15.10.2014 | 07:57
Vindurinn að byrja að hreinsa. Afar lúmsk hætta.
Í gærkvöldi sást fyrst til gosstöðvanna í Holuhrauni úr vefmyndavél milu á Vaðöldu. Þetta eru góðar fréttir því að áttleysan undanfarna daga hefur skapað afar varasamt ástand á stóru svæði í þarna í kring vegna gasmengunar.
Gasið hefur safnast saman yfir landinu í stað þess að fjúka í burtu, en nú er að koma austanátt sem er að byrja að létta ástandið.
Þessi gasmengun getur verið alvarlegra mál en virðist í fljótu bragði og er í raun alveg nýtt fyrirbrigði hér á landi í meira en heila öld, jafnvell allt frá Móðuharðindunum.
Þótt gasið muni nú fara að breiðast til vesturs verður þó hreyfing á því í stað þess að það safnist saman yfir landinu eins og verið hefur undanfarna daga og vindurinn færir það rólega vestur af landinu.
Síðustu daga hefur gas farið yfir heilsuverndarmörk á mun stærra svæði en fyrr og orðið allt að fjórum sinnum yfir mörkum á stöðum, sem áður voru alveg lausir við mengun.
Svona gaseitrun getur verið afar lúmsk, því að gasið er ósýnilegt og sjúkdómseinkenni koma fram fyrr en eftir viku.
Gasið fer í lungun og við það að komast í snertingu við raka í lungunum, myndar það blöðrur í þeim. Það er ekkert grín.
Ég hef enn ekki lokað Sauðárflugvelli fyrir veturinn og hann hefur verið og er mikilvæg bækistöð fyrir mig.
Þegar ég var þar síðast yfir nótt fyrir skemmstu, ók ég í norður frá vellinum upp á hæð til að losna örugglega við megin gasstrauminn og forðast að vera á flatlendi þar sem hið ósýnlega gas getur safnast saman af því að það er þyngra en andrúmsloftið og sígur niður í lægðir.
Allur er varinn góður þegar svona lúmskur óþverri er annars vegar.
Að lokum má minna á hvimleiða viðleitni okkar tíma til að flækja mál með óþarfa málalengingum í eins konar nútíma kansellístíl. "Útlit fyrir lítil loftgæði" er yfirskrift tengdrar fréttar á mbl.is
Í minni sveit í gamla daga hefði verið sagt: "Útlit fyrir óloft". "Óloft" er tvö atkvæði, en "lítil loftgæði" fimm atkvæði.
Útlit fyrir lítil loftgæði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.