Undravert "markamínútumark."

Fyrirbærið "markamínútan" hefur stundum verið nefnt og er þá átt við það hve oft mörk eru skoruð á  43. mínútu hálfleiks, eða réttara sagt í blálok hálfleiks eða leiks.

Ástæðan fyrir þessu er vafalaust sú að orkugeymir varnarleikmanna er orðinn nær tómur í lok hálfleiks, snerpa og viðbragðsflýtir á þrotum, og þá er meiri hætta á mistökum en ella.

Hið undraverða portúgalska jöfnunarmark í gærkvöldi var dæmigert fyrir þetta. Skönmu áður en það var skorað voru nokkrir leikmenn bandaríska liðsins að þrotum komnir. Einn þeirra lá örmagna um stund á vellinum rétt áður.

Slíkt jafngildir því að spila einum eða tveimur leikmönnum færri.

Bæði Ronaldo og sá, sem fékk snilldarsendinguna frá honum, voru samt valdaðir, hvor um sig með mann á sér sem áttu að koma í veg fyrir bæði sendingu og móttöku. Vegalengdin á milli sendanda og móttakara var mjög löng. Það átti ekki að vera mögulegt að skora þetta mark.

En hvorugur varnarmannanna sem áttu að valda Portúgalana tvo voru nógu viðbragðsfljótir.

Sending Ronaldos var tær snilld, ekki aðeins það hvernig hún fór á hárréttan stað fyrir framan koll viðtakandans heldur líka það hve snöggt Ronaldo sveiflaði fætinum í spyrnunni.

Aðeins Ronaldo getur gert þetta svona eldsnöggt og nákvæmt og það skapaði sekúndubrotið sem þurfti til þess að boltinn færi framhjá varnarmanninum sem gætti hans og var kannski ekki lengur með þá ofursnerpu sem þurfti til að komast fyrir svo snöggt skot.

Hinn varnarmaður Kananna var kannski líka á síðustu eldsneytisdropunum en jafnvel þótt hann hefði getað náð til boltans hefði það kannski bara orðið sjálfsmark, svo undrahröð og nákvæm var sendingin.

Snilld og heppni skópu þetta magnaða mark. En snilli og heppni fara oft saman og kallast meistaraheppni.  

Bandaríkjamenn eiga erfiðan róður fyrir höndum að mæta Þjóðverjum, því að gömlu stórveldin Þjóðverjar og Frakkar hafa sýnt styrk sinn á mótinu.

En kannski snýst heppnin Bandaríkjamönnum í vil,  - hver veit?  

 


mbl.is Klinsmann: Spiluðum einstaklega vel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband