Tvö fíkniefni í einni vöru: Hvítasykur og koffein.

Það eru til matvörur eða drykkir sem innihalda fleiri hitaeiningar en gosdrykkir og ætti því að vega þyngra í fitandi mataræði en þeir. En gosdrykkirnir eru svo lúmskir vegna þess að um þá má oft segja tvennt og þá stundum að hvort tveggja fari saman:

1. Magn neyslu þeirra sé svo mikið þegar allt er lagt saman að það vegur þyngst sem orsakavaldur offitu. 

2. Í neyslunni séu gosdrykkirnir dropinn sem fylli mælinn, þ. e. að án þeirra myndi fituvandamálið verða mun minna eða jafnvel ekkert. 

Sérlega lúmsksir eru kóladrykkirnir því að þeir eru svo ávanabindandi sem fíkniefni. 

Þegar litið er á listann yfir innhaldið eru tölurnar yfir hitaeiningar og kolvetni ekkert óskaplega háar miðað við margt annað. Aðrar tölur eru núll í stað þess að oft eru lygilegar fitutölur, svo sem í súkkulaðivörum. En dropinn holar steininn segir máltækið og þegar maður skoðar hve mikið magnið er í raun yfir daginn, sem innbyrt er í kóladrykkjum, koma óþægilegar tölur í ljós. 

Ég var að prófa að drekka svoneft Kókakóla life núna áðan, en það er selt í grænum dósum.

Sá að aðeins 6,7 grömm af kolvetni og 27 hitaeiningar eru í hverjum 100 ml.

 Greinilega viðleitni hjá framleiðandanum til að framleiða drykk með það litlu af kolvetnum, að það gæti ekki talist skaðlegt að drekka þetta að staðaldri. 

Ég hélt sjálfur að það væri kannski nóg til að uppfylla fíknina eftir hvítasykri, svo að ég prófaði að drekka úr einni dós.

En svo var ekki, mér fannst ekkert varið í drykkinn og fylltist strax löngun til að drekka "the real thing".  

Sem kannski er trixið, því að þegar ég drakk "ósvikið" "the real thing" kók á eftir fannst mér munurinn koma heldur betur í ljós og ég fá það sem líkaminn kallaði á, því að "kikkið" felst í því að fá lágmarksmagn af fíkniefnunum tveimur, hvítasykri og koffeini, 50% meira af kolvetni og hitaeiningum en í Kók life.

Málið snýst um fíkn og fíkla. 

Þetta vita framleiðendurnir, - annars væru þeir ekki með slagorðið "the real thing", - fíklarnir heimta sitt magn og engar refjar.  

Fyrir aldarfjórðungi prófuðu Kókakólaverksmiðjurnar að hafa koffeinlaust kók á boðstólum.

Koffein á að heita bragðlaust og því hefði mátt ætla að þetta gæti selst eins vel og "alvöru" drykkurinn, neytendurnir myndu ekki finna muninn. 

En tilraunin misheppnaðist gersamlega. Fíklar eins og ég fundu muninn og létu ekki plata sig. 

Það sem stendur utan á flöskunum um innihaldið er dálítið blekkjandi. 10,6 grömm eða 42 hitaeiningar sýnast hættulitlar tölur, einkum kalóríutalan, sem er átta sinnu lægri en í sama magni af súkkulaði. En uppgefnar tölur miðast við 100 millilítra og það drekkur enginn lifandi maður svo lítið, eða einn þriðja af algengustu flöskunum. 

Það gæfi betri mynd ef greint væri frá því hve mikið sé í einum lítra, þúsund millilítrum, en það magn þykir svo sem ekki mikið daglegt magn hjá kólafíklum, samsvarar innihaldi í þremur litlum plastflöskum.  

Þá er sykurinn 106 grömm og hitaeiningarnar eru hvorki meira né minna en 420.

Ég þekki marga sem drekka talsvert meira en einn lítra af kóladrykkjum á dag og þá eru kalóríurnar orðnar meira en 600 sem eru hættulega há tala, þriðjungur af þeim 2000 hitaeiningum sem meðalmaður þarf á dag, og þetta veldur því að hitaeiningarnar samtals fara fram samtals fram úr daglegum þörfum og afleiðingin er fitusöfnun.

Það er þetta sem átt er við þegar sagt er að dropinn fylli mælinn og magnið sé of mikið.  


mbl.is Óhófleg gosdrykkjaneysla vandamál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvítasykur? Líklega á okkar ágæti Ómar Ragnarsson, sem er mjög vel máli farinn, við borðsykur eða sykur (súkrósi). Á þýsku "Zucker", á ensku "table sugar", á grísku "ζάχαρη".

Og smá fræðsla í skammdeginu; borðsykur er samansettur af tveimur kolvetnis sameindum, glúkósa (þrúgusykur) og frúktósa (ávaxtasykur), kallast því tvísykur. Hanga saman á einu súrefni. Einnig er til tvísykurinn mjólkursykur (laktósi), úr glúkósa og galaktósa. Síðan maltósi (maltsykur) úr tveimur glúkósaeiningum. Látum þetta nægja frá Sviss.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 5.12.2014 kl. 23:04

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gagnslítið er græna kók,
gerist ekki verra,
beita góð en bara djók,
býsna gott í perra.

Þorsteinn Briem, 6.12.2014 kl. 03:38

3 identicon

Smá hártogun en ég held að 330 ml geti ekki kallast algengustu flöskurnar í dag og reyndar eru komin nokkur ár síðan þeir hættu með þær, nú fást eingöngu 250 ml glerflöskur. 500 ml plastflöskurnar, sem eru minnsta plasteiningin, eru væntanlega þær algengustu í dag.


Karl J. (IP-tala skráð) 8.12.2014 kl. 03:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband