á óhlöðnum bíl.

Erlendar rannsóknir sýndu hins vegar að nær allur akstur þessara bíla var á malbiki og viðburður ef þeim var ekið á malarvegum eða vegaslóðum, hvað þá í torfærum.

Þegar framleiðendurnir sáu þessar staðreyndir fóru undirvagnar þessara bíla að verða síðari og flatari og sjálfstæð fjöðrun tók við af heilum afturöxli.

Allra síðustu árin hafa margir þessara bíla farið að lækka. Ástæðan er einföld: Því hærra sem maður situr, því meira hreyfist maður til og frá og upp og niður á ójöfnum vegi.

Þetta vita þeir hjá Benz og BMW og þess vegna situr fólk svona lágt í framsætunum í fólksbílum þeirra.

Bílar eins og Subaru XV eru dæmigerðir um það hvernig sportjepparnir fara lækkandi.

Síðustu 15-20 ár hafa bílaframleiðendur hætt því, sem margir þeirra gerðu áður, að gefa upp veghæðina á bílnum fullhlöðnum.

Volkswagen gaf til dæmis upp að hæðin undir Bjölluna væri 15 sentimetrar á fullhlöðnum bíl (beladen), það þýddi að tómur var bíllinn með 21 sentimetra veghæð og hefði á okkar dögum getað verið auglýstur sem jepplingur með mikla veghæð!  

Siðasta bílatímaritið sem ég minnist að hafi gefið upp veghæð á fullhlöðnum bílum  var annað af Consumer bílatímaritum Bandaríkjanna.

Mann grunar að bílaframleiðendum hafi ekki líkað þetta, því að í þessu tímariti var hæðin undir RAV 4 og Honda CRV orðin 13 sentimetrar eða minni en á venjulegum óhlöðnum fólksbíl. Og síðan hvarf þessi uppgefna hæð allt í einu og hefur ekki sést síðan.

Í myndinni "Akstur í óbyggðum" er upplýst um þetta, því að ég veit allt of mörg dæmi um það að kaupendur jepplinganna hafa talið sig svikna og lent í miklu vandræðum á ferðalögum og í ófærð þegar þeir uppgötvuðu þessar takmarkanir sport"jeppanna" sinna.

Ólíklegt er að bílaumboðin og bílaleigurnar séu ánægð með mynd sem upplýsir um þetta, enda heyrði ég sagt í gagnrýni á myndina hjá einum bílaleigueiganda, að óþarfi væri að upplýsa um þetta, - tryggingafélögin borguðu tjónin hvort eð væri.

Kannski er "hæsta bílaleiguverð í heimi" engin tilviljun ? Hver veit ?   

 

  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður Ómar og mikið til í þessu. Hlakka til að sjá þáttinn þinn

á Sunnudag.

M.b.kv.

Sigurður K Hjaltested (IP-tala skráð) 10.6.2014 kl. 19:46

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það var óhugsandi að mesti veghæðarnörd á norðurhvelinu léti það atriði ósnert í heimildamynd um ferðir um torleiði.

Ómar Ragnarsson, 10.6.2014 kl. 20:52

3 identicon

Veit ekki alveg hvernig þú ert að skilgreina crossover en miðað við sumar tegundirnar sem þú nefnir, ertu klárlega að gleyma Range Rover (þ.e.a.s. í flokknum 'jeppar með aksturseiginleika á malbiki' en ekki í flokknum 'fólksbílar sem þykjast vera jeppar' en þú nefnir dæmi um hvorutveggja í pistlinum).

ls.

ls. (IP-tala skráð) 11.6.2014 kl. 05:29

4 Smámynd: Þórhallur Birgir Jósepsson

Sérstaða okkar miðað við V-Evrópu og N-Ameríku er að fram á síðustu ár hafa Íslendingar þurft á torfærueiginleikum bíla að halda í nokkrum mæli, amk umfram hina. Kannski þess vegna sem hæð undir lægsta punkt skipti svona miklu.

Fyrir margt löngu, á árunum 1986-1991, skrifaði ég bílasíðu Morgunblaðsins. Þá var ég haldinn talsvert alvarlegum snerti af þessum sama nördaskap sem þú nefnir Ómar, að þurfa að vita hæð undir bílana. Ég reyndi að geta þess í tækniupplýsingunum, en yfirleitt var þetta ekki gefið upp, helst á amerísku jeppunum.

Ég minnist þess að einmitt í öndverðu þessu tímabili, sirka 1986, las ég frétt um bandaríska rannsókn, sem var víst all-víðtæk. Niðurstaða hennar var að yfir 95% eigenda jeppa (Þá voru jepplingar eða SUV varla komnir til sögunnar, þetta voru Blazerar, Broncoar og CJ5 og 7 o.þh. bílar) færu aldrei út fyrir malbik eða meginleiðir. Könnunin náði ekki til pallbílanna eins og F150 enda þeir jafnan líka notaðir á búgörðum.

Annars er það auðvitað eðlilegt að bílar lækki við hleðslu, það gera allir bílar. Dæmi eru um að það komi sér vel, ef maður álpast með fullsetinn bíl í snjóskafl og hann lyftir sér við að farþegarnir stíga út, losnar eða minna þarf að moka.

Fróðlegt væri annars að vita hve margir eigendur annars vegar jeppa, hins vegar jepplinga (ef þá hægt er að greina í milli) á Íslandi fara ekki út fyrir meginleiðir.

Þórhallur Birgir Jósepsson, 11.6.2014 kl. 15:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband