15.8.2014 | 10:59
Geysi skemmtileg íþrótt fyrir áhorfendur.
Sé veður heppilegt er afar skemmtilegt að horfa á torfærukeppni. Þetta fékk ég að reyna fyrir nokkrum vikum þegar keppt var fyrir utan Egilsstaði í móti, sem var hluti af mótaröð, sem gefur stig til Íslandsmeistaratitils.
Hér á landi hefur myndast harðsnúinn hópur manna sem kann vel til verka við að halda svona mót, en það er mjög flókið og vandasamt starf, og er aðdáunarvert hve langt menn hafa komist í því.
Lagning keppnisbrautanna er orðin háþróuð og býður upp á dramatíska og æsilega tilburði í akstrinum.
Ekki þarf að fjölyrða um færni keppendanna og snilld í smíði keppnisbíla því að þar erum við Íslendingar búnir að vera í forystu um árabil, eða allt frá því er Árni Kópsson umbylti gerð bílanna með Heimasætu sinni.
Það sýnir, hve langt sá bíll var á undan samtíð sinni, að hann er enn gjaldgengur í keppni, þótt nú megi sjá merki þess að önnur bylting sé að verða í smiðinni.
Ýmis atriði má nefna, en liklega eru þrjú mikilvægust.
1. Stórfelld létting bestu bílanna.
2. Sjálfberandi heilsoðin bygging.
3. Tilkoma nýrrar meginhönnunar, þar sem vélin er færð aftur fyrir ökumanninn inn að miðju bílsins.
Þetta síðastnefnda er svipuð hugsun og í gerð bestu formúlu kappakstursbíla, en með því að hafa vélina þétt við bakið á ökumanninum, eru þyngdarpunktar tveggja þyngsu hluta bílsins, ökumannsins og vélarinnar, færðir eins nálægt hvor öðrum og miðju bílsins og unnt er.
Í síðustu tveimur mótum hefur einn bílanna verið með þessu byggingarlagi og sannað gildi þess, bæði hvað varðar getu bílsins og það hve miklu léttari og samþjappaðri hann getur verið fyrir bragðið.
Nokkrir höfðu á orði þegar bíllinn birtist fyrst að það væri nánast móðgandi að koma með keppnisbíl með helmingi minni fjögurra strokka vél en er í hinum bílunum, en þær raddir hljóta nú að þagna, því að litlu munaði að sigur ynnist á þessum bíl.
Nú er spurningin um hvort fjórða byltingaratriðið, sjálfstæð fjöðrun, kemur til skjalanna.
En þar þarf að leysa afar erfið tæknileg vandamál, sem sennilega verður erfitt að fást við.
Sumir átelja keppni í bílasporti á þeim forsendum að þar sé bruðlað með orku i orkuþyrstum heimi.
En ef tölurnar eru skoðaðar sést að yfir 99% af eldsneytiseyðslu bílaflota heimsins felst í almennri umferð og snatti.
Bílasport felst í því að kunna að gera sér dagamun, líkt og felst í því að borða kræsingar á stórhátíðum, þótt sultur sé í heimininum.
Árangur í orkusparnaði og nýtingu matvæla byggist á því að taka á þessum atriðum í daglega lífinu þar sem 99% af möguleikunum er að finna.
Stærsta torfærumót Íslandssögunnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
"En ef tölurnar eru skoðaðar sést að yfir 99% af eldsneytiseyðslu bílaflota heimsins felst í almennri umferð og snatti."
Það er auðvelt að henda fram svona fullyrðingu án þess að geta heimilda. Til hvaða talna er verið að vísa og hvaðan eru þær fengnar? Hvað felst t.d. í skilgreiningunni almenn umferð? Er það almennir borgarar að aka fólksbílum eingöngu vegna eigin þarfa, þ.e. akstur til og frá vinnu og vegna ferðalaga í frístundum? Eða fellst í þessu allur atvinnuakstur allra bíla með vörur og fólk, og akstur þjónustuaðila í atvinnuskyni, t.d. ferðir rafvirkja, pípara, kvikmyndagerðarmanna, landmælingafólks, sölumanna, o.fl., o.fl. sem atvinnu sinnar vegna þurfa að aka á milli staða?
Ég leyfi mér að efast um á þessari stundu að atvinnutengdur akstur sé minna en 99% af eldsneytiseyðslu bílaflota heimsins. Hér er þörf ítarlegri upplýsinga.
Erlingur Alfreð Jónsson, 15.8.2014 kl. 13:02
"Bílasport felst í því að kunna að gera sér dagamun, líkt og felst í því að borða kræsingar á stórhátíðum, þótt sultur sé í heimininum."
Ja, sumir eru heilagari en aðrir segi ég nú bara!
Erlingur Alfreð Jónsson, 15.8.2014 kl. 13:03
"Bílasport felst í því að kunna að gera sér dagamun, líkt og felst í því að borða kræsingar á stórhátíðum, þótt sultur sé í heimininum."
Ja sumir eru heilagari en aðrir segi ég nú bara!
Erlingur Alfreð Jónsson, 15.8.2014 kl. 13:08
Sameinuðu þjóðirnar hafa ákveðið að veita Ómari Ragnarssyni áminningu fyrir að graðga í sig kræsingar á jólunum, þrátt fyrir sult í heiminum.
Þorsteinn Briem, 15.8.2014 kl. 17:11
Ómar Ragnarsson hefur graðgað í sig fíkniefnin kók og prins fyrir 16 milljónir króna á núvirði, miðað við 50 þúsund 39 gramma Prins Póló á 70 krónur stykkið og 50 þúsund kók fyrir 250 krónur flöskuna.
"Ég hef áður greint frá þeirri niðurstöðu eigin rannsóknar að frá 1955 hafi ég innbyrt þúsund Prins Póló á ári að meðaltali, eða minnst 50 þúsund stykki alls."
"Þetta gerðist vegna deilna okkar við Breta út af útfærslu landhelginnar."
Þurfti ekki auglýsingu til að éta 50 þúsund stykki - 2 tonn!
Þorsteinn Briem, 15.8.2014 kl. 17:29
Það má ekki gleyma því, að margar nýjunar og mikið af þróun í bílaiðnaðinum verður til í tengslum við kappakstur og því mætti alveg færa rök fyrir því að kappakstur geti dregið úr notkun á auðlindum. Kappakstur er kjörinn vettvangur til að prófa nýjungar. Meira afl er jú fengið með betri nýtingu á eldsneyti.
Heimurinn er ekki alveg eins klipptur og skorinn og margir vilja meina.
Kristinn Magnusson (IP-tala skráð) 16.8.2014 kl. 01:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.