16.12.2014 | 12:52
Mesta ólíkindatól íslenskra eldstöðva.
Bárðarbunga er ein af þeim höfuðeldstöðvum landsins sem liggur lengst frá byggð. Kverkfjöll sjást í nágrenni Möðrudals en Bárðarbunga sést hvergi úr byggð.
Á myndinni sést hluti hennar við norðvestrurbrún öskjunnar, en þessi mynd var tekin aðeins tveimur vikum fyrir upphaf skjálftahrinunnar, sem stendur enn, og flaug þess vegna um fjölmiðla hér og erlendis.
Vísa einnig í stutt myndskeið á facebook síðu minni.
Afleiðingin af því hve afskekkt Bárðarbunga er, er sú að ákaflega lítið er vitað um það sem gerst hefur í þessari mögnuðu eldstöð á sögulegum tíma og því ekki vitað um hvort nokkrar beinar hliðstæður eru um það, hvort áður hefur verið í gangi svipað fyrirbæri og nú virðist blasa við með nýrri mælitækni og gosið í Holuhrauni.
Spurningin er hvort hið eldra Holuhraun, sem myndaðist í gosi 1797, hafi komið úr Bárðarbungu, en allt fram undir nýja gosið höfðu vísindamenn hallast að því að tveir gjallgígar við jaðar Dyngjujökuls og gígaröð Holuhrauns og hraunið tengdust eldstöðvakerfi Öskju.
Þremur dögum áður en að athygli fjölmiðla barst að Holuhrauni ákvað ég að taka sérstakar myndir af fyrrnefndum gígum vegna gruns míns um að Holuhraun tengdist Bárðarbungu og að þar gæti gosið.
Um þetta bloggaði ég undir rós á meðan beðið var umsagnar eins af okkar fremstu jarðvísindamönnum.
Hafi hið eldra Holuhraun myndast á svipaðan hátt og nýja hraunið, hafa þeir eldar verið eitthvað minni en hinir nýju.
Ég hafði áður séð Holuhraun alloft en ekki gert mér til fulls grein fyrir umfangi þessarar eldstöðvar fyrr en í fyrrnefndri myndatökuferð, bæði hvað snerti gígaröðina og ekki síður hinn myndarlega gíg og hrauntröðina úr honum, sem sjá má á myndum hér á síðunni.
Vegna þess hve langt Bárðarbunga er frá byggð hafa menn ekki orðið varir við skjálftahrinu í bungunni á þeim tíma, enda verða menn lítið varir við hana nú nema á skjálftamælum.
Og fróðlegt hefði verið að sjá hvernig Bárðarbunga bar ábyrgð á tveimur stórgosum um 871 og 1480 í suðvesturhluta eldstöðvakerfis hennar, sem náði allt suður í Friðland að Fjallabaki.
Varpa ljósi á myndun kvikugangsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Takk nafni.
Alltaf jafn fróðlegt, og jafn gaman að lesa pistla þína.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 16.12.2014 kl. 21:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.