Eitt óhapp í Krossá dýrara en kvikmynd?

Forvarnir þykja oft dýrar og jafnvel of dýrar þótt bent sé á að hvert alvarlegt slys er miklu dýrara en flestir gera sér grein fyrir.

Það sýna dæmi eins og árangur af tvöföldun Reykjanesbrautar, gerð vegriða við Hvalfjörð og nýs vegarkafli í gegnum Svínahraun, en allar þessar framkvæmdir hafa komið i veg fyrir alvarleg slys, sem áður voru á þessum slóðum.

Eitt banaslys á Íslandi kostar með ísköldum útreikningi, án þess reynt sé að meta áhrifin á ástvini og vini, ekki minna en 300 milljónir króna.

Það er hins vegar vafasamt að nefna ofurtöluna 40 varðandi mannslíf, sem bjargað hafi verið síðustu tíu ár með því að tvöfalda Reykjanesbrautina. Í slíka útreikninga vantar áhrif þess að bílaframleiðendur hafa staðið fyrir stórfelldum endurbótum varðandi öryggi bíla, sem út af fyrir sig fækka banaslysum en virðst yfirleitt ekki teknar með í reikninginn.

En nefna má áhrifarík dæmi um það að bætt vegakerfi hafi komið í veg fyrir stórslys. 

Töf á gerð vegriðs á milli akbrauta með umferð í gagnstæðar áttir á Hafnarfjarðarvegi kostaði þrefalt banaslys á veginum. Frumorsök slyssins var að vísu sú að einn hinna látnu fékk hjartaáfall, en hinir tveir hefðu ekki lent í neinu slysi þarna ef vegrið hefði verið komið og enginn öryggisbúnaður í bifreið getur bjargað mönnum í framsæti, ef bíll úr gagnstæðri átt kemur fljúgandi í gegnum framrúðuna eins og í þessu slysi.  

Fyrir beint peningatjón af þessu eina slysi hefði mátt borga upp gerð allra nauðsynlegra vegriða á suðvesturhorni landsins.  

Í hitteðfyrra ákvað ég að breyta um stefnu í kvikmyndagerð minni, þótt ekki væri nema í þetta eina sinn, og gera mynd um íslenska náttúru og málefni tengd henni, sem jafnframt gæti komið í veg fyrir slys, vandræði og umhverfisspjöll.

Myndin, sem heitir "Akstur í óbyggðum", og er 43ja mínútna löng, verður sýnd í Sjónvarpinu næstkomandi sunnudagskvöld 15. júní og fjallar um það hvernig hægt sé í akstri um óbyggðir landsins að ná sem mestri ánægju við að njóta einstæðrar fegurðar og náttúru landsins á mismunandi bílum við ólíkar aðstæður víða um land án þess að lenda í vandræðum eða valda náttúruspjöllum að óþörfu.

Við gerð myndarinnar naut ég dýrmætrar aðstoðar og vinnu Friðþjófs Helgasonar, ljósmyndara og kvikmyndagerðarmanns og eiginkonu minnar Helgu Jóhannsdóttur.  

Ég er þakklátur þeim og einnig þeim, sem styrktu gerð þessarar myndar, Sjónvarpinu, Landsbankanum, Olís, umhverfisráðuneytin og Tryggingamiðstöðinni, en átti þó ekki von á því að ekki fengist stuðningur eða blanda af samstarfi og stuðningi frá bílaumboðum, 130 bílaleigum eða öðrum ferðaþjónustuaðilum, þannig að eins og er er tap á myndinni.

Hjá tryggingafélaginu skildu menn hvað var um að ræða þegar ég sagði: "Bara það, að geta komið í veg fyrir eitt slys í Krossá, gerir meira en að borga kostnaðinn við þessa mynd."

Nú kann vel að vera að þessi mynd sé misheppnuð hjá mér og að í ljós komi að ekki hefði átt að vera eyða peningum og fyrirhöfn í gerð hennar, heldur í eitthvað annað. 

Um slíkt veit enginn kvikmyndagerðarmaður fyrirfram en veit þó, að ef enginn gerir neina mynd, mun aldrei nást neinn árangur af því að reyna þá aðferð.  

Meðal þess, sem hvatti mig til að gera hana, var að fyrir 35 árum gerði ég sjónvarpsþátt um svipað efni í ferðalagi með Guðmundi Jónassyni og að sá þáttur var endursýndur þrisvar.  Einhver ástæða hefur legið til þess, - kannski það að aldrei hafði áður verið fjallað um málið á þennan hátt.

Búta úr þeim þætti má sjá í þessari nýju mynd.

Nú er fjallað nær daglega um utanvegaakstur í fjölmiðlum, umferð ferðamanna hefur stóraukist um byggðir og óbyggðir, og að því leyti ætti þetta að vera rétti tíminn til að gera heimilda- og fræðslumynd um málið en hún er gerð á annað borð.

Þessa dagana er ég að vinna við að þýða efni myndarinnar og undirbúa það að bjóða hana til sölu fyrir innlenda og erlenda ferðamenn, en til að gera þann pakka meira aðlaðandi og fyllri, verða tvö sjö mínútna löng tónlistarmyndbönd, annars vegar um Ísland og hins vegar um Reykjavík á sama diskinum eða tölvukubbnum ásamt myndinni "Akstur í óbyggðum".

Vona ég að með því fáist góð landkynning fyrir útlendinga, sem kynnu að kaupa þetta efni, og jafnframt fáist tekjur til að komast á lygnan fjárhagslega sjó vegna gerðar þessara þriggja mynda.      

  

 


mbl.is Allt að 40 mannslífum bjargað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórhallur Birgir Jósepsson

Mér finnst þetta afskaplega skrítin frétt og tónninn gefinn með fyrirsögninni: "Allt að 40 mannslífum bjargað." Þetta þýðir að fjöldi banaslýsa á tilteknu tímabili er framreiknaður með hæstu mögulegu niðurstöðu og hún síðan gerð að fjölda "bjargaðra" mannslífa. Hæpið svo ekki sé meira sagt.

Þá er eftir að skoða tegund banaslysanna. Fram hafði komið ítrekað í fréttum áður en ráðist var í tvöföldunina að algengasta orsök banaslysa á Reykjanesbraut (sunnan Hafnarfjarðar, Reykjanesbraut nær alla leið að Elliðaám) var útafakstur þar sem úfið hraunið lék stórt hlutverk við að auka á alvarleika slysanna.

Það þýðir að tvöföldunin sem slík hafði alls ekkert með fækkun þeirrar tegundar slysa að gera. Hvað verður þá um framreiknaðan fjölda "bjargaðra" mannslífa? Mig grunar að vegrið leiki stærra hlutverk í þessari jákvæðu þróun en sjálf tvöföldun brautarinnar.

Ég held að áhugavert væri að fá mat á þessari þróun byggt á t.d. þeim gríðarmiklu gögnum sem Ólafur Guðmundsson hefur safnað um Reykjanesbrautina og eftir atvikum aðra vegakafla í EuroRAP verkefninu.

Þórhallur Birgir Jósepsson, 10.6.2014 kl. 09:33

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Góð athugasemd, Þórhallur, enda er efni bloggpistils míns afleggjari af vangaveltum um þetta en fjallar ekki beint um fullyrðingarnar og tölurnar í fréttinni.

Í öllum umræðum og fréttum um umferðarslys er stór skekkja í öllum slysatölum í umferðinni ef stóraukið öryggi bílanna sjálfra, sem bílaframleiðendur hafa staðið fyrir, er ekki tekið með í reikninginn.

Það virðist ekki gert og meðan ekki er tekið tillit til þess, ofmeta menn árangur vegna annarra atriða og verða of sjálfumglaðir.  

Ómar Ragnarsson, 10.6.2014 kl. 12:30

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

P. S. Í framhaldi af athugasemd þinni bætti ég aðeins inn í bloggpistilinn beinni athugasemd við hina stóru tölu "allt að 40 mannslíf" og þakka þér fyrir að benda mér á það að eðlilegt væri að eitthvað af bloggpistlinum tengdist mbl.is fréttinni beint, enda fullt tilefni til.  

Ómar Ragnarsson, 10.6.2014 kl. 12:43

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég er ekki sammála ykkur. Þó öryggi bíla sé vissulega að aukast þá hefur umferð líka aukist. Í slysum þar sem fólksbílar skella framan á hvorum öðrum á 90-100 km. hraða, skiptir engu hvort árgerðin er gömul eða ný því nær undantekningalaust hlýst bani af slíkum árekstri.

Þórhallur nefnir að útafakstur hafi verið megin orsök banaslysa þarna. Hvers vegna svona mörg þannig slys? Var það ekki einmitt vegna þess að vegurinn hafði aðeins eina akrein í hvora átt. Mig grunar að framúrakstur hafi þar átt hlut að máli.

Og bíll sem endastingst útaf í hraunið á hundrað km. hraða... hversu líklegt er að nýr bíll komi í veg fyrir banaslys við slíkar aðstæður?

Gunnar Th. Gunnarsson, 10.6.2014 kl. 16:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband