Samúð með "sárhnjáðum" Ronaldo.

Það þarf ekki annað en að virða Cristiano Ronaldo fyrir sér í kyrrstöðu til að sjá það þar fer íþróttamaður með mikinn metnað og ástríðu.

Enn betur sést þetta þegar kappinn tekur sína frægu spretti og sannar af hverju hann var valinn besti knattspyrnumaður heims síðast þegar það val fór fram.

Til er myndband af honum þegar hann etur kappi við afbragðs spretthlaupara í stuttum spretti, sem hefur að vísu betur á beinum spretti, en liggur alveg eftir ef hlaupið er í krókaleiðum um stangir líkt í í svigi á skíðum. Þá hefur Ronaldo yfirburði.

Hraðinn á boltanum í aukaspyrnu Ronaldus þegar hann kemur að markinu í illútreiknanlegum sveig mælist vera 130 km/klst.

En engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn og einn af þessum hlekkjum eru hnén.

Mjög er misjafnt hve vel þau endast og hnémeiðsl eru oft ólæknanleg.

Maðurinn var einfaldlega ekki skapaður til að hlaupa á sléttu og hörðu undirlagi tímunum saman og með miklu álagi.

Ég hef farið í þrjá uppskurði á hnjánum, einn öðrum megin og tvo hinum megin og þekki þetta nokkuð vel.

Læknirinn sagði mér að hrén væru ekki sköpuð fyrir þá meðferð sem þau hefðu fengið af minni hálfu allt frá unga aldri og gæti ég því sjálfum mér um kennt.

Einkum hefði það hefði verið ótrúleg heimska hjá mér að spila innanhússfótbolta með félögum mínum hjá Sjónvarpinu á steingólfi í KR-húsinu árum saman.

Og enn meiri heimska fyrir það sem Framara að leyfa steingólfi erkifjendanna að leika hnén svona illa!

65 ára höfðu hnén fengið nóg eftir síðasta 100 metra sprettinn á 15 sek og knattspyrnuleik í Eyjum daginn eftir og læknirinn skar mig upp í þriðja sinn og bannaði mér að hlaupa framar.

En hann bannaði mér ekki að læðast hratt, sem ég hef fært yfir í það að hlaupa upp stiga í kapp við klukku, enda ekki verri hreyfing fyrir hén en það að þau hanga ennþá, en þó oft afar aum.

Til þess að þola eymslin betur hef ég leitað að einhverju jákvæðu og fann nýyrðið "sárhnjáður" yfir þessi eymsli. Þegar eymslin eru hvað sárust nægir að segja þetta orð upphátt og það eitt kemur fram brosi og minnkar eymslin.

Ónýt hné eru auðvitað smámál fyrir gamlingja eins og mig miðað við það hvers konar stór-stórmál slíkt er fyrir mann eins og Ronaldo sem hefur hengt alla sína hagi og tilveru á þau.

Ég get því ekki annað en haft djúpa samúð með "sárhnjáðum" Ronaldo, vona að hann komist í gegnum þessa eldraun á HM og skil hann vel að reyna að komast framhjá banni læknis síns.   


mbl.is Ronaldo tekur mikla áhættu ef hann spilar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vinna sér inn frægð og fé

á fótunum þar byggja 

enda svo með ónýt hné

eftir á að hyggja 

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 20.6.2014 kl. 01:36

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Góður!

Ómar Ragnarsson, 20.6.2014 kl. 08:03

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Stakan sú minnir mig á stöku, sem til varð á konu- og kvæðakvöldi Lionsklúbbsins Ægis fyrir margt löngu. Guðmundur Guðmundarson henti fram fyrriparti til eins klúbbfélagans sem hafði gaman af hestum, og sá svaraði um hæl:

Ragnar oft í anda sé

uppi á truntubaki ...

                                  Ragnar svaraði:  

 ...Sá hefur hvorki frægð né fé

fengið af því skaki.

Ómar Ragnarsson, 20.6.2014 kl. 08:07

4 identicon

Það er óhjákvæmilegt að sömu hugmyndir skjóti upp kollinum í þessu afmarkaða formi stökunnar, ég hafði reyndar ekki svo ég muni heyrt þessa ágætu vísu þeirra Guðmundar og Ragnars.     Þegar næstum allt hefur verið ort áður þá getur orðið ansi þröngt bilið milli klisju og frumleika í vísnagerðinni.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 20.6.2014 kl. 12:01

5 identicon

ps. Seinni parturinn hans Ragnars hittir mig raunar óþægilega fyrir, svona efnislega!

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 20.6.2014 kl. 12:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband