Sálarlíf dýra og manna mun líkara en fyrr var talið.

Nú eru liðin um 30 ár síðan sálfræðingar fundu út mikil líkindi með mönnum og dýrum í sambandi við makaval. Fjallað var um þetta í margra blaðsíðna aðalgrein tímaritsins Time og forsíðufyrirsögn að auki.

Með þessu fékkst að hluta til skýring á svonefndum "gráum fiðringi" karla og því að konur löðuðust að hermönnum og valdamiklum mönnum, en hvort tveggja sögðu rannsakendur að væri algengt meðal apa og fleiri dýra.

Kvendýrið laðaðist oftast að öflugu karldýri, sem gæti varið það og afkvæmið. Byssa og hermannabúningur eru tákn um vald og þess vegna vaknar svipuð kennd hjá mörgum konum þegar þær sjá hermann.

Karldýrið laðast hins vegar oftast að kvendýri, sem er ungt og hraust og getur alið hraust og mannvænleg afkvæmi. "Grái fiðringurinn" væri dæmi um slíkt.   

Grænlenskir sleðahundar raða sér sjálfir í eykin þannig að öflugasti hundurinn er fremstur og er forystuhundur. Þegar einhverjum hundinum finnst, að hann eigi skilið að færast fram um eitt sæti í eykinu, ræðst hann á hundinn fyrir framan sig þegar hundarnir eru að hvíla sig.

Einvígið fer fram líkt og um menn væri að ræða, þ. e. að enda þótt hvor hundurinn um sig gæti drepið hinn fara þeir báðir að vissum mörkum og virða þau, þannig að báðir koma lítt skaddaðir úr átökunum.

Vinni aftari hundurinn skipta þeir sjálfkrafa um röð.

Hegðunin er ekki ósvipuð atferli fólks í prófkjörum eða persónukjöri í kosningum. Það er tekist á um röð eftir ákveðnum reglum og niðurstöðum hlítt.

Þar sem ég var í sveit að Hvammi í Langadal voru tíu kýr. Ein þeirra, Branda, mjólkaði mest og var stærst og hraustlegust. Hún var þar að auki greinilega fremst kúnna að gáfum, ef hægt er að nota svo stórt orð um vitsmuni dýra.

Branda var forystukýrin í hópnum og var á fremsta básnum í fjósinu. Kýrnar röðuðu sér í básana inn frá henni og fóru alltaf sjálfviljugar á sinn rétta bás.

Þegar kýrnar voru reknar út, fór Branda fyrst út og á leiðinni í hagann gekk hún fremst.

Í haganum létu hinar kýrnar Bröndu ráða því hvar þær bitu hverju sinni og Branda leiddi hópinn heim og gekk fremst þeirra inn í fjósið inn á fremsta básinn. Branda fann stundum á sér komandi veðrabrigði  og fór að færa sig fyrr en ella heim á leið þegar þannig stóð á.

Ég undraðist að dýr, sem talin eru heimsk, samanber lýsingarorðið nautheimskur, höfðu þó vit á að velja sér forystukú og nýta sér hæfileika hennar og atgerfi, rétt eins og gert er víða í mannheimum varðandi val á leiðtoga eða fyrirliða.

Enn eru vísindamenn að uppgötva líkindi með mönnum og dýrum sem við mennirnir getum stundum lært af og notað til að skilja betur okkur sjálfa og gerðir okkar.

Við erum nú einu sinni ekki ennþá orðnir fullkomnari en þetta.    

 

 


mbl.is Rottur finna fyrir eftirsjá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kýrskýrir menn hafa sumir hverjir komið með þá kenningu að valdamesta kýrin gangi ekki fremst það sé hættulegur staður vegna villidýra og hún sé því aðeins aftar. Sel ekki dýrara en ég keypti!

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 12.6.2014 kl. 01:27

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Rétt er það að eðli og hegðun dýra, eins og til dæmis hreindýra, fer eftir hættu á árás villidýra og hreindýrasérfræðingurinn Skarphéðinn Þórisson sagði mér að hegðun hreindýranna hér á landi miðist við tilvist villidýra, sem ekki eru hér á landi, en ráðast á hreindýr í Skandinavíu.

Spurningin er hvað það hefur að segja að íslenska kýrin á að baki 1100 ár hér á landi án þess að hafa átt á hættu árás villidýra og hefur kannski misst þessa eðlisávísun á þessum langa tíma þar sem hennar var ekki þörf.

Að minnsta kosti gekk Branda alltaf fremst og var það skynug, að hún vissi af reynslunni að það var alveg óhætt í landi, þar sem hvorki eru úlfar né skógarbirnir.  

Ómar Ragnarsson, 12.6.2014 kl. 02:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband