Gömul saga af strætisvagni og slökkvibíl.

Við það að lesa um tengda frétt á mbl.is um stefnumót brennandi strætisvagns og slökkvibíls kemur upp í hugann gamalt atvik, þar sem strætisvagn og slökkvibíll áttu óvenjulegt stefnumót.

Á síðari hluta sjötta áratugs síðustu aldar stóð nýinnfluttur slökkvibíll alllengi óhreyfður niðri í porti Eimskipafélagsins við Borgartún vegna fjárskorts. Á meðan varð slökkviliðið að notast við gamla og úrelta bíla og var einn af gamanbrögum mínum á þessum tíma svonefndur Brunabragur, sem sá þetta ástand í skoplegu ljósi. Það var efnahagslægð á Íslandi vegna hruns síldarstofnsins og verðfalls á útflutningsafurðum. Loks kom þó að því að slökkvibíllinn góði yrði leystur út og honum ekið í fyrsta sinn.

Strætisvagnabílstjóri var´á leið á vagni sínum eftir Lönguhlíð þegar nýi slökkvibíllinn fer fram úr honum og stendur reykur aftur úr slökkvibílnum.

Strætóbílstjórinn þenur flautuna og sér að bílstjóri slökkvibílsins virðist ekki taka eftir því að kviknað er í bílnum, enda vandséð hvernig búast megi við því að það kvikni eldur í slökkvibílum.

Þegar vagnstjórinn sér að reykurinn magnast og bílstjóri slökkvibílsins verður hans ekki var, eykur hann hraðann á strætisvagninum, fer flautandi fram úr slökkvibílnum bendandi með höndunum og tekst loks að þvinga hann út í kant og leggja strætisvagninum á ská fyrir framan hann til að stöðva hann.

Bílstjóri slökkvibílsins kemur ævareiður út úr bílnum og hleypur með hnefa á lofti að strætisvagninum án þess að líta til baka.

Stætóbílstjórinn opnar framdyrnar í mestu rólegheitum og slökkvibílstjórinn æðir þar inn fokreiður, sem von von er og spyr hvern andskotann þessi frekjuakstur eigi að þýða með strætisvagn fullan af farþegum sem settir séu í hættu sem og allir aðrir vegfarendur.

"Það er kviknað í" svarar vagnstjórinn.

"Kviknað í?" svarar slökkvibílstjórinn sótrauður af bræði. "Hvaða bull er þetta?"

"Líttu til baka" svarar vagnstjórinn með mestu hægð og bendir með hendinni í átt að slökkvibílnum. 

Slökkvibílstjórinn lítur til baka og verður svo bilt við að hann er næstum dottinn út úr vagninum.

"Það er kviknað í!" hrópar hann æstur. "Hvað á ég að gera?!"

"Nú, kallaðu á slökkviliðið, - kallaðu á liðsauka, -  ertu ekki slökkviðliðsmaður og á slökkvibíl?" svarar vagnstjórinn með ítrustu hægð sem stingur í stúf við æsing slökkvibílstjórans, enda sér vagnstjórinn í baksýnisspeglinum að reykurinn, sem stendur aftur úr slökkvibílnum, er farinn að minnka. 

"Já, en það er kviknað í honum!" hrópar slökkviliðsbílstjórinn í örvinglan.  

"Svona, engan æsing, taktu þessu rólega, það á að vera handslökkvitæki í vagninum. 

"Hvar? Hvar?! æpir slökkvibílstjórinn, skimar aftur í vagninn og rýkur af stað til að leita að því. 

"Svona, rólegur!" kallar vagnstjórinn, "það er hérna frammi í, - þú stóðst rétt fyrir framan það!" 

Slökkvibílstjórinn snýst á hæli, veður að tækin og byrjar að hamast við að reyna að losa það á svo broslega klaufalegan hátt að farþegar strætisvagnsins veltast um af hlátri. 

Á meðan á þessu stendur hefur reykurinn minnkað enn frekar og er alveg horfinn þegar slökkvibílstjórinn getur loksins brotið festingarnar sem halda tækinu og vaðið með það út úr vagninum.

En hann finnur engan eld og kemur sneyptur til baka. 

Í ljós kemur að eftir nokkurra ára stöðu slökkvibílsins niðri í porti hafði handbremsan fest og stóð það mikið á sér þegar ekið var af stað, að smám saman sjóðhitnaði hún svo að það rauk úr henni heljarmikill reykur.

En um leið og bíllinn var stöðvaður kólnaði bremsan og hætti að rjúka úr henni.  


mbl.is „Fundum allt í einu brunalykt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

cool

Þorsteinn Briem, 6.12.2014 kl. 15:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband