23.6.2014 | 14:36
Ítrekað skilningsleysi á þjóðfélagsstraumum
Þegar Íranskeisari féll með brauki og bramli 1979 kom það leyniþjónustu Bandaríkjanna, vestrænum ráðamönnum og heimsbyggðinni mestallri algerlega á óvart.
Öflugustu fjölmiðlar heim höfðu hampað Resa Palevi sem stórkostlegum leiðtoga þjóðar, sem væri á leið inn í hóp öflugustu ríkja heims.
Raddir áhrifamanna í nokkrum nágrannaríkjum um það að í raun væri keisarinn gerspilltur og firrtur, haldinn fáránlegum veldisdraumum, drukknuðu í öllum lofsyrðaflaumnum.
Máttu menn þó vita að undir niðri sveið Írönum það sárt að hafa verið sviptir möguleikanum á því að komast undan áhrifavaldi Bandaríkjamanna og Breta þegar Mossadek var steypt af stóli eftir stríðið af því að hann hafði aðrar hugmyndir um nýtingu auðlinda landsins og uppbyggingu þjóðfélagsins þar.
Allt frá 1979 hafa vestrænar leyniþjónustur og ráðamenn sýnt ítrekað skilningsleysi á þjóðfélagsstraumum víða um heim.
Vietnamstríðið hefði þó átt að kenna Frökkum og Bandaríkjamönnum lexíu af skaðsemi þess að meta ástandið í fyrrum nýlendum eingöngu á mælistiku hagsmuna fyrrum nýlenduvelda með tilliti til stórveldapólitíkur, hvort sem það var í Kalda stríðinu eða eftir það.
Í raun snerist stríðið eins og mörg svipuð stríð um vilja undirokaðrar og arðrændrar þjóðar til að verða frjáls.
Þegar vopnuð átök brutust út á milli Víetnama og Kínverja varð almeningur á Vesturlöndum steinhissa. Honum hafði verið talin trú um að Kína og Vietnam væru í heilagri krossferð kommúnista til þess að ná heimsyfirráðum í krafti svonefndrar "dómínókenningar".
En margra alda togstreita milli Víetnama og Kínverjar er hugsanlega eini fasti punkturinn á svæðinu og enn verða átök þeirra á millum, þótt ekki sé beitt hervaldi.
Meðan Tító réði ríkjum í fyrrum Júgóslavíu héldu menn að ófriðarefni á Balkanskaga heyrðu til 70 ára gamalli sögu smærri styrjalda á skaganum.
Annað kom í ljós. Tító hafði pakkað ágreiningsmálum í krafti myndugleika síns og valds inn í ramgera púðurtunnu sem sprakk við tilkomu tómarúms valda i Júgóslavíu eftir andlát hans.
Langflest landamæri í Afríku og Asíu voru dregin af nýlenduveldunum, oft í ósamræmi við eðlileg mörk. Það var rétt hjá Saddam Hussein að Kuveit sem sérstakt ríki var slíkur tilbúningur nýlenduveldistímans.
Sér í lagi hafa menn vanmetið mátt trúarbragða og mismunandi túlkunar þeirra.
Bush eldri lagði ekki í að leggja Írak undir sig af því að ráðgjafar hans vöruðu við afleiðingunum af því að það myndi enda með ófyrirsjáanlegum afleiðingum af átökum Shia og Sunnímúslima.
Í valdabrölti og hagsmunaárekstrum hafa harðsnúnir ofstopamenn oft nýtt sér mátt ofsa- og öfgatrúarhópa eins og nú sést glögglega í Írak í atburðarás, sem enginn á Vesturlöndum virtist geta séð fyrir.
Hugsanlega eru Írak og jafnvel fleiri fleiri lönd á svæðinu að liðast í sundur í áhrifa- og yfirráðasvæði mismunandi trúar- og valdahópa eða að ný landamæri eru að verða til.
Við siglum inn í öld þar sem valda- og hagsmunapólitík og trúarbrögðum er blandað saman í banvæna blöndu.
Slík átök hafa ekki öll verið jafn fjarri Íslandsströndum og bundin eingöngu við mismunandi afbrigði af öðrum trúarbrögðum en kristinni trú eins og okkur hættir við að halda.
Blanda átaka Íra og Englendinga og kaþólikka og mótmælenda á Norður-Írlandi fyrir örfáum áratugum eru gott dæmi um átök, þar sem mismunandi afbrigði sömu trúar eru notuð til að skipta fólki í fylkingar.
Og Evrópuþjóðir háðu mörg grimmileg stríð undir formerkjum afbrigða af trúarbrögðum, eins og 30 ára stríðið er kannski hvað besta dæmið um.
Í öllum trúarbrögðum er að finna sterkan undirtón um frið og farsæld. En jafnframt hefur einstökum mönnum og hópum ævinlega tekist að finna sér túlkun á einstökum atriðum í kenningum þeirra, sem þeir hafa notað til að réttlæta illindi, átök, árásir og styrjaldir.
Þetta er enn ógnvænlegra vegna tilvistar kjarnorkuvopna sem getur eytt mannkyninu og mestöllu lífi á jörðinni. Þau eru lúmskasta og versta ógnin.
Hundruð fallið í átökunum í Írak | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ekki má nú gleyma Framsóknarflokknum í þessu samhengi.
Þorsteinn Briem, 23.6.2014 kl. 14:51
Tja, - framsóknarmenn myndu kannski benda á hin múslímsku alheims-friðar-trúarbrögð í þessu samhengi. Flestir sem falla í Írak eru jú múslímar drepnir af múslímum, og svo hefur lengi verið.
En mikið er ég sammála Ómari með það að hagsmunapólítík og trúarbrögð eru banvæn blanda. Svo hægt að krydda það með "sjarmerandi" diktatórum sem margir þekkjast, blanda smá með hefndum, krydda enn meir með fáfræði, og svo videre.
Ástæðan fyrir seinni heimsstyrjöld? M.a. óklárað dæmi frá þeirri fyrri?
Ástæðan fyrir seinna Íraksstríði? Það að menn voru ekki að læra af fyrrnefndu dæmi?
Ástæðan við friði við Japani eftir seinna stríð? Afar góð greining Bandaríkjamanna á mikilvægi keisarans?
Stundum er það eina sem við getum lært af sögunni bara það að við lærum ekkert á sögunni....
Jón Logi (IP-tala skráð) 23.6.2014 kl. 15:18
Ekki má nú heldur gleyma kristnu "alheims-friðar-trúarbrögðunum" í heiminum fyrr og síðar.
Þorsteinn Briem, 23.6.2014 kl. 15:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.