27.11.2014 | 19:41
Smálútskýring: Flýg ekki yfir gígbarma eða ofan í gjósandi gíga.
Myndir af loftförum nálægt spúandi eldgígum kalla á útskýringar á því hvernig slíku flugi er háttað, því að annars mætti halda að flogið sé beint yfir gígbörmum og jafnvel ofan í gígunum sjálfum.
Þegar loftför eru á ferð utan eða neðan við svonefnd flugstjórnarsvæði sjá flugmenn sjálfir um að tryggja aðskilnað loftfaranna á bylgjunni 118,1.
Holuhraun liggur inni á milli fjallahrings, Dyngjuháls og Trölladyngju í vestri, Dyngjufjalla, Öskju og Vaðöldu í norðri, Fagradalsfjalls, Kverkfjallarana og Kverkfjalla í austri og Dyngjujökuls og Bárðarbungu í suðri.
Þar er aðeins hægt að ná radíósambandi á milli loftfara niðri á svæðinu eða við flugvélar sem fljúga hátt yfir landinu og eru yfirleitt í áætlunarflugi langt fyrir ofan svæðið sem er utan flugstjórnarrýmis Flugstjórnar.
Í fluginu við eldstöðina skiptu flugmennirnir þrír í gær með sér flughæðum, sá lægsti var í 3500 feta hæð eða um 1000 fetum hæð ofar en Baugur, þar fyrir ofan var loftfar í 4000 feta hæð og hið þriðja í 4500 feta hæð eða ofar.
Ragnar Axelsson og Einar Dagbjartsson flugu fyrst í neðstu flughæðinni og um borð í flugvélinni sem ég flaug voru Friðþjófur Helgason og Alma Ómarsdóttir.
Eftir að við vorum búin að taka myndir af flugvél RAX og Einars, sem bíða sýningar, var skipt um hlutverk og RAX tók myndir af okkur með því að hækka sig upp fyrir 4500 fet á meðan ég var í 3500 fetum.
Myndirnar sem teknar voru ofan frá í báðum tilfellum voru teknar með talsverðum aðdrætti þannig að eldstöðin og gígurinn sýnast miklu nær myndatökumönnunum en raunveruleikinn er.
Þar að auki er myndin tekin á ská niður, en með því móti er hægt að láta neðri flugvélina bera við gíginn eins og hún sé yfir gígbarminum eða jafvel ofan í gígnum.
Með því að taka myndina í drjúgri hæð sjást stærðarhlutföll milli flugvélar og eldstöðvar betur en ef mynd er tekin nálægt flugvélinni, sem myndin er af.
Flogið er þeim megin við eldstöðina sem vindurinn kemur frá og bægir heitu uppstreymislofti gígsins frá, en ekki flogið þeim megin sem heita lofti fer yfir.
Í gær var vindur á vestan og nógu mikill til að það myndaðist sandfok á Jökulsárflæðum.
Til þess að geta náð myndum eins og náðust fyrir viku þarf mikinn aðdrátt, en það kallar á að flugvélin fljúgi í gegnum stöðugt en ekki óstöðugt.
Þess vegna hef ég aldrei í þessu eldgosi eða öðrum eldgosum flogið yfir gígbarma, hvað þá ofan í gígana sjálfa þótt það kunni að sýnast svo á myndum sem teknar eru með miklum aðdrætti. Ef svo hefði verið að frá upphafi kvikmyndatökuferða minna yfir eldgos, væri ég ekki að blogga þetta núna heldur hefði ég farist þegar í Heklugosinu 1970 og misst af þeim 24 gosum sem komið hafa síðan.
Myndasyrpa RAX úr Holuhrauni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ómar hann er undrakall,
on'í gígum flýgur,
upp úr þeim þar eldur vall,
aldrei Mogginn lýgur.
Þorsteinn Briem, 27.11.2014 kl. 19:57
27.11.2014 (í dag):
Hagvöxturinn byggist á vexti ferðaþjónustunnar
Þorsteinn Briem, 27.11.2014 kl. 20:12
En er ekki röff yfir svona heitu hrauni?
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 27.11.2014 kl. 22:05
Jú, getur verið "banaröff" eins og sagt er á slangurmáli flugmanna, en það fer alveg eftir vindi og vindátt hvar ókyrrðin er. Ef vindur er stöðugur og hæfilega mikill stígur heita loftið af hrauninu upp á ská undan vindinum og þá er hægt að fljúga því lengra inn yfir hraunjaðarinn sem flogið er hærra og vindurinn er kaldari og jafnari.
Dæmið verður mun flóknara á heitum sumardögum þegar auka uppstreymi er af dökkum söndum, eldri hraunum eða dökkgrænni gróinni jörð.
Ómar Ragnarsson, 27.11.2014 kl. 23:14
Það var nú alltaf rólegt loft oní gatinu á Eyjó, þótt að fúlt hafi lyktað lagsi :)
Jón Logi (IP-tala skráð) 28.11.2014 kl. 16:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.