26.7.2014 | 10:38
Þröngsýni eða víðsýni, minjar eða smekkleysa?
Ævinlega þegar valdaskipti verða koma upp raddir um að afmá sem mest af því sem fyrri valdhafar hafa komið í verk og fellur ekki í kramið hjá þeim, sem náð hafa völdum í það og það sinn.
Við sjáum fullt af þessu í nútíð og fortíð.
Af og til kemur upp umræða um það að taka danska konungsmerkið niður af Alþingishúsinu og setja upp eitthvað íslenskara í staðinn.
Hér á landi hafa sumir viljað afmá minjar um Kalda stríðið og jafnvel Heimsstyrjöldina síðari á borð við rústir ratsjárstöðva, vatnsturn í Kaldaðarnesi eða gamla flugturninn í Reykjavík.
Kommúnistar í Rússlandi létu breyta nafni St. Pétursborgar í Leningrad þegar þeir náðu völdum og þegar þeir misstu völdin var því breytt til baka og nafni Stalingrad var breytt í Volgograd.
Sem betur fer lenti nafn Leningradsinfóníunnar ekki í þessari hakkavél.
Kommúnistar létu gera sovéskan þjóðsöng sem átti að afnema þegar þeir misstu völd og gera nýjan í staðinn.
Sem betur fór misheppnaðist þessi aðför að einum flottasta þjóðsöng heims og hann lifir góðu lífi.
Mörgum var og er í nöp við þýska þjóðsönginnn af því að nasistar notuðu hann eins og allir Þjóðverjar frá tímum sameiningar þýsku ríkjanna á 19. öld. En "Þýskaland ofar öllu" var upphaflega ákall um að sameina öll hin mörgu þýsku ríki í eitt og af sama meiði og sameining Ítalíu.
Skoða ber hin umdeilanlegu orð í söngnum í því sögulega samhengi að mínum dómi.
Þegar kommúnistar náðu völdum í Eþíópíu vildu sumir þeirra ráðast gegn helgistöðum kristnu koptanna.
Kirkjuleg djásn í Kreml voru sumum bolsévikanna þyrnir í augum við valdatökuna í rússnesku byltingunni.
Sem betur fór fengu þessir harðlínumenn ekki sitt fram.
Á langri valdatíð sinni í Reykjavík fengu Sjálfstæðismenn því ráðið að umdeilanlegt málverk af Bjarna Benediktssyni væri sett upp í fundarherberginu fræga í Höfða.
Svo féll meirihlutinn 1994 og upphófst barnaleg togstreita um þetta málverk, sem ýmist var tekið niður eða sett upp aftur.
Ég segi "barnaleg togstreita", því að í öllum fyrrnefndum efnum tel ég að menn hefðu átt að láta það kyrrt að fara að hringla í hlutunum, heldur hefja sig upp fyrir dægurþras og gera sér grein fyrir því hvað eru sögulegar minjar og hvað ekki.
Með því að taka þessa afstöðu er ég ekki að taka afstöðu með eða á móti Pétri mikla, Stalín eða Jeltsín, með eða á móti harðsvíruðustu kommunum í Eþíópíu, með eða á móti Danakonungum eða með eða á móti hinum þaulsætna borgarstjórameirihluta Sjallanna í Reykjavík á sinni tíð.
Pétur mikli og verk á hans vegum, verk Sovéttímans, verk kennd við Danakonunga, svo sem Skansinn í Vestmannaeyjum og merkið á Alþingihúsinu, rústir frá stríðsárunum og árum Kalda stríðsins og verk gengins borgarstjórnarmeirihluta í Reykjavík eru sögulegar minjar, sem ekki er hægt að afneita og ekki á að afneita.
Eftir að leiðtogafundurinn frægi var haldinn í Höfða er málverkið af Bjarna Ben, hversu smekklegt eða ósmekklegt sem mönnum kanna að finnast það, hluti af minjum í heimssögunni, hvort sem okkur líkar það betur eða ver.
Málverk á vegg í Höfða á ný? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sigurjón Egilsson hefur annað sjónarhorn en Mogginn á málverkið:
http://midjan.is/20140726/gamaldags-og-hjakatleg-foringjadyrkun/
Baldur Ragnarsson (IP-tala skráð) 26.7.2014 kl. 11:16
Sammála þér Ómar - síðasta málsgreinin þín segir allt sem um þetta er að segja.
Fyrir mér er þetta er ekki bara "Barnaleg togstreita". Ég legg þetta að jöfnu við óþverraverknað þeirra sem í nótt brutu allt og brömluðu hjá "Kaffi Gæs"
Þorkell Guðnason, 26.7.2014 kl. 15:25
Málverkið af Bjarna Benediktssyni er ekki hluti af innréttingunni í Höfða, sem reist var árið 1909, en Reykjavíkurborg keypti húsið árið 1958.
En menn geta að sjálfsögðu haft þá skoðun að málverkið eigi að vera á sama stað og á leiðtogafundinum árið 1986.
Kóróna og merki Kristjáns IX á þaki Alþingishússins eru hins vegar hluti af húsinu.
Og verk í kommúnískum anda eru hluti af skreytingum á lestarstöðvum neðanjarðar í Moskvu.
Leningrad hét Sankti Pétursborg fyrir árið 1914 og borgin fékk aftur það nafn þegar Sovétríkin hrundu árið 1991.
Nikita Krústsjoff, leiðtogi Sovétríkjanna, breytti hins vegar nafni Stalingrad í Volgograd árið 1961.
Og gott að einhverjir telji það ekki barnalegt að leggja að jöfnu skemmdarverk á Kaffi Gæs við það að taka niður málverk af Bjarna Benediktssyni.
Þorsteinn Briem, 26.7.2014 kl. 17:13
Er ekki enn skylda að nota 1% af byggingarkostnaði opinberra bygginga til að kaupa listaverkaskraut?
og því allar geymslur fullar af alskonar lisaverkadrasli sem enginn vill sjá
Grímur (IP-tala skráð) 26.7.2014 kl. 17:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.