9.10.2014 | 22:45
Tyrkir horfa á 2014. Rússar horfðu á 1944.
Þegar Rauði herinn var kominn að Varsjá í júlílok 1944 hófu borgarbúar uppreisn gegn Þjóðverjum.
Þá höfðu Rússar sótt samfellt á breiðri víglínu í vesturátt í eitt og hálft ár og við blasti að ekkert gæti stöðvað sókn þeirra.
En Rauði herinn aðhafðist ekkert til aðstoðar Varsjárbúum, þótt aðeins væri 5 mínútna flug frá næsta flugvelli, sem Rússar höfðu á valdi sínu, til borgarinnar.
Þjóðverjar fengu að murka niður uppreisnarmenn óáreittir, meðal annars með risastórum Tiger skriðdrekum sínum og fallbyssum, án þess að Stalín skeytti hið minnsta um sárbeiðni Churchills um að leyfa Bretum og Bandaríkjamönnum að hjálpa Pólverjum í samstarfi við Rússa.
Það var ekki fyrr en eftir fimm mánaða kyrrstöðu við borgina sem Rússar sóttu loks inn í hana og 85% borgarinnar var þá í rúst. Mannfall Pólverja í stríðinu var hlutfallslega hið langmesta hjá nokkurri Evrópuþjóð, sex milljónir manna.
Þessi hegðun Stalíns og Rússa er af mörgum talin ein skammarlegasta aðgerð stríðsins, svo einkennilega sem það kann að hljóma að aðgerðarleysi sé í raun jafngild aðgerðar, vegna þess að hún þjónaði þröngum hagsmunum Rússa um að ráða lögum og lofum í Póllandi eftir stríðið og þá yrði það auðveldara eftir hina miklu pólsku fórn, sem varð til einskis, veiklaði þjóðina og felldi hugdjörfustu baráttumenn hennar.
Þjóðverjar höfðu árið áður brytjað niður Gyðinga í Varsjá og Adolf Eichmann sagði að takmark Hitlers hefði verið alger útrýming Gyðinga, alls 10,5 milljóna manna.
Stalín varð æ hræddari við Gyðinga á síðustu árum sínum, og var því feginn hve margir rússneskir Gyðingar fluttu til Ísraels. Þess vegna studdu Rússar stofnun Ísraelsríkis og báru jafn mikla ábyrgð á því að Bretar, Frakkar og Bandaríkjamenn, þótt fáir muni eftir því nú
Líkt og Gyðingar hafa búið í mörgum löndum hafa Kúrdar ekki búið í einu landi heldur fjórum og eru illa séðir af valdhöfunum í þeim öllum, af því að þeir vilja viðhalda yfirráðum sínum yfir búsvæðum Kúrda og auðlindum þeirra.
Kúrdar eru um eða yfir þrisvar sinnum fleiri en Gyðingar voru og flækja því alla pólitík á búsvæðum sínum verulega.
Níðþröng og miskunnarlaus sjónarmið ráða hegðun ríkisstjórna þessara landa varðandi Kúrda.
Þeim kann í afmörkuðum tilfellum að vera ósárt um þótt Kúrdar veiki stjórnvöld nágrannaríkjanna, ef það aðeins styrkir þeirra eigin stöðu. Svipuð hugsun og hjá Stalín varðandi Pólverja.
Hverju ríki um sig hentar það vel að Kúrdar hafi sig hæga innan sinna landamæra en að hin þrjú ríkin berjist við Kúrda þannig að bæði Kúrdar og þessi þrjú ríki veiklist við það.
Þetta er eigingjörn og ljót utanríkispólitík eins og hún verður verst. Bandaríkjamenn og NATO sárbiðja Tyrki um hjálp til handa Kúrdum og Bandaríkjamenn og Bretar sárbáðu Rússa um hjálp 1944.
Í báðum tilfellum er beiðnunum neitað af miskunnarleysi.
Þess vegna horfa Tyrkir aðgerðarlausir á það að Kúrdar séu murkaðir niður af villimennsku íslamistanna rétt eins og Rússar voru aðgerðarlausir þegar Pólverjar voru murkaðir niður af villimennsku nasistanna.
Þessi ljóti leikur er leikur að eldi þar sem tekin er mikil áhætta, en samt viðgengst hann nú, rétt eins og fyrir réttum 70 árum.
Ofsótt þjóð á braut sjálfstæðis | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þar sem ég er búsettur erlendis get ég ekki skroppið niður í bæ til að mótmæla og velti því þess vegna fyrir mér hvort ekki sé skari manns við mótmæli eins og fyrr í ár?
Erlendur (IP-tala skráð) 9.10.2014 kl. 23:04
Líttu á þetta frá sjónahorni Tyrkja:
Af hverju eiga þeir að *gera innrás* í annað land, og setja *eigin mannskap* í hættu til þess að bjarga *útlendingum* sem þeim er *illa við?*
Vegna þess að Kúrdar búsettir í Sýrlandi eru... ekki tyrkir. Magnaður andskoti, ekki satt?
Kannski gera Kúrdar einn daginn uppreisn, og bús þá til sitt eigið land. En það gæti verið bið eftir því, miðað við hvernig þetta gengur hjá þeim. Samt, maður fyrir mann eru þeir talsvert öflugri en ISIS.
Ásgrímur Hartmannsson, 9.10.2014 kl. 23:36
Spilar án efa inní að tyrkir hafa löngum átt í átökum við kúrda, eða allavega hluta þeirra ss. PKK sem hafa m.a beitt terror í Tyrklandi.
Sá á SKY að einhver spekingur sagði að tyrkir settu kúrdum skilyrði. Að þeir létu af sjálfstæðistilburðum innan Tyrklands.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 9.10.2014 kl. 23:44
Kurdar eru einsog Palestinumenn. Þeirra land var rænt af þeim og skipt á milli 4 ríki að tilskipan Brétland og Frakkland. Stórveldið BNA mun aldrei samþykka að þessi þjóð yrði sjálfstætt. Þeirra leiðtogi Ojalan er í fangelsi í týrklandi. Þeirra frélsisbarátta samtök PKK er á hryðjuverkalistinn. Afskipti BNA og Nato ríki í Iraq og Syrlandi núna er ekki til að bjarga neinum. Það er til að trygga þeirra hagsmunum.
Salmann Tamimi (IP-tala skráð) 10.10.2014 kl. 00:03
Mér finnst þeir nú skammsýnir Tyrkirnir þar. Þetta er í skotfæri við landamæri þeirra, og ætli ISIS sé neitt sérstaklega að verja þau? Og hvað þá, - jú, þá eru þeir í NATO...
Jón Logi (IP-tala skráð) 10.10.2014 kl. 08:27
Virkilega fín vangavelta Ómar.
Snorri Hansson, 10.10.2014 kl. 14:01
"As many as 138,000 Syrian Kurds have poured into Turkey since September 19 fleeing the latest ISIS offensive in northeastern Syria, according to the United Nations's refugee agency, UNHCR."
Kurdish refugees in Turkey - The faces of Syria's refugees
Þorsteinn Briem, 10.10.2014 kl. 14:30
Eg held margir séu að ofmeta hernaðarlegan styrk þessa ISIS. Eg hef enga trú á getu þeirra til að td. að ógna Tyrklandi á nokkurn hátt. Virka soldið sem fávitar þessir ISIS menn.
Hinsvegar get eg alveg skilið að tyrkir vilji hafa varann á gagnvart kúrdum - í ljósi sögunnar.
Og þá burstséð frá því hvort réttlætanlegt eða sanngjarnt væri að kúrdar hefðu sitt ríki. Jú jú, það meikar alveg sens að kúrdar væru sjálfstæð þjóð. Hafa flest skilyrði til þess eða þann grunn sem gjarnan er talið nauðsynlegt til að vera sjálfstæð þjóð.
Spurningin er þá, hvaða landsvæði þeir eiga að fá eða hversu víðtækt það eigi að vera. Tyrkir vilja örugglega ekki gefa tommu af Tyrklandi undir slíkt.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 10.10.2014 kl. 15:14
Tyrkir eru í fallbyssu-fjarlægð frá hersveitum ISIS.
1 km er fjarlægð nóg til að pakka saman skriðrekasveitum ISIS, gera "barrier" með stórskotaliði. Langt innan við getu fyrri heimsstyrjaldar. Í stuttu máli, - þeir hafa alveg getu til að stoppa ISIS langt frá landamærunum án þess að fara yfir þau.
Það myndi hjálpa Kúrdum til að halda sig innan landamæra í stað þess að hrekjast til Tyrklands.
Jón Logi (IP-tala skráð) 10.10.2014 kl. 20:12
Tyrkir eru milli steins og sleggju. Ef þeir gera ekkert og trúarbrjálæðingum vex fylgi þá geta lýðræðisöfl eða kanski ætti að segja borgaraleg öfl í Tyrklandi farið halloka fyrir ofsatrúarmönnum þar í landi.
Ef Tyrkir á hinn bóginn fara með hernaði inn fyrir landamæri Sýrlands að skakka leikinn milli uppreisnarafla þar þá eru þeir búnir að segja A og verða í framhaldinu að segja B, hvað eiga þeir að gera ef þeir fara inn og stöðva ISIS?
Segja við Kúrdana "geriði svo vel hér er borgin ykkar og sjálfstæði gagnvart Assad við erum farnir til baka"?
Líklegast myndu Tyrkir dragast inn í ófriðinn í Sýrlandi en með ekkert markmið í framhaldinu!
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 11.10.2014 kl. 00:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.