Hjartaáfall við moldunina.

Líf og dauði fara sínu fram, hvar sem er og hvenær sem er ef því er að skipta.

Við jarðarfarir er aðeins einn sem er "í jarðarför", þ. e. líkið. Allir aðrir eru viðstaddir jarðarför og ætla mætti að þessi hlutverkaskipti væru nokkuð örugg.

Faðir minn heitinn mælti þó stundum: Enginn veit hver annan grefur."

Fyrir nokkrum árum var ég viðstaddur jarðarför jafnaldra míns og æskuvinar, Davíðs Helgasonar, sem hafði morgun einn hnigið örendur fram á morgunverðarborðið í hjartaáfalli.

Þegar presturinn bjóst til að molda hinn látna í jarðarförinni, varð heilmikið uppistand á fremsta bekk. Þar hneig einn kirkjugesta niður í hjartaáfalli.

Moldunin var stöðvuð og við tók hlé á athöfninni á meðan hlúð var að hinum sjúka og beðið eftir að sjúkralið kæmi til að flytja hann brott.

Ég hugsaði með mér: Maður er hvergi óhultur, ekki einu sinni sem kirkjugestur í jarðarför. Og mér varð líka hugsað til þess, þegar ég var eitt sinn hætt kominn á hvolfi ofan í ískaldri á um nótt í febrúar þegar ísskör brotnaði undan bíl mínum, alveg óvænt, og bílbelti bjargaði mér á aðeins eins kílómetra hraða.  

Mér komu orð föður míns í hug og til varð staka sem eftir tvær aðrar jarðarfarir vina minna, Bessa Bjarnasonar og Flosa Ólafssonar, varð að miðhluta í eftirfarandi sálmi, sem ég gerði síðan lag við: 

 

LJÚFUR DROTTINN LÍFIÐ GEFUR.  

 

Ljúfur Drottinn lífið gefur, -

líka misjöfn kjör

og í sinni hendi hefur

happ á tæpri skör.

Feigðin grimm um fjörið krefur.

Fátt er oft um svör.

Enginn veit hver annan grefur.

Örlög ráða för.  

 

En ég veit að orðstír lifir,

ást og kærleiksþel.

Sá, sem ræður öllu yfir

æ mun stjórna vel.

Vítt um geim um lífsins lendur

lofuð séu´hans verk.

Felum okkur í hans hendur

æðrulaus og sterk.  


mbl.is Lést fyrir utan kirkjugarðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: corvus corax

Góður að venju!

corvus corax, 21.6.2014 kl. 10:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband